10.11.1961
Neðri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Út af véfengingum hv. þm. um, að fullnægjandi samráð hafi verið haft við ríkisútvarpið, áður en umbeðið leyfi var veitt, get ég upplýst, að ég hef spurt póst- og símamálastjóra um það, hvort hann hafi haft samráð við ríkisútvarpið, bæði áður en hann veitti leyfið 1955 og eins nú í sumar, og hefur hann tjáð mér, að hann hafi rætt málið bæði skiptin við útvarpið og ekki ákveðið að veita leyfið, fyrr en samþykki ríkisútvarpsins lá fyrir. í bréfi, sem póst- og símamálastjóri ritaði utanrrn. 11. apríl s.1., þar sem hann ræðir um þetta mál og spyr um afstöðu utanrrn., segir svo berum orðum:

„Póst- og símamálastjóri hefur rætt mál þetta munnlega við útvarpsstjóra, sem hafði ekkert að athuga við orkubreytinguna.“

Þannig hefur fullt samráð verið haft af hálfu póst- og símamálastjóra við forstöðumann ríkisútvarpsins, áður en nokkuð var aðhafzt í málinu.

Að því er styrkleikann varðar og þá fullyrðingu hv. þm., að varasamt væri að leyfa að gera aflstöðina sterkari en var, með tilliti til þess, að eftir styrkleikanum mundi hún frekar ná til Reykjavíkur, þá er það tekið fram í bréfi póst- og símamálastjóra til utanrrn., að stöðin sjáist með nokkuð svipuðum hætti í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli, þó að hún sé ekki meiri að styrkleika en hún hefur verið, og að þetta brot úr hring, sem tekið hefur verið úr og ekki sjónvarpað og átti að nægja til þess að útiloka Reykjavík, það hefur alls ekki verkað, og er talið, að af tekniskum ástæðum sé ekki hægt að útiloka þannig part úr hringnum. Það er því skoðun póst- og símamálastjóra og kemur fram í umsögn hans, að Reykvíkingar geti séð stöðina alveg eins og þeir, sem á Keflavíkurflugvelli búa, án tillits til þess, hvort hún sé af þeim styrkleika, sem hún hefur verið, eða samkvæmt þeim styrkleika, sem henni verður hleypt upp í.

Að því er varðar eftirlit með rekstrinum og ummæli hv. þm. um það, að honum finnist, að það hefði átt að setja skilyrði fyrir því, að Íslendingar hefðu þar eitthvert eftirlit með, þá hefur það ætið verið þannig, frá því að stöðin fyrst var leyfð, að af Íslendinga hálfu hefur verið frá því gengið, að þeir geta haft þarna það eftirlit, sem þeir vilja, og meira að segja haft þau áhrif og ráðið því um dagskrána, sem þeir óska eftir, en þessa hefur ekki verið óskað af Íslendinga hálfu. Þetta er að sjálfsögðu opið enn og er að sjálfsögðu grundvöllur fyrir leyfinu, að Íslendingar geti gripið inn í dagskrána og ráðið þar um eins og þeim þóknast, og er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu þeirra, sem með reksturinn hafa að gera á Keflavíkurflugvelli, að svo geti orðið. Þeir hafa meira að segja þvert á móti, hvað eftir annað, leitað eftir því og viljað fallast á, að sem nánast samstarf yrði um þetta við Íslendinga og að menn frá okkur önnuðust reksturinn á þessari stöð á Keflavíkurflugvelli.