05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

192. mál, skólakostnaður

Benedikt Gröndal:

Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. gerði Það mjög að umtalsefni, að nefndir á þingi ynnu slælega og köstuðu höndum til starfa sinna. Setti hann svo fram þá fullyrðingu, að hér væri til meðferðar nýtt mál og n. hefði ekki um það fjallað og ekkert um það sagt.

Ég skýrði gang þessa máls í gegnum menntmn. í fyrri ræðu. En ef við tökum góðan og gildan skilning hv. þm. á þessu máli, að þetta sé nýtt mál, þá vil ég benda honum á, að því nýja máli hefur aldrei verið til n. vísað. Brtt., sem hér er deilt um, var lögð fram í þessari hv. d. í gær. Það er liðlega sólarhringur síðan, en er það ekki til of mikils ætlazt, ef þess er krafizt, að á einum sólarhring hafi nefndir skilað áliti um mál, sem hefur ekki verið til þeirra vísað?

Þetta er svar við orðum hans í svipuðum dúr og hann ræddi málið. En ég vil benda á aðra hlið málsins. Þetta er gamalt mál. Það er búið að standa yfir þing eftir þing barátta til að fá ríkisvaldið til að taka meiri þátt í kostnaði við héraðsskóla, vegna þess að þessir skólar eru viðkomandi héruðum þung fjárhagsleg byrði. Hafa nemendur úr öðrum sýslum en þeim, sem kosta skólana, sótt þá í vakandi mæli, svo að þetta hafa smám saman orðið eins konar landsstofnanir. Þessi barátta hefur hingað til borið lítinn árangur. Fyrir nokkrum árum var stungið því snuði upp í þm., sem hafa áhuga á málinu, að leigutekjur skólanna skyldu teljast framlag heimahéraðs. Þar var ríkið að reyna að friðþægja þá menn, sem sóttu fram fyrir hönd þessara sýslufélaga. En sú friðþæging var ákaflega lítil, svo að baráttunni hefur verið haldið áfram.

Smám saman hafa þeir menn, sem hafa staðið vörð um ríkiskassann og gæta þess, að ekki sé ofhlaðið á hann, hörfað. Loks á þessu þingi var komið svo, þegar málið var lagt fram, að 1. flm. þess leyfði sér að fullyrða, að bæði hæstv. menntmrh. og fjmrh. væru málinu hlynntir. Þeir sátu í deildinni og andmæltu þeirri fullyrðingu ekki. Í trausti þess, að þetta breytta viðhorf yrði til, að málið kæmist í gegn, fékk það skjóta afgreiðslu í menntmn., sem einnig byggðist á því, að málið hafði þar verið ýtarlega rannsakað áður.

Nú hefur af einhverjum ástæðum verið haldið áfram að leita að formi til að ná þeim tilgangi, sem ég hef lýst. Mér skilst, að hv. flm. brtt. á þskj. 601. hafi í samráði við ráðherrana komizt að því formi, sem hér er fyrir okkur lagt. Með því að benda á þessa forsögu málsins og það, að mörg héruð telja þetta brýnt hagsmunamál sitt, vænti ég þess að hv. þm. reyni nú að íhuga till. og taka afstöðu til hennar án þess að gera tilraunir til þess að bregða fæti fyrir málið á síðustu dögum þingsins. Nokkurra daga töf við að senda málið aftur í n. eða til einhvers annars getur auðveldlega orðið til þess, að málið nái ekki fram á þessu þingi. í trausti þess, að það sé skilningur á þessu í d., og í trausti þess, að okkur takist nú að hagnýta þá velvild, sem hefur komið fram hjá hæstv. ráðherrum, og að við komum málinu fram, vil ég vænta þess, að menn reyni ekki að tefja málið og stofna því í hættu.