02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. fjhn. með fyrirvara og vil með örfáum orðum gera grein fyrir því, í hverju hann er fólginn.

Ég tel, að það að aðskilja bókhald ríkisábyrgðastarfseminnar sé til verulegra bóta og verði að teljast fullkomlega eðlilegt, en það er í raun og veru aðalatriði þessa frv. Á hinn bóginn er ég algerlega andvígur því, að sá gengishagnaður, sem varð vegna útflutningsbirgða, sem fyrir hendi voru í landinu, þegar gengið var fellt 3. ágúst s.l., verði tekinn til ríkisþarfa, án þess að ég muni þó upphefja deilur um það mál hér, og ég tel eðlilegra, að það sé gert í sambandi við frv. til l. um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar. En þar sem ákvæði um það, hvernig þessum gengishagnaði skuli varið, hann skuli renna í ríkissjóð, en ekki til atvinnuveganna, beint til sjávarútvegsins, eins og ég hefði talið eðlilegast, — þar sem þessi ákvæði eru í öðrum lögum og fullvíst má telja, að það frv., sem um það fjallar, verði samþ., hef ég ekki séð ástæðu til að ganga á móti málinu í heild sinni af þeim ástaeðum, enda víst, að hver sem afdrif þessa frv. verða, verður gengishagnaðinum varið á þennan hátt. En ég tel, eins og ég áður sagði, að að öðru leyti sé þessi skipan mála til verulegra bóta og fullkomlega eðlileg, og mun því þrátt fyrir þetta fylgja því.