02.02.1962
Efri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er fylgjandi því, að sem flestir landsmenn geti orðið aðnjótandi þeirra réttinda, sem lífeyristrygging veitir. Þar af leiðandi er ég meðmæltur þeirri meginstefnu, sem þetta frv. er byggt á. Reyndar má segja, eins og þegar hefur verið bent á, að hér sé í sjálfu sér ekki um að ræða fjölgun manna, sem nú njóta lífeyrisréttinda, þar eð svo hefur verið, að frá 1959 hafa þeir aðilar, sem með þessu frv. er gert ráð fyrir að bætist í lífeyrissjóð togarasjómanna, notið lífeyristryggingar samkvæmt sérstökum samningum við skipafélögin, og iðgjöld þeirra hafa verið innheimt og lögð til hliðar, þannig að það má segja, að á þessu tímabili hafi komið upp sérstakir lífeyrissjóðir hjá hinum einstöku skipafélögum, þar sem undirmenn á farskipum, að sjálfsögðu ásamt yfirmönnum, eru tryggðir, og raunar eru þessir sjóðir hjá þeim sumum eldri. Það er að sjálfsögðu rétt, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það getur verið álitamál, hvort heppilegra sé að láta slíka sérsjóði starfa áfram og vera í vörzlu og umsjón hinna einstöku skipafélaga eða steypa þessum sérstöku sjóðum saman og leggja þá til lífeyrissjóðs togarasjómanna, svo sem hér er ráð fyrir gert.

Þegar mál þetta var athugað og undirbúið, þá var leitað, ef ég man rétt, álits og tillagna, bæði skipafélaganna og skipshafna á þessum skipum og reynt, ef ég man rétt, að ná til svo að segja hvers einasta skipverja á þessum skipum, þannig að hann gæti látið uppi álit um það, hvers hann óskaði í þessu efni. Muni ég rétt, þá var það nokkuð eindregið álit skipafélaganna, að þau teldu heppilegra, að þessir sjóðir væru áfram í þeirra vörzlum. En ég hygg hins vegar, að það hafi komið fram, að það væri vilji yfirgnæfandi meiri hluta skipverjanna, að þeir væru færðir í lífeyrissjóð togarasjómanna og tryggðir þar. Ég hygg, að í raun og veru sé ekki hægt að segja, að það sé munur á þeim réttindum, sem þessir sjóðir veita, lífeyrissjóður togarasjómanna og hinir sérstöku sjóðir, sem settir hafa verið á stofn, þannig að að því leyti til er nú ekki hægt að gera upp á milli þessara sjóða, og það má segja, að ekki séu óeðlilegar út af fyrir sig óskir skipafélaganna, sem greiða meiri hluta iðgjalda þeirra, sem hér er um að tefla, að hafa þennan sjóð í sinni umsjá og vörzlu, að sjálfsögðu með þátttöku af hálfu sjómannanna eða skipverjanna í stjórn sjóðsins, en svo mun það nú vera alls staðar. En á hinn bóginn er á að líta óskir sjómannanna og svo hitt, að þó að það sé ekki hægt að segja, að þeim tryggðu sé fjölgað með þessu frv., þá er þó réttarstöðu þeirra breytt að því leyti til, að ef þetta frv. verður að lögum, þá fá þeir þar með lögtryggðan þennan rétt í stað þess, að það er nú algerlega hjá þessum mönnum komið undir kaupgjalds- og kjarasamningum. Ég fyrir mitt leyti verð því að telja, að það sé að þessu leyti stefnt í rétta átt með þessu frv., að taka þetta beinlínis upp í lög og tryggja skipverjum lífeyrinn með lögum. En að sjálfsögðu verður það athugað hjá þeirri nefnd, sem frv. þetta fær til meðferðar, hvort það er rétt sú stefna, sem í þessu frv. felst, að steypa þessu í einn allsherjarsjóð, lífeyrissjóðinn, eða láta sérsjóðina halda áfram að starfa. Ef það er svo sem ráðherrann gat um, að skipafélögin mundu, að mér skildist, sætta sig við þetta fyrirkomulag, þá sýnist það eðlilegt, þegar tillit er líka tekið til eindreginna óska sjómannanna.

En það, sem veldur því, að ég segi hér nokkur orð, er sú breyting, sem gerð hefur verið með 11. gr. frv. Samkv. lögum um lífeyrissjóð togarasjómanna hætta iðgjaldagreiðslur ekki í þann sjóð fyrr en eftir 35 ár. Samkv. 11. gr. í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir, að iðgjaldagreiðslur hætti eftir 30 ár. Þegar til lífeyrissjóðs togarasjómanna var stofnað á sínum tíma, var iðgjaldagreiðslan í hann ákveðin samkv. útreikningum tryggingafræðings, og þótti þá ekki fært, að hún væri minni en þar er ákveðið. En það er auðsætt, að eitt meginatriði í upphæð iðgjaldanna hlýtur að vera sá tími, sem iðgjöldin eru greidd. Þarna er raunverulega um það að ræða, að iðgjaldagreiðslutíminn er lækkaður úr 35 árum niður í 30 ár. Þetta skilst mér, að hljóti að hafa í för með sér þó nokkra tekjurýrnun fyrir sjóðinn. Ég efast um, að sjóðurinn megi við því, því að sannleikurinn er sá, að innheimta iðgjalda í lífeyrissjóð togarasjómanna hefur gengið mun tregar en menn gerðu ráð fyrir, þegar til hans var stofnað. Og sjóðurinn mun því verða fyrir tjóni af þeim sökum, fyrst og fremst vaktatapi og svo e.t.v. frekari töpum. Ég kvaddi mér þess vegna hljóðs til að beina því til þeirrar nefndar, sem fær þetta frv. til athugunar, að hún athugi þetta atriði gaumgæfilega og fái álit tryggingafræðings á því, hvort það sé forsvaranlegt að stofna til tryggingarinnar með þessum hætti. Þessi sjóður er þannig upp settur og byggður, gagnstætt því, sem er t.d. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að það er enginn aðili, sem ber á honum neina ábyrgð. Það er enginn aðili í neinni bakábyrgð fyrir þennan sjóð. Hann verður því sjálfur að vera þannig úr garði gerður, að hann geti staðið undir sínum skuldbindingum. Það er að vísu æskilegt, að aðilar þurfi ekki að greiða iðgjöld í þennan sjóð nema í sem allra styðstan tíma, og það væri æskilegt, ef þeir gætu sloppið við iðgjaldagreiðslur, eftir að þeir hafa greitt og það hefur verið greitt fyrir þá í 30 ár í sjóðinn. En ég álít, að það væri blekking að fara af stað með slíka tryggingu vitandi vits, að iðgjöld mundu ekki hrökkva til að standa undir skuldbindingum sjóðsins, og þess vegna tel ég ekki forsvaranlegt annað en að það sé athugað mjög gaumgæfilega, þegar þessum sjóðum er þannig steypt saman, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, hvort það hafi við það orðið einhver breyting á, sem geri það forsvaranlegt að lækka þannig iðgjaldagreiðslutímann.