19.03.1962
Efri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

88. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um eyðingu svartbaks er einungis breyting á lögum um það efni frá 1936, sem að sjálfsögðu eru löngu úrelt að því er snertir allar tölur í þeim lögum. Þetta eru aðeins heimildarlög um það, að sýslunefndir geti gert samþykktir um það að eyða svartbak á tilteknum svæðum, og gert ráð fyrir því, að frumkvæðið komi þó frá sveitarstjórnum á viðkomandi stöðum.

Útgjöldum vegna þessara aðgerða er skipt þannig, að 1/4 greiðist úr sveitarsjóði, 1/4 úr viðkomandi sýslusjóði og helmingur frá ríki. Þó að þessi breyting verði gerð á lögunum nú, þá mundi hún aldrei valda ríkissjóði nema mjög óverulegum útgjöldum, vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir, að heimildar verði leitað um þetta nema úr tiltölulega fáum byggðarlögum.

Sú sorglega reynsla, að því er varðar viðhald og ég tala nú ekki um aukningu á æðarvarpi hér á landi, hefur orðið nú um langan tíma eða síðan um aldamót, að æðarvörp hafa minnkað, eftir því sem skýrslur um dúntekju segja til um, um rétt að segja helming. Og aðalástæðan til þess, að æðarvörp haldast ekki við, hvað þá aukast, sem þau raunar ættu að gera, þar sem þessi fugl er alfriðaður og hefur lengi verið, mun vera sú, hvað svartbakur liggur í unganum og einnig í eggjunum, og honum fer mjög fjölgandi, nú látlaust hin síðari ár. Það er eitt stórt vandamál, hvernig við því eigi að snúast að fækka svartbaknum, því að það virðist vera útilokað mál að auka hér nytjar af æðarvarpi, ef svo fer fram, eins og farið hefur, að svartbaknum fjölgi látlaust. Þessi breyting á lögunum er á engan hátt róttæk, því að ég geri ekki ráð fyrir því, að þær aðgerðir, sem þar er gert ráð fyrir, geti valdið því að fækka svartbak. Hins vegar tel ég, að þessi lög gangi í rétta átt að því leyti, að á vissum stöðum er hægt að halda svartbaknum niðri, að halda honum frá æðarvörpum með því að hafa menn, ráðnar skyttur, til þess að verja vörpin á tilteknu tímabili. En það, sem svartbakurinn gerir mest til skemmda í æðarvörpum, er það, að hann lepur upp ungann, þegar hann er nýkominn úr eggjunum og er enn litt sjálfbjarga, og t.d. við árósa situr hann fyrir æðarkollunni, þegar hún fer út með ungana, í hópum og tínir upp svo að segja hvern einasta unga, það þekki ég vel af eigin sjón og raun. Á slíkum stöðum er hægt að verja ungann allmikið með góðri ástundun, og í þá átt tel ég að þessi lagabreyting miði og geti orðið að nokkru gagni.

Það er óþarft að fara út í það hér, hver nytsemi getur verið af æðarvörpum. Það getur verið stórkostleg tekjugrein, þar sem vel hagar til, og það er mjög víða hægt að koma upp æðarvörpum hér á landi, þar sem þau eru enn ekki til, ef þessi vargur, svartbakurinn, lægi ekki í unganum og svo til eyddi hverjum einasta unga á heilum svæðum. Og fyrir utan nytsemi æðarvarps vil ég einnig benda á það, að æðarvarp er ákaflega mikil prýði og yndisauki, þar sem það er, og hreint uppeldismeðal fyrir ungdóminn t.d. að umgangast æðarfugl í vörpum.

Eins og ég sagði, tel ég, að annarra ráða þurfi að leita til þess að fækka þessum vargi verulega, og þau eru sannast að segja ekkert tiltæk, þau ráð. Ég hef rætt það nokkuð við náttúrufræðinga og sérfræðinga í þessum efnum, og e.t.v. er einhverra tillagna að vænta um það frá þeim mönnum, sem þessi mál hafa með höndum sérstaklega, en það eru fuglafræðingar, því að það er víðar en hér á landi, sem vargfugl af þessum stofni er mjög skaðlegur, ekki aðeins í vörpum, heldur í ýmsu öðru tilliti, og þeir menn, sem náttúrufræðinni eru handgengnastir að þessu leyti, eru að reyna að leita ráða til þess að finna einhverjar leiðir til þess að geta haldið þessum vissu tegundum fugla í hæfilegum skefjum.

Landbn. mælir samróma með því, að þetta frv. verði samþykkt sem spor í rétta átt og bráðabirgðaúrræði fyrir viss byggðarlög til að halda þessum vargi niðri og einkum til þess að reyna að verja tiltekin svæði fyrir varginum, á meðan unginn er að fara út og er í mestri hættu fyrir honum.