31.03.1962
Efri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

161. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Við nánari athugun landbn, á frv. um ættaróðul og til viðbótar þeim till., sem n. lagði fram við 2. umr. og voru þá samþ., hefur hún orðið ásátt um að bæta við einni smávægilegri brtt. til samræmis við þær brtt., sem samþ. voru við 2. umr., sem snertir sölu á ættarjörðum. Breytingin er svo hljóðandi:

„Á eftir 6. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Á eftir orðunum „fasteignamatsverð hennar“ í 17. gr. laganna komi: en skal þó ekki vera lægra en áhvílandi veðskuldir.“

Þetta er alveg sams konar viðbót og samþ. var hér við 2. umr. að því er snertir ættarjarðirnar, sams konar viðbót snertandi óðalsjarðirnar, og er talið nauðsynlegt, að sömu ákvæði gildi þar um.

Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.