16.04.1962
Neðri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið til hv. d. frá Ed. og hefur lengi verið þar til athugunar. Skv. frv. verður lífeyrissjóður togarasjómanna, sem stofnaður var með lögum nr. 49/1959, framvegis sameiginlegur fyrir togarasjómenn og fyrir undirmenn á kaupskipum og varðskipum. Nafn sjóðsins breytist til samræmis við þetta stækkaða verksvið hans. Frv. er samhljóða lögum nr. 49 frá 1959, um lífeyrissjóð togarasjómanna, í flestum atriðum. Með því eru ekki gerðar aðrar breytingar á lögunum en þær, sem nauðsynlegar eru vegna aðildar farmanna og varóskipsmanna að sjóðnum.

Ég tel ekki þörf á að rekja efni frv. Það hefur inni að halda svipaðar reglur og þær, sem venjulegar eru um lífeyrissjóði. Ed. fékk jákvæðar umsagnir um frv. frá þessum aðilum: Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Skipaútgerð ríkisins, landhelgisgæzlunni og frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Farmanna- og fiskmannasambandið vill láta fresta afgreiðslu málsins, og Skipadeild Sambands ísl. samvinnufélaga er frv. andvíg. Telur Skipadeildin hentugra, að sérhver starfsmaður sé sjóðfélagi í lífeyrissjóði hjá því fyrirtæki, sem hann vinnur fyrir. Mótmæli gegn frv. munu hafa borizt frá 16 togurum. Það er ekki auðvelt að sjá, hvort allar áhafnirnar standa að baki mótmælunum eða aðeins yfirmennirnir. Mótmælin eru öll byggð á því, að ekki megi hleypa farmönnum inn í hinn fjársterka lífeyrissjóð togaramanna, þeir fái þar réttindi, en leggi sjóðnum ekkert til. Þetta er hreinn misskilningur þeirra, sem að þessum mótmælum standa, og verður það ljóst, ef menn lesa 1. tölul. í ákv. til brb. í frv., en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er sjóðnum að veita viðtöku iðgjöldum, sem haldið hefur verið eftir vegna skipverja á farskipum frá 1. jan. 1959, svo og hluta útgerðarmanns, og veita þeim réttindi sjóðfélaga í samræmi við það:

Lífeyrissjóður togarasjómanna var stofnaður á miðju ári 1958, en lífeyrissjóður farmanna hefur, skv. kjarasamningum, verið til frá 1. jan. 1959, og er aldursmunur sjóðanna því aðeins sex mánuðir. Farmannasjóðurinn er alls ekki eignalaus, eins og þeir aðilar, sem mótmælin sömdu, munu hafa haldið. Sjóðfélagar í honum fá réttindi í samræmi við það, hvenær sá sjóður var stofnaður, nema að því er varðar eldri menn. Þeir fá sams konar réttindi í sjóðnum og eldri menn á togurum, eins og kveðið er á um í brbákv., en þann kostnað, sem af því hlýzt, endurgreiðir ríkissjóður árlega, og verða þau ákvæði alls ekki sjóði togaramanna til neinnar byrði.

Að því hefur verið fundið, að ekki skuli vera komið með frv. um lífeyrissjóð fyrir alla sjómenn. En það mætti alveg eins spyrja, hvers vegna ekki séu sett lög um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Mér skilst, að flestir eða allir lífeyrissjóðir, sem til eru í landinu, séu þannig til komnir, að einstakir hópar launþega hafi tryggt sér lífeyrisréttindi í kjarasamningum. Oftast mun reglan vera sú, að launþeginn sjálfur greiðir í sjóðinn 4% af kaupi sínu, en vinnuveitandinn greiðir 6% á móti. Þau 6%, sem koma frá vinnuveitandanum, eru þannig hluti af því kaupi, sem hann þarf að greiða og reikna með í útgjöldum sínum, og liggur í hlutarins eðli, að þessi liður hefur áhrif á, hvað vinnuveitandinn telur sér að öðru leyti fært að greiða í kaup. Því er það, að meðan ekki hafa verið sett lög um lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla, þá hljóta nýir lífeyrissjóðir að verða til með sama hætti og áður, þ.e.a.s. við samningaborðið milli launþega og kaupgreiðenda, og á þetta þá jafnt við um bátasjómenn og aðra, sem ekki hafa enn þá myndað lífeyrissjóði.

Ég er þeirrar skoðunar, að þótt ekki hafi enn þá tekizt að semja um lífeyrissjóð fyrir alla sjómenn, sé ekki rétt að fresta afgreiðslu þessa máls, en það var lagt til af minni hl. heilbr.- og félmn. hv. Ed. og er einnig lagt til af minni hl. heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar.

Ég legg þess vegna til f.h. meiri hl. heilbr.- og félmn., að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það er komið frá Ed. Þar voru gerðar þær breytingar á upphaflega frv., sem fram koma í nál. á þskj. 730. Miðar sú fyrsta þeirra, sem er við 3. gr., að því að taka af tvímæli um aðild varðskipsmanna að sjóðnum. Önnur breytingin, sem er við 5. gr., 1. málsl., kveður á um fjölgun í sjóðsstjórninni úr fimm mönnum í sjö. Og sú þriðja er við 13. gr., 2. málsgr., þar sem sagt er: „Upphæð lífeyrisins er hundraðshluti af meðallaunum hlutaðeigandi sjóðfélaga síðustu 10 starfsár hans.“ Við þetta var bætt orðunum: „eða síðustu 20 starfsár, ef það er sjóðfélaga hagfelldara.“

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að farmenn eiga rúmlega þriggja ára gamlan lífeyrissjóð og ganga þess vegna ekki eignalausir inn í lífeyrissjóð togaramanna samkv. þessu frv. Sú mótbára gegn frv. er á misskilningi byggð. Á það má enn fremur benda, að slysahætta á kaupskipum er minni en slysahætta á togurum, og að því leyti verður hagkvæmt fyrir togaramenn að vera í lífeyrissjóði með farmönnum.