05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

220. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Með þessu frv. er lagt til, að framlengt verði um tvö ár gildandi lagaákvæði um ráðstöfun á hagnaði viðtækjaverzlunar ríkisins, en um nokkur ár undanfarið hafa þau ákvæði gilt, að hagnaði viðtækjaverzlunarinnar skuli ráðstafað þannig, að 3/5 hans gangi til að greiða byggingarskuldir þjóðleikhússins, en 2/5 hlutum er menntmrh. heimilt að verja til styrktar Sinfóníuhljómsveit Íslands. Gert er ráð fyrir í þessu frv., að þessi ákvæði verði framlengd um tvö ár enn.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.