31.03.1962
Efri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að í fyrsta sinn verði nú sett heildarlöggjöf um tekjustofna sveitarfélaganna. Meginatriði frv. eru þessi:

Í fyrsta lagi, að fasteignaskattur verði lögákveðinn í öllum sveitarfélögum. Skal hann vera samkv. 3. gr. 1% af fasteignamatsverði húsa og annarra mannvirkja, en 2% af virðingarverði byggingarlóða. Nú eru heimildarákvæði í lögum fyrir sveitarfélög til að leggja á fasteignaskatt, og eru þau notuð í öllum kaupstöðum og nokkrum öðrum sveitarfélögum. Í þessu frv. er það ákveðið, að í öllum sveitarfélögum skuli leggja á slíkan skatt. Þá er veitt heimild til þess fyrir sveitarstjórnir með samþykki ráðuneytisins að innheimta slíkan skatt með allt að 200% álagi.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að í stað þess, að fram til ársins 1960 skyldi jafna niður útsvörum eftir efnum og ástæðum og í l. frá 1960 voru ákveðnir þrír útsvarsstigar, þá skuli nú gilda einn og sami útsvarsstigi um allt land.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að veltuútsvör, sem voru heimil samkv. ákvæðinu um niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum og settar voru svo nokkrar skorður við og hámark í I. 1960, skuli nú afnumin með öllu. Til þess að bæta sveitarfélögunum upp missi tekna vegna veltuútsvara, en þær námu um 85 millj. á s.l. ári, er gert ráð fyrir aðstöðugjaldi, sem III. kafli þessa frv. fjallar um, og landsútsvörum. Um aðstöðugjaldið eru nánari reglur í III. kafla þessa frv., og segir þar, að aðstöðugjaldið megi vera hæst 2%, en nánar tiltekið í 10. gr., hver skuli hámarksprósenta fyrir vissar atvinnugreinar.

Landsútsvörin eru nýmæli, en samtök sveitarstjórna hafa árum saman óskað eftir því, að þau yrðu lögleidd. Er gert ráð fyrir, að landsútsvör verði lögð á nokkur ríkisfyrirtæki og enn fremur olíufélög, eftir því sem nánar greinir í IV. kafla frv. Þau skulu renna að 1/4 til þess sveitarfélags, þar sem hlutaðeigandi stofnun er, en að 3/4 í jöfnunarsjóð sveitarfélaga og skal þaðan skipt milli sveitarfélaganna eftir Íbúatölu þeirra.

Þá eru staðfest ákvæði, sem lögtekin voru 1960 um hluta af söluskatti, sem renna skal til jöfnunarsjóðs og þaðan útdeilt til sveitarfélaganna eftir sömu reglum og gilt hafa undanfarin tvö ár.

Ég vil að öðru leyti vísa um greinargerð og rökstuðning fyrir þessu frv. til þeirra athugasemda, sem frv. fylgja, og í því sambandi einnig benda á Þá ýtarlegu frásögn, sem prentuð er sem fskj. með frv., eftir þá Jónas Guðmundsson, formann Sambands íslenzkra sveitarfélaga og Pál Líndal, skrifstofustjóra, um tekjustofna sveitarfélaga í ýmsum löndum Evrópu.

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum að svo stöddu, m.a. vegna hinnar ýtarlegu grg., sem því fylgir, en legg til, að frv. sé vísað til 2, umr. og hv. heilbr: og félmn.