29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

121. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Þegar frv. þetta var fyrst tekið til 2. umr., hafði sjútvn. fjallað um það, en það hafði komið í ljós, að það þyrfti örlítilla lagfæringa við. Nefndin hefur nú flutt brtt. við frv. á þskj. 443, og er þar enn fremur efnisbreyting, sem n. hefur orðið sammála um að gera og haft samráð um við þá aðila, sem hér hafa hagsmuna að gæta.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að það skuli kosnir tveir menn hlutfallskosningu af bæjarstjórn Keflavíkur og hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps, en n. hefur lagt til, að sú breyting yrði gerð á, að annar skuli kosinn af bæjarstjórn Keflavíkur og hinn af hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps, í stað þess, sem gert er ráð fyrir í frv., tveir af sameiginlegum fundi þessara tveggja sveitarstjórna.

Svo er og í brtt. gert ráð fyrir því, að þessir aðilar skuli kosnir og kjörtímabil beirra verða til ársloka 1965. Það er gert til þess, að það sé samræmi milli þeirra þriggja, sem kosnir eru samkv. lögunum um landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi, en þeir voru kosnir nú og kjörtímabil þeirra miðast við 1. jan. 1962 og lýkur við árslok 1965.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en nefndin var mér sammála um að mæla með frv. með þessum breytingum og því yrði síðan vísað til 3. umr.