13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

167. mál, lögskráning sjómanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar frv. því var útbýtt hér á Alþingi, sem hér liggur nú fyrir til umr., þá hygg ég, að engum hv. þm. hafi blandazt hugur um, að þetta frv. var flutt í tilefni af öðru frv., sem hér hefur legið fyrir þinginu um alllangan tíma.

Spurningin hefur sem sagt verið sú, hvort ekki þætti tiltækilegt að lögfesta 200 þús. kr. dánarbætur fyrir alla sjómenn, sem farast, sem lágmarksbætur, þar sem þetta hefur nú þegar verið tekið inn í allmarga kjarasamninga á milli sjómanna og útgerðarmanna. En þó að staðreyndin lægi þannig fyrir, að útgerðarmenn og sjómenn víða um landið væru búnir að ná samkomulagi um þetta fyrir stóran hluta flotans, þá stóðu málin eigi að síður þannig, að nokkur hluti var enn eftir, og þegar hafði komið í ljós, að verulegur misbrestur hafði orðið af hálfu útgerðarmanna í landinu að standa við þessa samninga, þegar á reyndi. Það hafði sem sagt komið fyrir nokkrum sínnum, að bátar höfðu farizt og menn týnzt, sem áttu að bætast með þessum 200 þús. kr. bótum eða nokkru hærri bótum en áskilið er í lögum, samkvæmt samningum, sem í gildi voru á milli útgerðarmanna og sjómannasamtaka, en útgerðarmennirnir höfðu þá trassað að kaupa sér þessa tryggingu og voru svo ekki menn til þess að greiða trygginguna, þegar til átti að taka, og hinir frjálsu samningar á milli útgerðarmanna og sjómanna voru þannig pappírsgagnið eitt. Þegar þessi mál lágu svona fyrir, þótti sjálfsagt að fara fram á það, að 200 þús. kr. tryggingin yrði sett í lög sem lágmarkstrygging, sem gilti fyrir alla starfandi sjómenn, og þeir, sem hér eiga beinan hlut að máli, eins og útgerðarmenn og sjómenn, hafa yfirleitt allir verið á einu máli um, að það ætti að koma þessu fyrir á þessa lund, að festa þetta með lögum.

Þetta er líka í fullu samræmi við það, sem hefur verið gert í mörgum öðrum greinum hér áður. Hinir frjálsu samningar hafa knúið fram ýmsar bætur, t.d. má nefna vökulögin. Hér hafa verið gerðir samningar um það á milli útgerðarmanna og sjómanna að tryggja togarasjómönnum 12 stunda hvíld, þó að þá stæði í lögum, að þeir ættu ekki meiri lágmarkshvíldartíma en 8 stundir. Síðan var löggjöfinni breytt til samræmis við það, sem búið var að gera í frjálsum samningum, og það var ákveðið með lögum, að lágmarkshvíldartíminn skyldi vera 12 stundir, og þannig hefur þetta verið í mörgum fleiri greinum. En þá gerist það einkennilega hér á Alþingi, að nokkrir menn, þeir sem hér hafa nú verið að tala, fulltrúar m.a. í sjútvn., velja sér það hlutverk að standa á móti þessu réttlætismáli og ætla svo að breiða yfir það á þann hátt að flytja það frv., sem hér liggur fyrir. Þegar þeim var kunnugt um það, að gildandi samningar á milli útgerðarmanna og sjómanna höfðu reynzt óvirkir í ýmsum tilfellum, menn höfðu týnzt þannig, að bæturnar fengust ekki greiddar, þá vilja þeir þó viðurkenna þessa staðreynd og flytja þetta frv., sem þeir halda að eigi að koma í veg fyrir, að slíkt geti endurtekið sig. En þeir hafa nú skoðað það mál illa eins og fleira. Ég er alveg sannfærður um það, að þó að það frv. yrði samþ., sem hér liggur fyrir, þá gæti það ekki heldur tryggt það, að þessi misbrestur yrði ekki áfram. Það þekkja allir þeir, sem hafa komið nærri því, hvernig framkvæmdin er með lögskráningu sjómanna. Lögskráningin fer þannig fram, — ja, síðasta dæmið er kannske einna bezt til sönnunar því, þegar það kom í ljós, að skip fórst með allri áhöfn og það hafði ekki verið skráð á það samkvæmt lögum, en skráningin fer þannig fram, að hún er ekki fastari en svo, að það er allajafna skráð til óákveðins tíma, og það getur verið skráð á sama skipið æ ofan í æ, og það er litið öryggi í því, þó að jafnvel slíkt frv. yrði samþykkt sem þetta, að það tryggði það til fullnustu, að hin frjálsa trygging, sem útgerðarmaðurinn keypti sér, væri alian tímann í gildi, á meðan lögskráningin hefur staðið yfir. En það er auðvitað miklu meira en aðeins þetta, sem þessir hv. þm., sem standa að þessu frv., þó viðurkenna með þessu frv., — Það er miklu meira en það, sem hér er um að ræða.

Ein af þeim rökum, sem flm. þessa frv. hafa flutt hér fyrir því, að það sé ekki réttmætt að lögbinda 200 þús. kr. trygginguna sem lágmarkstryggingu, er það, að mannslífin eigi þó að metast jafngild, hvort sem það sé líf verkamanns eða líf sjómanns, og því eigi sama tryggingin að gilda fyrir báða. Ýmislegt má nú gripa í vandræðum sínum, og menn tala um virði mannslífsins, rétt eins og nokkur vilji halda því fram, að virði mannslífsins sé metið á 200 þús. kr., en ekki 90 þús., eins og er í almennum lögum. Kemur nokkrum manni með fulla greind til hugar að halda því fram, að þessi trygging sé eitthvert mat á mannslífum? Nei, því fer vitanlega alls fjarri. En þessar líftryggingar, það sýnir sig á hinum frjálsa markaði, að menn einmitt haga þeim misjafnlega eftir því, hvað menn telja áhættuna vera mikla, hvar maður er staddur hverju sinni. Sá, sem tryggir sig ekki nema fyrir 90 þús. kr. frá degi til dags, á meðan hann gengur á milli vinnustaðar síns, skrifstofu og heimilis, hann tryggir sjálfan sig fyrir 200 þús. kr. eða 500 þús. kr., þegar hann fer í flugvél eða þegar hann fer í einhverja aðra þá ferð, sem hann telur talsvert hættumeiri en sína daglegu ferð á milli vinnustaðar og heimilis. Það er þó vitanlega hægt að segja það, að líf þessa manns sé jafnmikils virði, hvort sem hann hefur dáið á götunni eða hann hefur dáið í flugvél. En kemur nokkrum manni til hugar að halda því fram í fullri alvöru, að það sé ekki meiri ástæða til þess að tryggja sig við sjómannsstörf á Íslandi heldur en t.d. við skrifstofumannsstörf hér í Reykjavík? Kemur nokkrum manni það til hugar, að ástæðan sé ekki meiri? Við vitum, að þessar bætur eru aðeins smávægilegar bætur fyrir þá, sem við bótunum eiga að taka, aðstandendur. En meira að segja í þessu tilfelli, atvinnurekendur, sem áttu að borga kostnaðinn af þessum tryggingum, þeir viðurkenndu það við samningsborðið, að það væri réttmætt að tryggja sjómanninn á íslenzku fiskiskipunum hærra en þeir stæðu að því að tryggja ýmsa aðra sína starfsmenn. Það eru því alveg fyllilega rök fyrir því að hafa slysatrygginguna til almennra sjómanna hér á Íslandi nokkru hærri en til flestra annarra í almennum störfum hér á landi. Hitt má svo auðvitað segja, að þegar rætt er um það að hækka hinar almennu dánarbætur sjómanna úr 90 þús. kr. upp í 200 þús. kr. Þá getur auðvitað komið til álita, hvort menn vilja vera svo stórtækir að hækka líftryggingar allra upp í það sama. Ef menn vilja fallast á það, þá er vitanlega ekkert nema gott um slíkt að segja. En ef menn hika við að leggja í þann kostnað, sem því fylgir, þá ættu menn þó að fallast á, að það er réttmætt að taka þá, sem eru við mestu áhættu, út úr og ætla þeim hæstu trygginguna í fyrstu lotu. Og menn ættu að hætta því, þeir sem þekkja nokkuð til sjómennsku, að vera með nokkur undanbrögð í máli eins og þessu, því að þeir hafa lítinn sóma af því.

Þá tala menn um það í þessum afsökunum, sem þeir færa hér fram, þegar þeir eru að þvælast gegn þessu réttlætismáli, að það sé ekki tryggt, að allir sjómenn fái notið þessara trygginga, því að venjulega sé miðað við þá, sem séu lögskráðir, og lögskráningin nái ekki til minnstu bátanna. Þetta eru líka auðvitað hrein undanbrögð. Það er enginn vandi að koma tryggingunni þannig fyrir, að hún nái einnig til minnstu bátanna. Ákveðin trygging er nú í framkvæmd einnig á minnstu fleytunum, sem einn maður rær á. Hún er framkvæmd með nokkuð öðrum hætti en á hinum skipunum, en eigi að síður er þarna um tryggingu að ræða, og það er lítill vandi að láta þessa tryggingu ná til þeirra, ef menn það vilja. En það er rétt, að þar er maður kominn út á eilítið annað form en í hinum tilfellunum, þar sem á stærri skipunum er venjulega um að ræða einhvern greinilegan atvinnurekanda, sem hefur þótt rétt að láta borga sín iðgjöld til slysatryggingadeildarinnar. En á smáfleytunum er ekki um beina atvinnurekendur að ræða, heldur sjómenn, sem eru eigin vinnuveitendur og hefur því þurft að skattleggja með nokkuð öðrum hætti til tryggingakerfisins. En auðvitað er auðvelt að koma þessu fyrir þannig, að þessi trygging nái og sé jafnhá til þessara sjómanna eins og hinna. Spurningin er aðeins um það, hvort menn vilja láta hana ná þangað eða ekki.

Þá er ein afsökunin sú, að sumir hafi mikla trú á frjálsri tryggingu og aðrir vilji endilega binda alla tryggingu með lögum og frjálsum samningum og ekki frjálsum. Auðvitað er hér líka um hreinan fyrirslátt að ræða. Þó að það sé bundið í lögum, að lágmarksbæturnar skuli vera 200 þús., þá er ekki búið að afnema neinn rétt til þess að semja um frekari tryggingar. Fram að þessu hefur lágmarksupphæðin um 90 þús. kr. verið bundin í lögum, og sjómannasamtökin sömdu eigi að síður í mörgum tilfellum um hærri tryggingu. Og það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að auðvitað verður 200 þús. kr. upphæðin ekkert lokamark í þessum efnum. Það má búast við, að hún verði hækkuð, áður en langir tímar líða. En þó að 200 þús. kr. upphæðin sé bundin sem lágmarksupphæð í lögum, þá kemur hún ekki á nokkurn hátt í veg fyrir það, að samið sé um hærra með frjálsu samkomulagi. En hún tryggir það bara, að hvernig sem á málunum er haldið, þá skuli allir sjómenn, sem farast, bættir með þessari upphæð sem lágmarksupphæð. Það er það, sem á að gera. Hefði það frv. verið samþ. um þetta efni, sem hér var lagt fyrir á þinginu í fyrra, þá hefðu margir þeir sjómenn, sem látizt hafa núna á s.l. ári, verið bættir með þessari upphæð, 200 þús. kr., og það á réttiátan hátt. En nú hefur hins vegar þetta farið þannig, að nokkrir hafa verið bættir með 200 þús. kr., en allur þorrinn hefur verið bættur aðeins með 90 þús. kr. upphæð.

Svo kemur inn í þetta metingur um það, hvaða sjómannafélög hafi verið búin að semja um þessa hækkuðu tryggingu og hvaða félög ekki. Í sambandi við það, sem þar var sagt, þykir mér rétt að segja það, að þegar síðustu almennir samningar á milli útgerðarmanna og sjómanna á fiskiskipunum stóðu yfir, eða fyrir rösku ári, þá var það svo, að t.d. sjómenn á Austurlandi, þar sem mér er málið kunnugast, voru búnir að semja allir um miklu betri kjör almennt séð en félögin hér fyrir sunnan náðu nokkurn tíma, — hærri kjör almennt séð, hærri aflahlut. En þegar félögin hér náðu ekki þessum kjörum, sem önnur félög voru búin að ná og bjuggu við allt árið, þá náðu þau þó í þetta atriði, sem auðvitað var fjárhagslega miklum mun minna en það, sem hin félögin voru búin að semja um, og fengu þá inn í sína samninga, sem voru gerðir á eftir, þessi atriði viðvíkjandi 200 þús. kr. tryggingunni. Síðan hafa t.d. nokkur félög á Austurlandi, sem mér er líka kunnugt um, í þessum efnum gert nýjan samning og samið þá auðvitað um þessa 200 þús. kr. tryggingu líka, svo að þessi skýrsla, sem hv. 12. þm. Reykv. minntist hér á, er þegar orðin röng, því að ýmis félög eru búin að semja þar á annan veg en hann hélt.

Nei, það er mikill misskilningur hjá hv. 12. þm. Reykv., ef hann heldur, að sjómannafélögin, sem eru innan Sjómannasambands Íslands, hafi náð eitthvað betri samningum en hin félögin, sem þar eru fyrir utan. Það er síður en svo. En það er auðvitað engin ástæða til þess að fara hér út í neinn meting í þeim efnum varðandi þetta mál, hvernig samningar standa á milli hinna einstöku félaga. Hitt er vitanlega aðalatriði málsins: Á hér að binda með lögum 200 þús. kr. bæturnar, sem búið er að semja um á milli útgerðarmanna og sjómanna í fjölmörgum tilfellum, — á að binda þessa upphæð örugglega í lögum, þannig að það verði engin svik þar á í framkvæmd. á að binda hana sem lágmarkskaup, eða ætla menn sér að reyna að þvælast þar á móti og flytja eitthvert málamyndafrv., sem ekki leysa málið nema að litlu leyti, og afsaka sig ýmist með þessu eða hinu? Um það er spurningin.

Ég vil nú vona, að þeir hv. þm., sem flytja þetta frv. út úr þeim vandræðum, sem þeir eru komnir í í sambandi við þetta mál, hugi betur að stöðu sinni í málinu og gæti að því, að það hvílir á þeim nokkur skylda í þessum efnum að standa með því, sem bæði útgerðarmenn og sjómenn eru raunverulega búnir að viðurkenna sem réttan grundvöll í þessum efnum. Þeir eiga sannarlega ekki að láta standa á sér hér inni á Alþingi að vilja lögleiða það samkomulag, sem þessir aðilar hafa fallizt á sín á milli.