02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. taldi, að stjórnarandstaðan hér á þingi hefði verið heldur neikvæð í afstöðu sinni til þessa frv., sem hér liggur fyrir, sérstaklega neikvæð gagnvart þeim úrræðum, sem fram hafa verið borin í sambandi við hugsanlegar lausnir á togaraverkfallinu. Þær úrlausnir eru einkum þetta, að togaraútgerðarmennirnir hafa snúið sér til Alþ. og farið fram á það, að togaravökulögunum verði breytt, þannig að hvíldartími sjómanna yrði styttur verulega og vinnutími þeirra lengdur úr 12 klst. á sólarhring í 16 klst. Það er satt, stjórnarandstaðan hefur snúizt gegn þessu úrræði, verið neikvæð gagnvart því. Önnur hugmynd hefur komið fram, og hún var hér á sveimi um þingsalina fram eftir öllum vetri og á þá lund, að það væri kannske hugsanlegt úrræði til að bæta um hag togaranna að hleypa þeim inn í íslenzka landhelgi. Ég vona nú, að báðar þessar hugmyndir séu dauðar. Það hefur, sem betur fer, komið fram ein yfirlýsing af hendi sjútvmrh. um síðari hugmyndina, að hún væri ekki lengur vakandi í hug íslenzku ríkisstj. í þriðja lagi kom nú fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) hugmynd, sem ætti að stuðla að lausn málsins, og hún var sú að ráðast svolítið í leiðinni á atvinnuleysistryggingarnar, undanþiggja þennan þátt íslenzks atvinnulífs þeirri skyldu að greiða í atvinnuleysistryggingarnar, og tíminn ágætlega valinn til þess, þegar íslenzkir togarasjómenn eru orðnir atvinnuleysingjar. Já, það var rétta augnablikið!

Ég heyrði ekki betur en hv. 1. þm. Vestf. teldi, að það bæri að harma, að togarasjómenn hefðu á stríðsárunum komizt upp á það að búa við góð kjör, vera hér á fullu kaupi í landi, og þetta viðgengist enn, þegar skip sigldu, án skuldbindinga um að þurfa að fara á skipið aftur, þegar það kæmi úr söluferðinni, og þess væru þannig dæmi, að togarasjómenn hefðu verið á þreföldum tekjum, sagði hann, — þreföldum tekjum. Ég veit ekki, hvers vegna þessar upplýsingar voru gefnar, ef þær voru ekki rökstuðningur fyrir þeirri skoðun hv. þm., að togarasjómenn hefðu gífurlega miklar tekjur og þyrfti ekki úr að bæta. Ég held, að þetta séu einhver undantekningartilfelli, ef Þetta á sér stað, og séu alls ekki að öllum jafnaði mikil tekjubót íslenzkum togarasjómönnum, það verð ég að segja. Það er viðurkennt af öllum, sem af sanngirni vilja líta á Þessi mál, að miðað við vinnutíma togarasjómannsins er hans eftirtekja lítil. Ég sá það nýlega, og mér sýndist það dæmi vera nokkuð rétt reiknað, að þegar lagðar voru niður tekjur þeirra miðaðar við vinnustund, þá fengu þeir út úr því kvennakaup, 16 krónur og nokkra aura á tímann. Það gefur að skilja, að íslenzkri togarasjómannastétt verða ekki boðin þau kjör, enda er komið sem komið er. Þeir hafa ekki unað þeim kjörum og hafa gengið í land, og þess vegna er togaraflotinn stöðvaður, að þeim hefur verið ætlað að una slíkum kjörum.

Mig undrar Það ekki, þó að hv. 1. þm. Vestf. hrykki við, þegar ég harmaði það, að vestfirzkur þm. hefði orðið til þess nú fyrstur manna líklega að koma á framfæri hugmyndinni um fækkun manna á togurunum og lengingu þeirra vinnutíma, styttingu hvíldartímans, þ.e.a.s. koma hér á framfæri hugmyndinni um árásina á vökulögin. En hv. þm. var sá drengur, að hann gekkst við þessu. Hann taldi, að hann hefði hreyft þessu hér ásamt ýmsum öðrum till., sumum nýtilegum, við 1. umr. málsins. Hann gekkst við því, en sagði um leið, að hann hefði ekki verið einn um þessa skoðun, það hefðu ýmsir aðrir verið á sama máli um þetta. Hann fór inn á það að rökstyðja, að þetta væri vel framkvæmanlegt, einkanlega á ísfiskveiðum. Hann vildi ekki halda Því fram, að það væri svo auðvelt að hrófla við vökulögunum kannske á saltfiskveiðum, þá er vinnan auðvitað miklu, miklu meiri, vinnuþrældómurinn meiri, og hann sagði, að hann teldi það ekki neina goðgá eða nein föðurlandssvik að hamra á þessum skoðunum.

Það er vafalaust rétt hjá honum, að þetta verður ekki kennt við föðurlandssvik, og kannske verður það ekki heldur kölluð goðgá. En þó að hann fari rétt með það, að vinnuharkan á togurunum nú sé ekkert sambærileg við það, sem var, þegar togaraútgerð hófst hér og menn, eins og hann játaði, stóðu 11/2–2 sólarhringa og kannske eitthvað á þriðja sólarhringinn án verulegs hvíldartíma á milli, þangað til þeir voru örmagna og vissu ekkert, hvað þeir gerðu, hvort þeir voru að skera af sér fingur eða hvort þeir voru að skera dálkinn úr fiskinum, voru orðnir svo dofnir, — þó að Það sé rétt hjá honum, að þrældómurinn sé ekkert álíka nú eins og áður en togaravökulögin voru sett, þá er víst, að það er alveg vonlaust mál, að hægt sé að hrófla við vökulögunum. Það er áreiðanlega orðum aukið, að sjómenn séu ekki andvígir því, en því hélt hv. þm. fram. Eða hvernig eru þau til komin, mótmælin, sem hafa borizt inn fyrir veggi Alþ. frá hverri togaraskipshöfninni á fætur annarri, einróma um það að andmæla því, að haggað sé við togaravökulögunum? Eru það pöntuð mótmæli? Þau breiddust svo skyndilega út yfir togaraflotann eins og eldur færi um sínu.

Nei, ég held, að það hafi verið alveg „spontant“, ekki nein pöntuð mótmæli, að það sagði til sín strax vakandi vilji, varnarvilji togarasjómannanna gagnvart vökulögunum. Af þeim mótmælum les ég það, að það sé ekki vilji hjá sjómönnum til þess að leysa þessi mál á kostnað þeirra lagaákvæða um hvíld togarasjómanna, sem þeir eiga nú við að búa. Það, sem nákvæmlega felst í erindi togaraútgerðarmanna, Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, er þetta: að togaravökulögunum verði breytt á þann veg, að vinnutíminn verði lengdur úr 12 klst. á sólarhring í 16 klst. á sólarhring. Og það segja mótmæli togarasjómannanna skilmerkilega, að þá breytingu uni þeir ekki við, henni mótmæli þeir harðlega. Enda hefur farið svo, að aðalmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið, hefur hlaupið frá sinni afstöðu. Það tók mjög jákvætt undir þessar kröfur útgerðarmannanna í fyrstu, en hefur reynt að þurrka það allt saman út aftur. Það tekst nú ekki, Það stendur svart á hvítu, undirtektir Morgunblaðsins undir þessar kröfur togaraeigendanna voru jákvæðar í upphafi. En hræðslan greip málgagnið fljótt, og það hvarf frá þessari afstöðu.

Hv. þm. sagði, að togarasjómennirnir fengju nóga hvíld á ísfiskveiðum a.m.k., þó að togaravökulögunum yrði breytt. Hann heldur því þannig fram enn í dag, að þetta sé hugsanleg lausn á togaravandamálinu og togaraverkfallinu. Það er því staðreynd, nú öllum kunn, að einn af hv. þm. Sjálfstfl, er hér enn málsvari fyrir þessari kröfu togaraútgerðarmanna. Og mér finnst það dálítið einkennilegt, að annar hv. þm. Sjálfstfl. skuli hafa gufað upp á Alþ. og horfið, þegar mest þörf var á honum sem málsvara sjómannastéttarinnar sem varaformanni Sjómannafélags Reykjavíkur, það verð ég að segja. Það er dálítið sérkennilegt, að þetta skyldi bera upp á sama tímann. Einn þm. flokksins gerir kröfur togaraeigendanna um árásina á vökulögin að sínum og segist hvorki vilja kenna það við goðgá né föðurlandssvik, sem sé hann standi alveg teinréttur við þessa afstöðu sína, en sá, sem átti að vera málsvarinn, er horfinn.

Þá lét hv. þm. í ljós undrun sína á því, að ég skyldi hafa borið fram kröfu um hækkun á genginu til þess að rétta hag togaraútgerðarinnar og að hv. 3. þm. Reykv. (EOl) hefði tekið þessa till. mína upp í ræðu sinni á eftir. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Ég hreyfði engri slíkri till. En hitt er rétt, að ég lét í ljós þá skoðun, að það hefði verið jafnvel betra, að gengisfellingarnar, sem hafa verið framkvæmdar, hefðu ekki verið framkvæmdar. Það er ekki svo auðvelt að kippa breyttu gengi til baka, þegar búið er að framkvæma gengisbreytingu, en hins vegar sýndi ég fram á það, að gengisbreytingarnar hefðu hækkað marga stórútgjaldaliði togaraútgerðarinnar og hef þar fyrir mér tölur úr bókhaldi togaraútgerða.

Ég nefndi þar, og það skal ég endurtaka, að vátryggingargjöld, sem voru almennt um 300 þús. kr. á togara fyrir fyrri gengislækkunina, eru nú komin allt upp í 1 millj. 250 þús. á hinum yngri og dýrari togurum, sem eru á viðreisnarverði, eftir gengislækkun. Að olían hefur meira en tvöfaldazt í verði, er fyrst og fremst afleiðing af gengislækkununum. Vátrygging togaranna er enginn smáliður, og þar lagði jafnvel einn af hv. þm. Sjálfstfl. til, að gripið yrði til þjóðnýtingar, vátryggingariðgjöldin væru svo há, hvíldu svo þungt á togaraútgerðinni, að það væri jafnvel ástæða til, að tryggingastarfsemin væri þjóðnýtt, og þar erum við alveg sammála. Það á að tryggja það, að vátryggingastarfsemin í landinu sé ekki stórgróðafyrirtæki á kostnað frumatvinnuveganna í landinu og þeim til lömunar, og það er alveg óviðurkvæmilegt að láta það ástand haldast. Vitanlega eiga þessar opinberu tryggingar að vera Þá í höndum hins opinbera og iðgjöldum hagað þannig, að það sé eingöngu til að standa undir tryggingunum með nauðsynlegustu iðgjöldunum og ekki með nokkra tilhneigingu til þess að safna á því gróða.

Ég átti fyrir nokkrum mánuðum tal við tryggingaforstjórann í Færeyjum, og hann sagði mér það í óspurðum fréttum, að sér bærust oft frá Íslandi fyrirspurnir um, hvort ekki væri hægt að fá að tryggja íslenzk skip í ríkistryggingunni í Færeyjum, — þessi grein er þar þjóðnýtt, — því að þeir segðu, að tryggingaiðgjöld hér væru um það bil tvöfalt hærri en þar. Hann hefði því miður orðið að gefa þær upplýsingar, að það væri einungis hægt að vátryggja í Færeyjum þau skip, sem þar væru skrásett, væru skrásett þaðan, og þannig hefði þeim verið synjað um þetta. Þetta sýndi mér Þá Þegar það, sem hv. 1. þm. Vestf. viðurkenndi nú og margir hafa viðurkennt á þessu þingi, að tryggingastarfsemi væri hér að því leyti í ólestri, að tryggjendur væru hafðir að féþúfu og iðgjöldin margfalt hærri en þau þyrftu að vera.

Vextir af 40 millj. kr. togara, — það kosta núna þessir þúsund tonna togarar eftir gengislækkun, — eru á 4. millj., og það er komið í þessar svimháu tölur sem afleiðing af gengislækkununum. Það munu því ýmsir verða mér sammála um, að það væri betra, ef hægt væri að kippa þessum gengislækkunum til baka. Þær hafa ekki orðið slík hjálp frumatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútveginum og landbúnaðinum, eins og látið var í veðri vaka. Þær hafa ekki orðið til þess, að sjávarútvegur á Íslandi gengi án uppbóta og styrkja, heldur einmitt leitt til þess, að nú verður að hjálpa þessum atvinnuvegum með uppbótum og styrkjum.

Nú eru forustumenn sjómannasamtakanna búnir að þreyta samninga í sjö mánuði við útgerðarmenn togarafélaganna. Þeir eru búnir að þreyta samninga í sjö mánuði, og það er komið á þriðja ár, síðan samningunum var sagt upp. Farið er fram á 20–22%o kjarabætur, og sjómennirnir fá enga áheyrn. Þetta eru meginatriðin í því máli. En það, sem var uppistaðan í minni ræðu áðan, var, að svo illt sem það væri að skattleggja bátaflotann vegna togaraflotans með því að taka þá sjóðseign, nokkra tugi milljóna, sem hafa safnazt í hlutatryggingasjóði bátaútvegsins, og nota nú til að bjarga togaraútgerðinni, — ja, bjarga henni aðeins á þann hátt að grynna á skuldunum, eins og hæstv. ráðh. hefur sagt, og að þyngja skattinn á bátaútveginum í viðbót, eins og ákveðið er með þessu frv., — þá væri það þó sök sér, ef það væri gert til þess að koma togaraflotanum af stað. En þegar það er svo játað, að þessi skattlagning á bátaflotann verði engin lausn í því máli, togararnir verði bundnir eftir sem áður, þá tel ég þetta enga lausn og teldi, að það væri aðgengilegra fyrir hv. þm.samþ. frv. sem þetta, þó að það fæli í sér nokkrum tugum millj. meiri tekjuöflun til handa togaraútgerðinni, ef þá væri hægt að lýsa því yfir, að hún jafnframt færi af stað og yrði jafnframt lifandi þáttur í íslenzku framleiðslustarfi. Það er ekki því að heilsa, það hefur komið berlega í ljós af svörum hæstv. sjútvmrh., togararnir verða áfram bundnir og deilan að engu leyti leyst, þó að þetta frv. verði samþ. Og þá finnst mér það koma til lítils, því að það er auðvitað staðreynd, að togararnir gætu alveg eins legið bundnir hér í höfn með sínar skuldabyrðar frá umliðnum árum. Það held ég, að væri Þó óráðlegast af öllu að hyggja nú á að rýra tekjur atvinnuleysistrygginganna í sambandi við þetta mál, þegar togarasjómennirnir, um 800 talsins, eru komnir í hóp atvinnuleysingja.