05.02.1962
Neðri deild: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

88. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Við höfum þrír þingmenn hér í hv. deild leyft okkur að flytja á þskj. 127 frv. um breyt. á lögum frá 1936 um eyðingu svartbaks. Frv. þessa efnis fluttum við á síðasta þingi. Það frv. var samþ. hér í hv. Nd. og einnig, að ég ætla, í hv. Ed. við tvær umræður, en dagaði síðan uppi, enda var þá orðið áliðið þings, Þótt almennt fylgi virtist vera fyrir því í báðum deildum, að frv. væri samþykkt. Ég segi, að frv. sé sama efnis, en skylt er hó að geta þess, að við höfum leyft okkur í tillögum okkar að hækka ofur lítið skotmannslaun, og er það vegna þess einkum, að við höfum fengið nýjar upplýsingar um verð á skotfærum, sem verður að taka til greina í sambandi við þetta mál.

Í gildi eru nú lög frá 1936 um eyðingu svartbaks, en ákvæði þessara laga eru orðin algerlega úrelt, m.a. vegna breytts verðlags, og lögin bera engan árangur, nema þeim sé breytt.

Nú má vera, að einhverjum hv. þingmönnum þyki og þó sérstaklega kannske einhverjum öðrum, sem eru ekki þessu máli kunnugir, að hér sé um smámál að ræða, hvort fleira sé eða færra af þessari fuglategund. En það er nú ekki svo, að það sé smámál. Hér er um allstórt mál að ræða. Hlunnindi af æðarvörpum hafa frá öndverðu verið töluverð hér á landi og oft svo mikil, að verulega hefur gætt í útflutningi landsmanna, en nú í seinni tíð hafa æðarvörpin yfirleitt mjög rýrnað. Ég man sérstaklega eftir einu æðarvarpi, einu af stærstu æðarvörpum landsins, sem ég hafði allmikil kynni af um eitt skeið, þegar ég var unglingur. Þetta æðarvarp gaf þá af sér, að því er mér var tjáð, fyllilega 200 kg af æðardún hreinsuðum. Nú mun dúnninn úr þessu varpi ekki nema meira en 1/4 hluta þess magns. Það er almennt álitið, að svartbakurinn valdi miklu um rýrnun æðarvarpanna. Þetta er hin mesti vargur í æðarfugli. Hann situr fyrir æðarungunum, þegar þeir koma frá varplöndunum út í ósana eða út fyrir fjöruborðið, og gleypir þá í sig. Það er þeim minnisstætt mörgum, sem það hafa séð. Það er eiginlega furðulegt, hvað þessi fugl getur látið ofan í sig í einu af æðarungunum, og mun óhætt að segja, að það komi oft fyrir, að hann gleypi í einu það, sem af kemst úr heilu æðarhreiðri, og stundum meira, og af því geta menn gert sér í hugarlund afleiðingarnar og hvílíkur vágestur hann er fyrir æðarfuglastofninn.

Margir hafa trú á því, að ef lögunum væri breytt, þannig að það yrði til nokkurs að vinna að leggja sig eftir því að eyða þessum vargi, mundu menn sinna því og mundi takast að ná þar árangri. Auðvitað verður það að segjast, að það er alltaf leiðinlegt að gera ráðstafanir til þess að útrýma eða fækka einhverri tegund í ríki náttúrunnar. En það er nú svona, að tilvera þessa fuglastofns hefur í för með sér minnkun á öðrum, svo að það er þá verið að hlúa að lífi á öðru sviði, jafnframt sem þessu er útrýmt, og þar sem æðarfuglinn er, þar er um mjög nytsaman fuglastofn að ræða fyrir landið, eins og ég hef áður vikið að.

Það hafa sumir haft þá trú, að ef tækist að vernda æðarfuglastofninn og ef tekin væri upp skipulagsbundin ræktun æðarfuglsins og æðarvarpanna, þá mætti ef til vili ná miklu meiri árangri, þannig að æðarvörpin yrðu fleiri og stærri en þau hafa nokkurn tíma verið í landinu. Sumir ala í brjósti svipaðar vonir um árangur af ræktun æðarfugls eða æðarvarpa eins og af fiskrækt í vötnum. Ég skal ekkert um það fullyrða. En ég er einn af þeim, sem hafa sterka trú á því, að hér sé hægt að ná töluverðum árangri og auka framleiðslu þessarar ágætu og dýru vöru, sem æðardúnninn er, og sömu skoðunar ætla ég að meðflutningsmenn mínir að þessu máli séu, — þeir eru báðir mjög kunnugir þessum málum, — og svo er um marga fleiri þingmenn. Og um hv. Ed. er mér kunnugt, að þar eru menn, sem hafa mjög mikinn áhuga á þessu máli og við höfum rætt málið við nú, áður en við fluttum frv. En það varð að samkomulagi, að málið skyldi flutt í þessari hv. deild.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að frv, verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. landbn.