16.04.1962
Neðri deild: 96. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það hafa orðið allnokkrar umr. um málið, síðan ég talaði hér síðast.

Vil ég fyrst víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ). Hann ræddi einkum um meðferð málsins hér í deild og í hv. heilbr.- og félmn. Hann hnekkti engu af því, sem ég hafði sagt um þá vinnuaðstöðu og þau vinnubrögð, en rakti í raun og veru miklu ýtarlegar en ég gerði, hversu starfsaðstaðan var gjörómöguleg til þess að vinna nokkuð að því að kynna sér málið. Út í þetta fór hann í einstökum atriðum miklu nákvæmar en ég gerði, og gerði þannig þeim hv. fáu þdm., sem hér eru nú, enn betur ljóst, að vinnuaðstaðan var engin. Það er auðvitað ekki hægt að ætla þm. að starfa í nefnd samtímis því, sem deildarfundur starfar og menn eru af nefndarfundinum kallaðir oftar en einu sinni til atkvgr., setjast síðan niður aftur og fást við málið, þangað til aftur er kallað til atkvgr., allra sízt þegar um er að ræða frv., sem er mjög langt og ýtarlegt, um vandasamt mál, eins og tryggingamálin yfirleitt eru. Þetta frv. er hvorki meira né minna en í 24 löngum greinum auk efnismikils bráðabirgðaákvæðis, og því fylgdu margvisleg gögn og umsagnir og mótmæli í stríðum straumum. Það er ekki hægt að vitna til þess, að þm. eigi að kynna sér málið, meðan það er til meðferðar hjá hinni þingdeildinni. Þá er verið að vinna að lausn þess þar, og við kynnum okkur ekki yfirleitt í annríki þingsins þau mál, sem þar eru til meðferðar, reiknum að sjálfsögðu með því, að það komi til okkar deildar og fari í nefnd og verði þar athugað, til þess gefist fyllilega tóm. Til þess eru tvær þingdeildir og nefndarmeðferð mála í báðum deildum. Það eru því engin rök, þegar sagt er, að menn hefðu átt að vera búnir að kynna sér málið, meðan það var til meðferðar í hv. Ed. Það er ætlazt til þess, að við, sem eigum sæti í hv. Nd. Alþingis, fáum alveg eins aðstöðu til þess að starfa að málunum í deild og í nefnd, og á því eigum við þinglegan rétt.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, hann spurðist fyrir um, hvort það væri ekki þegar hægt að komast að niðurstöðu um það á þessum slitrótta fundi, að annar hlutinn vildi samþykkja málið óbreytt, og hinn vildi vísa því til hæstv. ríkisstj. til þess að vinna betur að málinu til næsta þings og samræma þau mismunandi sjónarmið, sem blöstu við okkur í gegnum umsagnir og mótmæli, sem nú höfðu borizt. Málið varðar tvo aðila. Málið varðar togarasjómenn, sem eiga sinn lífeyrissjóð, og þeir mótmæla. 16 togaraskipshafnir mótmæla frv., vilja láta fella það meira að segja. Og hinn aðilinn er Farmannasambandið, og það mótmælir, fer fyrst og fremst fram á það, að málinu verði frestað núna og athugað betur til byrjunar næsta þings, og á það fellst minni hl. heilbr.- og félmn. og biður um, að málinu sé nú vísað frá og til hæstv. heilbr. og félmrh., ekki til þess að leggjast á málið, heldur til þess að vinna betur að lausn þess og samræma þær mismunandi óskir, sem nú hafa komið fram. Það er um það að ræða að fresta afgreiðslu í rúmlega hálft ár og búa málið betur úr garði.

Það er sagt hér af hv. 1. þm. Vestf., að þetta sé stjfrv. og þá þurfi ekki vitnanna við, stjfrv. séu vel undirbúin. Stjfrv. eru rétt upp og ofan undirbúin, sum vel, sum illa, sum alveg eins illa og frv. frá einstökum þm. Það gefur enga tryggingu. Þetta frv. er náttúrlega þannig til komið, að hæstv. ríkisstj. hefur sjálfsagt ekki samið það sjálf, heldur þeir aðilar, sem út af fyrir sig vildu fá málið afgreitt nú í þessum þrönga stakki. Þeir hafa búið til frv. um að skella lífeyrissjóði togarasjómanna og lífeyrissjóði undirmanna á farskipum saman í einn sjóð, og það er sambræðsla þeirra ákvæða, sem gilda um þessa tvo sjóði, sem birtist í þessu frv. Hæstv. ríkisstj. hefur svo tekið að sér, — ég veit ekkert, að hve vandlega athuguðu máli frá fleiri sjónarmiðum, — að flytja málið sem stjfrv. En svo mikið er víst, að þannig hefur til tekizt, að togarasjómenn, sem eru annar meginaðilinn að málinu, mótmæla, og Farmanna og fiskimannasambandið mótmælir að hinu leytinu. Það hefði mátt vænta mótmæla frá þriðja aðilanum, sem hefur vilyrði, ég vil segja allt að loforð fyrir því, að unnið verði að uppbyggingu sameiginlegs lífeyrissjóðs fyrir bátasjómenn og togarasjómenn, en frv. hreyfir ekki við lífeyrissjóðsmáli bátasjómannanna, og það er ekkert atriði um það í þessu frv. Með því að lesa 3. gr. frv. kemur það berlega í ljós, að þetta frv. ætlar ekki á nokkurn hátt að skipta sér af lífeyrissjóðsmáli bátasjómannanna. Sú grein er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjóðfélagar eru allir þeir, sem lögskráðir eru á íslenzk farskip eða íslenzka togara, nema yfirmenn á farskipunum, sem tryggðir skulu í lífeyrissjóðum, sem útgerðarfélög farskipa eru aðilar að. Yfirmenn strandferðaskipa ríkissjóðs og varðskipanna skulu tryggðir í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Heimilt er þó útgerð farskipa að tryggja yfirmönnum lífeyrisréttindi í sjóði þessum.“

Í upphafi greinarinnar eru aðeins nefnd íslenzk farskip og togarar, en það vantar þarna vitanlega að búa bátasjómönnunum hinn sama rétt. Það er ekki vansalaust af Alþingi að taka þetta mál fyrir á þennan hátt, sem gert er hér í flaustri á seinustu dögum þings, og taka ekki þetta baráttumál bátasjómannanna með. Liggi farmönnum og togarasjómönnum mjög mikið á þessari sambræðslu þeirra lífeyrissjóða, þá liggur bátasjómönnunum sannarlega ekki minna á að fá lífeyrissjóðsréttindi, sem þeir hafa ekki. Og það væri þá að mínu áliti nokkru viðfelldnari aðferð, að sambræðslan á þessum tveimur sjóðum, sem nú eru fyrir, biði til næsta hausts og athugað væri sérstaklega um málstað bátasjómannanna á þessum mánuðum, þangað til næsta þing kemur saman. Það á ekki að ganga fram hjá þeirra rétti í þessu máli.

Við skulum líta á, hvernig lífeyrissjóður togarasjómannanna er til kominn. Hann er til kominn á þann hátt, að það var gefið um það vilyrði í lok deilu, að stofnað skyldi til lífeyrissjóðs fyrir sjómenn. Þetta mál var svo undirbúið af nefnd, og út úr því nefndarstarfi komu lögin um lífeyrissjóð togarasjómanna. En bátasjómennirnir hafa sífellt hamrað á, að sú breyting yrði gerð á lífeyrissjóði togarasjómanna, að bátasjómenn, sjómennirnir á íslenzka bátaflotanum, fengju einnig aðild að Þessum sjóði. Og hvers vegna er gengið fram hjá því atriði, það skil ég ekki. Auk þess ber 3. gr. það með sér, að ef þetta frv. er afgreitt, þá er hinn mesti glundroði og ringulreið ríkjandi í þessum málum. Farskipahásetarnir og togarahásetarnir verða aðilar að einum og sama sjóði, en yfirmenn strandferðaskipanna í eigu ríkisins og varðskipanna verða tryggðir í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, og einstakir sjóðir verða hjá hverju skipaútgerðarfélagi áfram. Þetta er vitanlega ekkert skipulag og allra sízt þegar fjölmennustu stétt sjómannanna vantar þá alveg lífeyrissjóðsréttindi.

Hv. 1. þm. Vestf. sagði, að það væri ólíklegt, að ég hefði verið ókunnugur skjölunum, sem fylgdu málinu. En samt sem áður er það svo, að ég hef ekki kynnzt innihaldi þeirra og ekki þekkt neitt til þeirra fyrr en ég sá þau á nefndarfundinum, og mér gafst ekki tóm fyrr en nú undir þingstörfum í dag að lesa þau yfir. Ef hv. þm. meinar með þessu, að Alþýðusambandið muni hafa kallað fram þessi mótmæli, þá er það alger misskilningur. En hv. 12. þm. Reykv. var líka að láta eitthvað liggja að því, að þessi mótmæli mundu vera pöntuð frá sjómönnunum. Ekki eru þau frá Alþýðusambandi Íslands pöntuð, ekki geta þau verið það frá Sjómannasambandi Íslands, ekki frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, sem vilja þessa lausn á málinu, og ekki frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Og frá hverjum þá? Vitanlega eru þetta mótmæli, sem eru komin frá sjómönnunum sjálfum á togurunum. Og það er svo kröftuglega gert, að það eru heilar skipshafnir yfirleitt, langmestur hluti þessara mótmæla er þannig, að það eru heilu skipshafnirnar. Á nokkrum stöðum er hins vegar sýnilegt, að skipshöfn hefur rætt málið, og það eru eitt eða tvö atkv. á móti. En frá þessum 16 skipshöfnum togara er að langmestu leyti um mótmæli heilla skipshafna að ræða. Og ég sagði því: Slík mótmæli hafa ekki borizt frá sjómönnum á þessu þingi í neinu máli nema út af árásinni á vökulögin. Og það er rétt. Hér væri því alveg óneitanlega verið að afgreiða mál gegn vilja sjómanna annars vegar á togurunum og gegn vilja Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hins vegar.

Hv. 1. þm. Vestf. hélt því fram, að slík málsmeðferð, sem fyrirhuguð er á þessu frv., væri ekki ný hér á Alþingi. Það er e.t.v. hægt að finna þess einhver dæmi, að eitthvert mál hafi orðið fyrir jafnóþinglegri meðferð og þetta. En dæmin eru sem betur fer ekki mörg. Þetta er með fádæmum. Og um deilumál, þá er ekki hægt um það að deila, að það er óvenjuleg meðferð á viðkvæmu deilumáli og óæskileg meðferð á viðkvæmu deilumáli, mjög óæskileg. Ég held, að það sé ekki rétt að breyta lögum um lífeyrissjóð togarasjómanna, sem orðið hafa til sem samkomulagsmál upp úr vinnudeilum í því formi, sem frá þeirri löggjöf hefur verið gengið, og ganga svo í skrokk á þessari löggjöf og gjörbreyta henni undir mótmælaskothríð frá togarasjómönnum annars vegar og sterkum andmælum frá farmönnum og samtökum þeirra hins vegar. Ég veit þá ekki, hvað eru óæskileg vinnubrögð, ef ekki þetta, þegar enginn maður á Alþingi leggst á móti því, að breytt sé fyrirkomulagi og lagaákvæðum um lífeyrissjóðsréttindi sjómannastéttarinnar, heldur einmitt lýst trausti á hæstv. félmrh. og þar með ríkisstj. Í því efni að taka þetta mál til gaumgæfilegrar yfirvegunar nú milli þinga og hafa lokið betra undirbúningsstarfi til þess að samræma hin ólíku sjónarmið hinna ýmsu starfshópa sjómannastéttarinnar fyrir næsta þing. Það er hér engin tilraun til þess gerð að koma þessu máli fyrir kattarnef, heldur eingöngu verið að biðja um það, að unnið sé að málinu á þann hátt, að samkomulag geti fengizt um að, og nógur tími til þess að vinna að í það form, koma því í þann búning, að sjómannastéttin í heild geti við unað. En meira að segja þessi afstaða minni hl. hv. heilbr.- og félmn. fær óblíðar viðtökur, og meiri hl. vill á ekkert annað sættast en að hamra málið í gegn undir mótmælum frá báðum þeim aðilum, sem málið varðar, á seinustu dögum þingsins.

Ég gat ekki að mér gert, að mér stökk bros og það háðsbros meira að segja, þegar hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan: Lögunum mætti þá breyta síðar, því að þetta er þó engin stjórnarskrá. Mikið var. Það má segja um hver einustu lög, sem við fáumst við að setja hér á Alþingi, við þurfum þá ekkert að vera að vanda til þeirra, þetta er engin stjórnarskrá, það má breyta þeim síðar. Við getum kastað til þess höndum. Við getum farið á móti vilja þeirra manna, sem við lögin eiga að búa í þetta sinn, af því að það er hægt að breyta þeim síðar. Hvílík fásinna er þetta! Þegar við vitum um andspyrnu þeirra manna, sem við lögin eiga að búa, áður en við afgreiðum þau, eigum við þá ekki að athuga okkar mál og gera okkur grein fyrir því, hvort ekki sé réttara að taka tillit til þessara óánægjuradda og þessara mótmæla og andmæla? Ég held það. Og það geta svo sannarlega komið á agnúar síðar og orðið þörf breytinga, þó að Alþingi vandi í hverju máli sem allra bezt sína afgreiðslu, því að reynslan ein er hinn ólygni dómari um það, hvernig löggjöfin gefst í sérhverju tilfelli. Við eigum því í þessu tilfelli sem öðrum að vanda sem bezt afgreiðslu málsins. Það er ekkert tóm til þess í lok þessa þings að gera það á þann hátt, að málið sé kannað til hlítar og hin ólíku sjónarmið borin saman né fundnar leiðir til þess, hvernig eigi að leysa málið, og þess vegna er engin fær sómasamleg leið önnur en sú að vísa málinu til hæstv. ríkisstj. til aðgerða, til þess að hún leggi fram frv. um málið í upphafi næsta þings.

Hv. 1. þm. Vestf. lauk ræðu sinni á því að segja, að hann sæi enga ástæðu til að hverfa frá því ráði að samþykkja frv. nú óbreytt. Með þessu segir hv. þm. það raunar skýrt og skorinort, að hann sjái ekki minnstu ástæðu til að taka mark á mótmælum sjómanna og hann sjái ekki heldur neina ástæðu til að taka tillit til andmæla Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Hann vill ekki heldur taka mark á ummælum Vinnuveitendasambands Íslands, sem segir, að það sé alls óþarft að setja þessa löggjöf, — með öllu óþarft, segir það samband. Samband ísl. samvinnufélaga er á sömu skoðun og Vinnuveitendasambandið. Þeir segja, að það sé ekki ástæða til þess fyrir mig t.d. að taka tillit til þessara aðila. En fyrir þá, hina hv. herrana, er það engin ástæða fyrir þá að hlusta eftir því, hvað Vinnuveitendasamband Íslands segir, þegar báðir aðilarnir rökstyðja sitt mál? Nú, eða Farmanna- og fiskimannasamband Íslands? Það er ekki góð latína að koma hér og segja: Allir þeir, sem eru á móti þessu máli og afgreiðslu þess nú, hafa bara misskilið málið, gersamlega misskilið málið allir saman. Það er ekki nema einn eða tveir aðilar, sem hafa skilið málið. — Meira að segja ef þetta væri rétt, þá væri fyllilega ástæða til þess, að menn fengju meira tóm til þess að hugleiða málið, til þess að setja sig inn í það, svo að það yrðu fleiri en tveir aðilar, sem skildu það. Nei, hér er á hinn mikli ljóður, að annar aðilinn, sem málið varðar, togarasjómennirnir sjálfir, þeir eru á móti afgreiðslu málsins nú og hafa leitt rök að sinni afstöðu. Hinn aðilinn, Farmanna- og fiskimannasambandið, er einnig ákveðinn á móti málinu, biður í fyrsta lagi, að því sé frestað, en ef frestun fáist ekki, þá leggi þeir til, að málinu sé breytt í fimm veigamiklum atriðum. Og í þriðja lagi vantar öll ákvæði um að taka sjómenn bátaflotans með í þetta tryggingakerfi. Meira að segja Sjómannasamband Íslands, sem mælir með frv. að meginefni, leggur til, að veigamikil breyting verði á því gerð. En það er ekki tekið til greina, að sjómennirnir fái 60% lífeyrisréttindi í staðinn fyrir 50%, þegar þeir hafa verið 30 ár við sjómennsku. Á þessa till. þeirra er ekki heldur hlustað.

Hv. 12. Þm. Reykv. (PS) rakti andmælin gegn frv. nokkuð svipað og ég gerði, en lét þó alltaf í leiðinni orð falla um það, að ég hefði ekki skýrt þar rétt frá. Hann sagði t.d., að af mínu máli hefði mátt ætla, að ég teldi alla sjómenn andvíga frv. Ég lagði á það engan dóm. Ég sagði aðeins það, sem hér lá fyrir skjallega, að skipshafnir 16 togara hefðu andmælt, og lét engin orð um hitt falla, hver mundi vera afstaða annarra sjómanna, sem hefðu ekkert látið til sín heyra. En svo mikið er víst, að engar áskoranir hafa borizt frá togarasjómönnum til Alþingis um að samþykkja málið. Sjómannafélag Reykjavikur, þ.e.a.s. stjórn þess og aðalfundur, sem oft er að langmestum hluta skipaður fyrrv. sjómönnum, Þeim sem eru komnir í land fyrir löngu eða fyrir stuttu, það gerði samþykkt um að skora á Alþingi að samþykkja frv. En svo komu mótmælin frá togaraskipshöfnunum, og þarna sýnist mér vera bil á milli félagsforustunnar, félagsfundar í landi og aftur togarasjómannanna, því að vafalaust, þegar þeir vissu um afstöðu aðalfundar Sjómannafélags Reykjavíkur, hefðu þeir, sem voru þeirrar skoðunar, sagt til sín líka. þegar þeir sáu, að heilar skipshafnir sendu sín mótmæli. Þögn þeirra finnst mér því fremur benda til þess, að þeir séu ekki mjög ákafir um framgang málsins.

Þessu næst lagði hv. 12. Þm. Reykv. megináherzlu á það, að andmælin væru byggð á misskilningi. Það er lítt hugsanlegt, að sjómenn hafi ekki skilið, hvað í þessu máli felst, því að það er einfaldlega þetta eina atriði, að lífeyrissjóður togarasjómanna, sem hóf störf 1958, verður nú sameiginlegur lífeyrissjóður, ef þetta frv. verður sámþykkt, með lífeyrissjóði farmanna. Þessum tveim sjóðum verður slengt saman með þessari löggjöf. Hún er soðin upp úr gildandi ákvæðum um báða þessa sjóði. Þetta hlýtur togarasjómönnum að vera ljóst, og þessu eru þeir að andmæla. Þeir vilja ekki taka þennan þátt málsins út úr, að sjóðir undirmanna á farskipum og lífeyrissjóður togarasjómannanna séu gerðir að einum sjóði.

Við í minni hl. heilbr.- og félmn. tökum ekki nærri því eins djúpt í árinni og togarasjómennirnir, sem vilja láta fella frv. Við ráðleggjum, að fram komnum þessum fjöldamörgu mótmælum togarasjómannanna og ákveðnum andmælum Farmanna- og fiskimannasambandsins, að málið fái rýmri tíma til afgreiðslu og að hæstv. félmrh. sé falinn framhaldsundirbúningur málsins. Það er vingjarnleg afstaða, þegar stjórnarandstaðan leggur slíkt til, því að vissulega er ríkisstj. sýnt traust í framhaldsmeðferð málsins af okkar hendi.

Hv. 12. Þm. Reykv. skýrði frá því, að það væri forsaga þessa máls, að skipuð hafi verið nefnd til þess að vinna að undirbúningi að lífeyrissjóðsmáli allra sjómanna. Þetta er alveg rétt. Og þar með var alveg sérstaklega átt við, að bátasjómennirnir ættu að vera með í þeim lífeyrissjóði, ættu að fá réttindi, en það hefur ekki fengizt. Og hv. þm. sagði líka í framhaldi af þessu: Nú hefur verið orðið við þessu að nokkru leyti. En bað er ekki á þann hátt að taka bátasjómennina með, heldur aðeins að hinu leytinu, að taka undirmenn farskipanna með inn í lífeyrissjóð togarasjómannanna, og það er ákaflega skammt skref, en meginatriðinu látið ósinnt.

Ég hef áður vikið að því í tilefni af ummælum hv. 1. þm. Vestf., og ég vík aftur að því í tilefni af ummælum hv. 12. þm. Reykv., að það er ástæða til þess að láta sér ekki úr minni falla upphaf þessa máls. Upphaf þessa máls er, eins og ég áðan sagði, það, að það var sætzt á að koma á lífeyrissjóði fyrir alla sjómenn. Á fyrsta stiginu fékkst ekki fram annað en lífeyrissjóður togarasjómannanna, og þeirri löggjöf tel ég varhugavert að breyta án samráðs við togarasjómenn. Það var einmitt Vinnuveitendasamband Íslands, sem vék að þessu, að það væri æskilegra að leysa þessi mál, a.m.k. á undirbúningsstigi, með samkomulagsleiðum samtakanna, atvinnurekendasamtakanna og stéttarsamtakanna, og þannig var grundvöllur málsins lagður, og segir þess vegna, að það sé ekki æskilegt að láta löggjafarvaldið nú gripa inn í málið. Ég hef engan veginn þá afstöðu til vinnuveitendasamtakanna í landinu, að ég eigi alltaf að vera á móti því, sem þau segja. Ég tek iðulega tillit til þess, sem þau segja. Og í þessu máli er ég þeim sammála um, að eins og upphaf og tildrög þessa máls eru, þessu máli hefur verið þokað áfram sem samkomulagsmáli atvinnurekendasamtaka og verkalýðssamtaka, að því leyti er óheppilegt að beita löggjafarvaldinu fyrir vagninn öðruvísi en að fengnu fullu samkomulagi milli þessara aðila.

Mér heyrðist ekki betur en hv. 12. þm. Reykv. álasaði mér fyrir að hafa skýrt frá öllum umsögnum, sem borizt höfðu um málið, jafnt þeim, sem voru meðmæltar málinu, og þeim, sem voru andvigar því. Ég dró þar auðvitað ekkert undan. Ég hafði enga heimild til þess að þegja um ummæli Vinnuveitendasambandsins og Sambands ísl. samvinnufélaga né Skipaútgerðar ríkisins. Ég taldi alveg sjálfsagt, hvort sem ég lagði mikið eða litið upp úr þessum umsögnum, að gera meginniðurstöðu þeirra allra skil, láta það koma í ljós, að Sjómannasamband Íslands óskaði eftir því, að málið yrði afgreitt, en jafnframt, að á því væri gerð ein mikilsverð breyting, að Sjómannafélag Reykjavíkur mælti hispurslaust með samþykkt málsins, að Skipaútgerð ríkisins setti sig ekki á móti því, að því er snertir tryggingahliðina, en hinir aðilarnir væru allir á móti. En ég neita því ekki, að ég legg langmest upp úr kröftugum andmælum togarasjómannanna sjálfra og tel, að þau fái mjög ákveðinn stuðning með eindreginni andspyrnu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands líka, og fæ þá ekki skilið, hvað rekur svo hart á eftir út frá einhverjum öðrum sjónarmiðum, að það sé óaðgengilegt að fresta málinu í nokkra mánuði og freista þess að laða öflin, sem við löggjöfina eiga að búa, betur saman. Nú eru þau tvístruð, nú eru þau margklofin í afstöðunni til málsins, í þessu formi, sem frv. er, það er hverjum manni ljóst. Og að stofna til tryggingalöggjafar fyrir sjómannastéttina gegn hennar vilja, það held ég að sé ekki viturlegt. Það verður áreiðanlega engin endanleg lausn á málinu, það verður þá aðalvonin, eins og hv. 1. þm. Vestf. benti á, að það verði hægt að breyta lögunum seinna. En hvaða bót er að því að gera nú breytingu á þessum lögum á þann hátt, að maður veit, að þeir, sem við eiga að búa, eru andvígir því frá báðum hliðum?

Ef þetta mál verður nú afgreitt, þá má sérhverjum þm., sem hefur kynnt sér málið, — þeir eru sjálfsagt ekki margir, sem hafa fengið neina aðstöðu til þess að kynna sér málið, því að það hefur verið rætt að flestum þm. fjarstöddum og í nefnd fékk það enga athugun — að þá er verið að afgreiða þetta mál sjómannastéttarinnar gegn andmælum mjög verulegs hluta togarasjómannanna. Það er og vitað, að það er ekki á nokkurn hátt gripið á tryggingamálum bátasjómannanna, að málið hefur enn fremur fengið andmæli vinnuveitendasamtakanna og það hefur fengið kröftugleg mótmæli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Undir þessari aðstöðu leggjum við í minni hl. hiklaust til og teljum okkur hafa rétt fyrir okkur í því, að málinu verði nú frestað og því vikið til hæstv. heilbr.- og félmrh., til þess að hann athugi þessi andstæðu sjónarmið og vinni upp úr þessu frv. frumvarp, sem móti heildarlöggjöf um lífeyrissjóðsmál sjómannastéttarinnar.