04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

Aldarminning Hannesar Hafsteins

forseti (RH):

í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu Hannesar Hafsteins. Þegar hann tók sæti á Alþingi, höfðu embættisstörf hans og atgervi, en þó ekki sízt ljóð hans aflað honum frægðar meðal allra Íslendinga. Hér verða ekki rakin æviatriði hans, en á þessum vettvangi er ástæða til að minna á, að með upphafi hans stjórnartíðar hófst það þingræði, sem við Íslendingar búum nú við.

Um þessar mundir höfðu verið miklir flokkadrættir um stjórnskipunarmálin, og átti hann ekki hvað minnstan þátt í, að þau voru leyst með þeim hætti, sem raun varð á. Hann var fyrsti innlendi ráðherrann eftir stjórnarskrárbreytingu 1904 og raunar fyrsti ráðherrann, sem ábyrgð bar gagnvart Alþingi Íslendinga. Í stjórnartíð hans voru gerðar margháttaðar réttarbætur. Þá var sannkallað vaxtartímabil íslenzkra þjóðmála og íslenzkrar löggjafar. Hann sannaði með atgervi sínu öllu, að Ísland var hlutgengt meðal þjóðanna. Öll þjóðin minnist nú hins mæta manns, og ég bið hv. þdm. að heiðra minningu látins bjóðskörungs og þjóðskálds með því að rísa úr sætum. — [Dm. risu úr sætum.]