24.10.1961
Neðri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

22. mál, áburðarverksmiðja

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti, í því stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir, er m.a. lagt til, að áburðarverksmiðjan verði gerð að verzlunarfyrirtæki, hún hefur ekki verið það áður samkvæmt þeim lögum, sem um hana gilda. Í 8. gr. laganna um áburðarverksmiðju frá 1949 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áburðarsala ríkisins kaupir af verksmiðjunni áburð til notkunar innanlands fyrir kostnaðarverð, er verksmiðjustjórn áætlar og ákveður fyrir 1. marz ár hvert að fengnu samþykki landbrh,“

Samkvæmt þessu hefur það verið þannig til skamms tíma, að áburðarverksmiðjan hefur ekki selt sína framleiðsluvöru beint til bænda og annarra notenda, heldur hefur Áburðarsala ríkisins keypt allan áburðinn og verzlað með hann, en síðustu tvö árin, þ.e.a.s. árið 1960 og árið 1961, hafa þessi ákvæði í 8. gr. laganna verið sniðgengin. Þessi tvö ár mun áburðarverksmiðjan hafa selt áburð, sem hún framleiddi, beint til notenda, en áburðarsalan ekki keypt hann af henni, eins og lögin mæla fyrir um. Ég tel, að það hefði þurft lagabreytingu, áður en þessi háttur var upp tekinn, en breytingin var gerð án þess, að gerð væri nokkur breyting á lögunum.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er enn fremur gert ráð fyrir því, að áburðarverksmiðjan taki að verzla með innfluttan tilbúinn áburð, sem Áburðarsala ríkisins hefur áður annazt. Ákvæði um þetta er nokkuð öðruvísi orðað í því frv., sem hér liggur fyrir, en í þeim tveim stjórnarfrv., sem áður hafa legið fyrir Alþingi um þessa hluti. Þá var lagt til, að ríkisstj. yrði veitt heimild til að fá áburðarverksmiðjunni einkaleyfi til innflutnings á tilbúnum áburði. Nú er þetta orðað þannig að ríkisstj. geti falið henni að flytja inn tilbúinn áburð. Mér skildist á hæstv. landbrh., þegar hann mælti fyrir þessu frv. áðan, að hann gerði ekki ráð fyrir því, að þar væri um einkaleyfi að ræða til verzlunar með innfluttan áburð, en eins og þegar hefur verið bent á af öðrum, þá sést ekkert um það í frv., að aðrir eigi að fá heimild til innflutnings á áburði. Verði að því ráði horfið að leggja niður Áburðarsölu ríkisins, hefði ég talið rétt, að það yrði skýrt ákveðið í lögum, að áburðarverksmiðjan fái ekki einkaleyfi til innflutnings á útlendum áburði, jafnvel þó að hún fái heimild til að verzla með þá vöru.

Í 2. gr. þessa frv. eru ákvæði um gjald í fyrningarsjóð verksmiðjunnar. Ég held, að þessi ákvæði í þessu nýja frv. séu alveg eins og þau hafa verið í þeim frv., sem legið hafa fyrir tveim síðustu þingum um þetta atriði. Þar segir, að verksmiðjustjórn skuli heimilt með samþykki landbúnaðarráðherra að ákveða tillag í fyrningarsjóð, þannig að samanlagðar fyrningarafskriftir véla eða húsa, sem orðin eru ónýt, og brotavirði þeirra verði jafnhátt kostnaðarverði sams konar eigna, er afla þarf í þeirra stað.

Ég held, að ég hafi látið orð falla um það á síðasta þingi, þegar þetta var til umræðu, að ég gæti ekki komið auga á það, að hægt væri að framkvæma þetta, þótt að lögum yrði. Hver getur séð það löngu fyrir fram, hvað ný hús og nýjar vélar muni kosta, þegar á þeim þarf að halda, og ákveðið síðan fyrningarsjóðsgjald eftir því? Verðlag á slíkum hlutum er árlega að taka breytingum, jafnvel þótt þeir tímar komi væntanlega, að gengi íslenzku krónunnar verði ekki lækkað árlega. Ég held, að þessi regla sem þarna er stungið upp á, ef reglu skyldi kalla, sé þannig, að hún mundi verða óframkvæmanleg. Ef nauðsynlegt þykir að breyta fyrningarsjóðsgjaldi, þarf að setja um það öðruvísi ákvæði og ákveðnari reglur en lagt er til í frv.

Í grg., sem frv. fylgir, eða athugasemdum segir, að megintilgangur þess sé að koma á hagkvæmara og ódýrara fyrirkomulagi en verið hefur við verzlun með tilbúinn áburð. Og síðar í athugasemdunum segir: „Með þessu móti yrði unnt að minnka verulega milliliðakostnað við áburðarverzlun:

Ég verð að draga það mjög í efa, að fyrirkomulagið á áburðarverzlun yrði hagkvæmara og ódýrara, þó að þessi breyting yrði gerð, sem þetta frv. stefnir að, eða milliliðakostnaður við áburðarverzlun mundi minnka. Engar upplýsingar sé ég hér í athugasemdunum nm það, hver sölukostnaður Áburðarverksmiðjunnar h/f hefur orðið, t.d. í fyrra, árið 1960, þegar hún annaðist sjálf um sölu á sinni framleiðslu til notenda. Ef til vilt hefur hæstv. ráðherra einhverjar upplýsingar um það. En ég tel ekki líkur til þess, að sölukostnaðurinn á áburði verði minni en hann hefur verið, þó að þessi breyting verði gerð. Áburðarsala ríkisins hefur verið vel rekið fyrirtæki undanfarið með litlum kostnaði. Það væri fróðlegt að vita, hvort gerðar hafa verið áætlanir um, hver kostnaðurinn muni verða, ef áburðarverksmiðjan taki að sér innflutning og sölu á útlendum áburði, — það væri fróðlegt að vita, hvort slíkar áætlanir hafi verið gerðar, og væri þá gott, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, fengi að kynnast þeim.

Það getur að sjálfsögðu komið til mála að leggja niður eitthvað af ríkisfyrirtækjum, koma þeirri starfsemi, sem þau hafa annazt, fyrir á annan hátt, ef sýnt er, að það muni vera hagkvæmt. Hér tel ég, að það hafi ekki komið fram viðkomandi þessu máti, að líkur séu til, að breytt verði til batnaðar. Þó, eins og ég sagði áðan, að það geti komið til mála að leggja niður eitthvað af ríkisfyrirtækjum, þá tel ég, að byrjað sé á öfugum enda, ef byrjað er á því að leggja niður ríkisfyrirtæki sem hefur verið sérstaklega vel stjórnað og af mikilli hagsýni rekið.

En hvernig hefur rekstri Áburðarverksmiðjunnar h/f verið hagað undanfarin ár? Þegar slíkt frv. sem þetta liggur fyrir, þá tel ég ástæðu til að athuga það, hvort rekstur áburðarverksmiðjunnar hafi verið þannig, að fýsilegt sé að fela því fyrirtæki fleiri verkefni en það hefur haft. Ég vil í þessu sambandi nefna það, að árin 1959, 1960 og 1961 hefur verksmiðjustjórnin talið með gjöldum verksmiðjunnar hærra fyrningarsjóðsgjald en lögákveðið er og sett áburðarverðið þeim mun hærra.

Það eru ákvæði í lögum um áburðarverksmiðju um gjald til fyrningarsjóðs. Það er fyrst nefnt í 8. gr. laganna. Ég ætla að lesa greinina í heild, með leyfi hæstv. forseta. Hún er þannig:

„Áburðarsala ríkisins kaupir af verksmiðjunni áburð til notkunar innanlands fyrir kostnaðarverð, er verksmiðjustjórn áætlar og ákveður fyrir 1. marz ár hvert að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra. Í hinu áætlaða kostnaðarverði skal reikna með nauðsynlegum og lögákveðnum tiltögum í fyrningarsjóð og varasjóð verksmiðjunnar:

Þannig hljóðar 8. gr. En verksmiðjustjórninni er hvergi veitt vald til að meta það, hvað séu nauðsynleg tillög í fyrningarsjóð, enda segir í 8. gr., að reikna skuli með nauðsynlegum og lögákveðnum tillögum í sjóði verksmiðjunnar. Og Alþingi ákvað þetta sjálft, hver gjöldin skyldu vera. Þau eru ákveðin í 10. gr. laganna. Þar er það metið af sjálfu Alþ., hver fyrningarsjóðsgjöldin eigi að vera. Þar segir, að framlag áburðarverksmiðjunnar til fastra sjóða hennar skuti árlega vera: a) til fyrningarsjóðs 21/2% af kostnaðarverði húsa, lóðar og annarra mannvirkja og 71/2% af kostnaðarverði véla og annarra áhalda, b) til varasjóðs allt að 31/2 % af kostnaðarverði framleiðslunnar. Öll árin, sem verksmiðjan hefur verið rekin, fram til ársins 1959, hefur fyrningarsjóðsgjaldið verið reiknað með þeim hundraðstölum, sem lögin ákveða og nefndar eru hér að framan, en síðustu árin, árin 1959 og 1960, voru reikningsfærð hærri fyrningarsjóðsgjöld en lögákveðin eru, þ.e. 3% af verði húsa, lóðar og annarra mannvirkja í stað 21/2 % og 121/2 % af kostnaðarverði véla og annarra áhalda í stað 71/2 %. Og snemma á þessu ári, sem nú er að liða, 1961, mun verksmiðjustjórnin hafa ákveðið og tekið inn í sína áætlun um kostnaðarverð áburðarins enn hærra gjald til fyrningarsjóðs tvö næstu árin á undan.

Ég hef ekki fengið sundurliðun á þeirri fyrningarsjóðsupphæð, sem færð er til gjalda á rekstrarreikningi verksmiðjunnar árið 1959, en mér sýnist þó ljóst af reikningnum, að þar muni fyrningargjaldið ofreiknað um a.m.k. 5—6 millj. kr. Áburðarverðið var þá hækkað sem þessu nam. Ég fékk hins vegar á síðasta aðalfundi áburðarverksmiðjunnar sundurliðun á fyrningarsjóðsgjaldi, sem reiknað var árið 1960, og mér reiknast svo til, að þá hafi verið tekið í fyrningarsjóð a.m.k. 71/2 millj. kr. umfram það, sem ákveðið er í lögunum. Á því ári, 1960, seldi verksmiðjan áburð, samkv. rekstrarreikningi, fyrir 45428335 kr. Þessi upphæð, sem mér reiknast til að hafi verið tekin til fyrningarsjóðs fram yfir það, sem lögákveðið er, er því rétt um 16% af heildarsöluverðmæti áburðarins. Og eins og áður segir, mun verksmiðjustjórnin enn hafa hækkað fyrningarprósentuna árið 1961, eins og áður án nokkurrar lagaheimildar, og bætt þessari hækkun við söluverð áburðarins.

Það er því mikið fé, sem áburðarverksmiðjan er búin að taka af bændum og öðrum áburðarkaupendum síðustu 3 árin með hærra áburðarverði en leyfilegt er samkv. lögunum um áburðarverksmiðju. Hér hefur verksmiðjustjórnin haft ranga aðferð. Ef hún taldi fyrningargjaldið of lágt ákveðið í lögunum, og það mun hún gera, þá átti hún að óska þess við Alþ., að lagaákvæðinu um þetta atriði yrði breytt. Þetta gerði verksmiðjustjórnin ekki, heldur reiknaði gjaldið hærra en löglegt var og ákvað söluverð áburðarins hærra en leyfilegt var. Þeir hæstv. ráðh., sem hafa farið með landbúnaðarmálin árin 1959–61, gátu hindrað þetta, og þeir hefðu átt að gera það. Þeir gátu hindrað það, vegna þess að kostnaðarverðsáætlun verksmiðjustjórnar er árlega háð samþykki landbrh. En af einhverjum ástæðum hafa þeir veitt samþykki sitt til þess, að bændum og öðrum áburðarnotendum væri seldur áburðurinn á þessum árum hærra verði en rétt var.

Þegar stjórnarfrv. svipað því, sem hér liggur fyrir, var til 1. umr. á Alþ. í okt. í fyrra, var m.a. rætt um þetta tiltæki verksmiðjustjórnarinnar, að reikna hærra fyrningarsjóðsgjald 1959 en lögin ákveða og setja áburðarverðið þeim mun hærra. Ef ég man rétt, sagði hæstv. landbrh. þá, að menn gætu höfðað mál gegn áburðarverksmiðjunni út af viðskiptunum, ef þeir teldu, að áburðurinn hefði verið seldur hærra verði en rétt var. Ríkissjóður á 3/5 hlutafjárins í Áburðarverksmiðjunni h/f, og verksmiðjan á að starfa eftir lögum frá Alþingi. Ég tel, að menn ættu að geta fengið hlut sinn réttan í viðskiptum við slíkt fyrirtæki án þess að standa í málaferlum. hað var gerð tilraun til þess á síðasta aðalfundi Áburðarverksmiðjunnar h/f að fá leiðréttingu á þessu máli. En það fékkst ekki, og ríkisstj. hafði að sjálfsögðu úrslitaatkvæði um það, eins og annað, því að ríkisstj. fer þarna með 3/5 af atkvæðamagninu í samræmi við eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu.

En áburðarverksmiðjan ætti að endurgreiða viðskiptamönnum sínum það, sem ólöglega hefur verið af þeim tekið. Alþingi ætti að gera ráðstafanir til þess, að sú leiðrétting verði gerð. Það fyrsta, sem Alþ. ætti nú að gera viðkomandi áburðarverksmiðjunni, er að hlutast til um, að verksmiðjan skili aftur til viðskiptamanna sinna því fé, sem hún hefur ólöglega af þeim tekið.