13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

167. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðason):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég hef þegar lokið mínum ræðutíma hér. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir hans innlegg í þetta mál. Ég hef borið upp þá till., að máli þessu verði vísað til hv. sjútvn., og ég vænti þess, að allir þeir, sem sæti eigi í þeirri nefnd, taki þessa till. flm. til rækilegrar athugunar. Það hefur þegar legið hér fyrir sem upplýsing frá hv. 4. landsk., sem jafnframt er forseti Alþýðusambandsins, að bæði fulltrúar útgerðarmanna og sjómanna hafa mælt með hinu frv. og hafa eiginlega látið liggja að því, að það væri nokkurs konar samkomulag þeirra á milli þar um. Hins vegar hefur það komið fram frá einum hv. nm. úr heilbr.- og félmn., og um það hafa nú þessar umr. orðið, hvort rétt væri að fara þá leið að mismuna mönnum með dánar- og slysabætur innan hins almenna tryggingakerfis.

Ég vil í þessari stuttu aths. leyfa mér að mótmæla harðlega þeim fullyrðingum hv. 4. þm. Austf., að þetta frv. sé borið fram vegna einhvers annars frv., sem hér liggur fyrir þinginu og hefur blandazt inn í þessar umr., og að okkar frv. komi í veg fyrir, að hitt nái fram að ganga. Ég leyfi mér algerlega að mótmæla þessu, og það hefðu aldrei neinar umr. orðið um það frv. nema vegna þess, að hv. 4. landsk. þm. dró það frv. inn í þessar umr., og skoðanir nokkurra þm. komu fram um það, hvaða leiðir ætti að fara í þessum málum. Hins vegar virðist, að allir þeir, sem hér hafa talað, séu sammála um það, að íslenzka sjómannastéttin, sem í öllu almennu verður að viðurkennast að býr við hættulegri aðstæður í starfi sínu en aðrir þegnar þjóðfélagsins eigi að vera með hærri slysa- og dánarbætur en aðrir þegnar þjóðfélagsins. En ágreiningurinn virðist hins vegar vera sá, hvort heppilegra sé að ná því fram að löggjafarleiðum eða með frjálsum samningum.