14.04.1962
Efri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2707)

45. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er fátt eitt, sem ég þarf að svara, Ég hafði tekið fram í framsöguræðu minni flest af því, sem hv. 9. þm. Reykv. var að tala um núna, en ég vil þó aðeins í sambandi við þessa skrifl. brtt., sem nú kemur fram, segja það, að búizt er við, að endurskoðunarnefndin um tryggingamál, sem nú starfar, muni hafa lokið störfum fyrir næsta þing og leggja brtt. sínar um almannatryggingalögin þá fyrir, og ef sú nefnd kemst ekki að þeirri niðurstöðu, að það sé rétt að hætta verðlagssvæðaskiptingunni, þá er væntanlega tækifæri hér á hv. Alþingi að bæta úr því, og ég er sannfærður um það, eins og fram er tekið í nál. meiri hl., að það er meiri hl. fyrir því með þjóðinni og væntanlega á þingi líka að hætta þessari verðlagssvæðaskiptingu, sem er orðin óeðlileg. En eins og ég tók fram hér áður við umr., er þetta mjög kostnaðarsamt. Að vísu má segja, að það væri tækifæri til þess að sjá fyrir tekjum á næsta þingi með því að gefa þennan frest, sem hv. þm. stingur nú upp á. En ég tel samt ástæðulaust að samþykkja þessa brtt. og eðlilegra, þegar almannatryggingalögin eru í allsherjarendurskoðun, að svona mikilvægar breytingar verði gerðar samhliða öðrum breytingum, sem kunna að vera nauðsynlegar á lögunum eftir þann tíma, sem liðinn er, síðan allsherjarendurskoðun á þeim fór fram.

Ég hafði raunar dálítið gaman af þeim kafla ræðu hv. 9. þm. Reykv., þar sem hann talaði um vísitölu framfærslukostnaðar, og sérstaklega því, er hann sagði, að hún væri öruggur mælikvarði. Ég man ekki betur en það væri ekki talið, á meðan hún var og hét. Þá var ekki meira um annað talað en að hún væri röng og villandi, ef hún væri ekki beinlínis fölsuð. En það er gott, að hún hefur batnað svona mikið við það, að hún eiginlega lézt, ef maður mætti svo orða það.

Viðvíkjandi verðtryggingunni gat ég um það í framsöguræðu minni, að sú hækkun, sem nauðsynleg hefði verið á bótum almannatrygginga, væri þegar komin í framkvæmd að þessu sinni og væri því ekki ástæða til þess að taka það upp núna. Ef eitthvert nýtt form verður fundið, er eðlilegra að gera það í góðu tómi, og ég vænti þess, að sú nefnd, sem er að endurskoða þetta, muni nú finna þá leið, sem heppilegust verður til þess að tryggja það, að öryrkjar beri ekki skarðari hlut frá borði en aðrir þeir, sem verst eru settir í þjóðfélaginu.

Það er sérstaklega annað í sambandi við verðtrygginguna, sem ég vildi aðeins minnast á. Það er, hverjir það eru, sem greiða bæturnar raunverulega. Það eru margir aðilar, og það er sérstaklega frá þessu gengið í lögunun um almannatryggingar, hvernig kostnaðurinn skiptist á hina tryggðu, sveitarfélögin og ríkissjóð. Þess vegna er því nær óframkvæmanlegt að láta bæturnar breytast nema einu sinni á ári. Það þarf að gera áætlun um þetta fyrir fram árlega, hverjar greiðslur hinna tryggðu skuli vera, náttúrlega líka, hverjar greiðslur ríkissjóðs skuli vera og greiðslur sveitarfélaganna, og það er mjög erfitt, þó að það hafi verið gert, að breyta þessu. Ef sérstaklega hefur árað vel hjá tryggingunum, þá hefur það komið fyrir, að það hefur verið gert án þess að breyta gjöldum hinna tryggðu og framlagi ríkissjóðs eða sveitarfélaga á því ári, sem breytt hefur verið. Það hefur stundum verið gert hluta úr ári, ef það hefur árað svo vel hjá tryggingunum að öðru leyti, að þær hafi getað tekið á sig nokkuð af því skakkafalli, sem þær hafa orðið fyrir af þeim sökum. Hinum hlutanum hafa þær þá náð upp aftur, eftir að hægt hefur verið að breyta framlögum ríkissjóðs og sveitarfélaganna á næsta ári.

Ég held, að það sé ekki ástæða til, að ég segi meira um þetta að þessu sinni. Ég legg sem sagt til, að þessi skrifl. brtt. sé felld.