03.04.1962
Efri deild: 78. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða þetta frv. efnislega á þessu stigi, þar sem það mun væntanlega koma í n., þar sem ég á sæti, en ég vil þó við þessa 1. umr. beina örfáum spurningum til hæstv. sjútvmrh. Hann las hér upp skrá um heildarafla togara undanfarin fjögur ár og sýndi fram á, hversu aflinn hefði dregizt saman. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hefur hann ekki handbærar hliðstæðar upplýsingar um það, hvað andvirði þessa afla var hvert ár fyrir sig, því að aflamagnið segir ekki allt? Þetta tel ég mikils virði að vita, því að auðvitað er það fyrst og fremst andvirði aflans, sem segir til um það eða gefur bendingu um það, hvernig útkoman er hvert ár fyrir sig, þegar árin eru borin saman. Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi ekki einhverjar upplýsingar að gefa um Það, hversu raunverulegur veiðitími togaranna var langur hvert ár fyrir sig, því að það er auðvitað ekki hægt að búast við, að togari afli eins og áður, ef hann er ekki álíka lengi við veiðar.

Þá sakna ég þess, að í grg. þessa frv. fylgja engar upplýsingar frá þeirri n., sem hæstv. ríkisstj. skipaði til að rannsaka hag togaraflotans, en það sýnist mér, að sé nauðsynlegt, að alþm. eða a.m.k. þn. fái sem gleggstar upplýsingar um það, hvernig hag þeirra er raunverulega komið. Ég sé ekki, að í grg. frv. séu neinar upplýsingar um hag togaraútvegsins. Það er bent á, að hann sé illa kominn fjárhagslega, og það er ekkert að efast um, að svo er, en það er náttúrlega ekki nóg að vita það eitt. Ég hygg, að í flestum hliðstæðum málum sé leitazt við að gefa sem ýtarlegastar upplýsingar um það, hversu illa er komið fyrir hverjum þeim, sem aðstoðar þarf frá ríkisins hálfu. Ég vil því spyrja um það, eins og ég sagði áðan, hvort t.d. sjútvn. má ekki eiga von á því að fá yfirlit yfir hag togaraflotans eða þær niðurstöður, sem sú rannsóknarnefnd hefur fengið með sinni rannsókn.

Hæstv. ráðh. drap á það, að komið hefði til mála að leyfa togurunum veiðar inni í landhelginni, og það fer víst ekki á milli mála, að það kom til mála. En hann orðaði það þannig, að þessu hefði verið afstýrt í bili. Á þá bátaftotinn það kannske yfir höfði sér, að þetta sé bara í bili, sem þessari hættu fyrir hann er afstýrt, eða hefur hæstv. ríkisstj. nokkuð það á prjónunum, að það geti komið til þess síðar að leyfa slíkt?

Eins og kunnugt er, hefur það valdið mestri andstöðu gegn þessu frv., að nú á að láta bátaútveginn bera að verulegu leyti þær bætur, sem ætlaðar eru togurunum. Ég ætla ekki að fara út í það að þessu sinni, hvaða sanngirni mælir með þessu, en ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki sé hætta á því, að aflatryggingasjóður verði verulega minna virði á eftir fyrir sjálfa bátana, þegar þetta kerfi er komið á.

Að lokum drap hæstv. ráðh. á þær upplýsingar, sem fram hefðu komið í hv. Nd., að togaraflotinn hefði í raun og veru greitt til aðstoðar bátaútgerð í landinu verulegar upphæðir á liðnum árum með því fiskveiðasjóðsgjaldi, sem frá togurum hefur runnið í fiskveiðasjóð, sem lánar aðallega til báta. Ég veit ekki, hvernig það reikningsdæmi hefur verið reiknað hjá þeim hv. þm., sem kom með þessar upplýsingar í hv. Nd. Ég man þó það, að útflutningsgjald af sjávarafurðum er búið að vera ákaflega lengi í gildi, ég ætla milli 20 og 30 ár, en var alllengi framan af tekjustofn ríkisins og gekk þar af leiðandi alls ekki til báta.

Hæstv. ráðh. sagði, að á þennan hátt hefði togaraflotinn greitt um 100 millj. kr., ég ætla á 13 árum, kann að hafa verið á lengri tíma, ég vil ekki fullyrða það, en hafi þó samtals greitt um 100 millj. kr. í fiskveiðasjóð, sem bátarnir hefðu notið til að fá lán úr. Þessu er auðvitað alls ekki að neita, að gjaldið hefur runnið á þennan hátt í fiskveiðasjóð. En Það breytir, eins og ég sagði áðan, svo ákaflega litlu, hvort það fer beina leið í fiskveiðasjóð eða fyrst í ríkissjóð og ríkissjóður aðstoðar svo fiskveiðasjóð. En mér þykir upphæðin harla ótrúleg, því að ég hef fengið þær upplýsingar, að útflutningsgjald til fiskveiðasjóðs frá upphafi hafi numið rúmum 200 millj., frá því að fiskveiðasjóður varð til, — og að togararnir hafi greitt helminginn af þessari upphæð, það þykir mér fremur ótrúleg saga. En það er ekki vert að deila um það, þegar hvorki ég né kannske aðrir hafa í höndunum fullnægjandi upplýsingar um þetta. Þessi skýring eða þessi rökstuðningur segir í sjálfu sér svo ákaflega litið, vegna þess að ef á að fara út í meting milli bátaútvegs og togara, þá verður að taka um leið með í reikninginn, hvers konar aðstoð frá hinu opinbera í beggja þágu veitt hefur verið.

Og ég ætla, að það þurfi ekki að lesa lengi til þess að komast að raun um, að togaraútgerð í landinu hefur ekki verið nein hornreka a.m.k. á tímabili. Hvenær ætli bátaútgerð í landinu hafi notið þeirra fríðinda, sem togaraútgerð hefur þó notið? Ég þarf ekki annað en minna á stofnlánadeildina frá 1946, þar sem ríkissjóður útvegaði mikið fjármagn til að endurnýja togaraflotann, og útvegsmenn togara fengu þar, að ég ætla, 90% stofnlán til sinna togarakaupa, og lánin, sem þeim voru veitt, þeim 30 togurum, sem upphaflega voru keyptir, hafi verið með 21/2% vöxtum. Ég man ekki eftir því, að bátaútvegurinn á Íslandi hafi notið þessara kjara. En ef á að fara að telja eftir þann hlut af útflutningsgjaldinu, sem runnið hefur til fiskveiðasjóðs, og komið er frá togurunum, þá held ég að þyrfti að fara út í eitthvað fleiri sálma en þetta.

Það má svo sem drepa á það, hvernig þessi útgerð hefur notið fyrirgreiðslu hins opinbera, með því að benda á ríkisábyrgðir. Það er líklega ólík saga togaraútgerðar annars vegar og bátaútvegs hins vegar, ef farið er út í það. Þrátt fyrir þetta, þótt ég bendi á að gefnu tilefni, að þarna var á vafasaman hátt verið að draga fram einhverja fórn af hálfu togara í þágu báta, vil ég taka það fram, að ég tel sjálfsagðan hlut að greiða fyrir togaraútgerðinni í landinu, eins og nú er komið fyrir henni. Hitt er annað mál, hvort það á að gera með þeim hætti að leggja byrðar á bátaútveginn. Það hljóta að vera til aðrar leiðir en það. En um þetta skal ég ekki ræða frekar, eins og ég sagði áðan, þar sem tækifæri gefst til þess væntanlega síðar og málið á eftir að koma í n., sem ég á sæti í.

Ég vil endurtaka þær spurningar, sem ég vil vinsamlegast beina til hæstv. ráðh., ef hann hefur tök á því að svara Þeim að þessu sinni, eða þá síðar, ef hann getur það. Og það var í fyrsta lagi, hvert andvirði útflutnings á togveiðum hefur orðið hvert ár fyrir sig undanfarin fjögur ár, hver raunverulegur veiðitími togaranna hefur verið þessi ár og hvort ekki muni vera hægt að fá fullnægjandi upplýsingar um hag togaraútgerðarinnar, a.m.k. að sjútvn. geti fengið þær upplýsingar, sem liggja fyrir í niðurstöðum rannsóknarnefndar þeirrar, sem hæstv. ríkisstj. skipaði. Og loks spurði ég um það, hvort hæstv. ráðh. áliti, að það væri engin hætta á því, að aflatrygging bátanna rýrnaði að verulegu leyti, eftir að þetta kerfi er komið á og togaraflotinn kominn þarna með, með þeim hætti, sem ætlazt er til, ef aflaleysi togara helzt áfram eins og verið hefur nú undanfarin tvö ár.