05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

192. mál, skólakostnaður

Karl Guðjónsson:

Hæstv. forseti. Það hefur áður verið bent hér á það, að meðferð Alþ. á þessu máli er með dálítið óvenjulegum hætti, og raunverulega er það svo, að sú brtt., sem allar líkur benda til að hér verði samþ., breytir frv. algerlega, — það stendur engin gr. eftir óbreytt af því, það er orðið annað mál. Það fjallar að vísu um sama efni og frv., sem flutt var, og það ákaflega óviðfelldið, að þn. fjalli aldrei um lagafrv. En í rauninni er sú brtt., sem hér liggur fyrir, nýtt frv., þótt hún að formi til sé flutt sem brtt. við frv., sem fyrir liggur.

Það er í þingsköpum ákveðið um það, að afgreiðsla mála eigi að ganga eftir tilteknum reglum, sem eiga að tryggja það, að ekki sé kastað höndunum til afgreiðslu mála, og alveg burt séð frá því, um hve gott efni málin eru. Þó að ég lýsi efnislega stuðningi yfir við þær till., sem hér liggja fyrir, þá eiga þær að athugast í n. Ég álít t.d., að það sé ekki alls kostar gott og beri að lagfæra það form í n., að hér eru tilteknir skólar látnir njóta vissra kjara af ríkisins hálfu. Þetta gildir ekki almennt um skólakerfi landsins. Að vísu eru það allir nú starfandi héraðsskólar, bundnir við þá staði, sem þeir starfa á. En þessi lög eru engin brbl. að forminu til, þetta eru lög, sem eiga að gilda. Þróunin gerir það að verkum, að stundum eru skólar fluttir til, og það er ekkert víst, að héraðsskóli Vestfirðinga verði alltaf að Núpi eða í Reykjanesi, þetta gæti flutzt til. Þá eru þeir í rauninni fallnir út úr lögunum. Sömuleiðis er ekkert líklegra en til þess geti komið, að stofnsettir verði nýir héraðsskólar, en þá ná þessi lög, sem hér eru áformuð, alls ekki til þeirra. Ég tel því eðlilegt, að inn í þetta væri bætt, að þetta næði til þeirra héraðsskóla annarra, sem síðar kynnu að rísa með samþykki fræðslumálastjórnarinnar í landinu, og málið yrði gert nokkru almennara en hér er um að ræða. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir því, að nein þróun geti orðið í skólauppbyggingu okkar að því er varðar heimavistarskóla gagnfræðastigsins. Finnst mér, að löggjafinn þurfi að hafa í hyggju hverju sinni, að það er dálítið annað að miða löggjöf bara við það ástand, sem ríkir á augnablikinu í almennum efnum, eða hafa lögin eins og vissan ramma, sem ríkið setur skólahaldi á þessu stigi, og hefði ég fellt mig miklum mun betur við, að það væri gert, lagagreinin yrði höfð almenn.

Ég ítreka það svo, að þessi orð mín ber alls ekki að skilja sem mótmæli við efni málsins. En hér hefur það komið fyrir, að n. hafa unnið verk sín svo slælega, að ekki hefur einu sinni verið hægt að bera málin undir atkv. eins og þau komu frá n. Ég álít, að n. megi ekki kasta þannig höndum til sinna verka. Hér er gert ráð fyrir því á hinn bóginn, að farið verði með heilt mál — og ekki svo lítilvægt — algerlega fram hjá n. í þessari d. Hv. form. menntmn. d. hefur lýst yfir, að hann viti um þessa hluti, hvað hér er að gerast, og segir jafnframt, að frsm. málsins muni einnig hafa haft sínar hugmyndir um það. En það breytir ekki því, n. hefur ekki komið saman og hún hefur ekki gefið þinginu neitt nál. um þetta mál, eins og það stendur nú. Ég teldi rétt, að hún gerði það, því að hér er um að ræða form, sem mjög orkar tvímælis og ég teldi fara betur á annan veg.