08.12.1961
Neðri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2808)

54. mál, sjúkrahúslög

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Hæstv. forseti. Mér þótti vænt um að heyra það hjá hv. 3. þm.. Sunnl., að hann fylgir okkur þremenningunum fast eftir, svo sem ekkert hafi í skorizt. Hann gat þess réttilega, að ég ræddi við hann í haust, áður en við þremenningarnir lögðum þetta frv. fram, og óskaði eftir því við hann, að við yrðum allir fjórir saman um málið, og átti ekki von á öðru. Þá sagði hann, eins og hann drap réttilega á, að hann vildi, að við gerðum ekkert, sem gæti orðið til þess að tefja fyrir málinu eða skemma það. Og við höfðum ekkert gert annað í fyrra en leggja þetta frv. fram og ekkert gert annað í þetta sinn en að hafa hug á því að leggja sama frv. fram. Og ég skildi þennan hv, þm.. þannig, að hann vildi alls ekki vera með okkur að flytja málið, vegna þess að hann vildi hvorki tefja málið í því horfi, eins og það var, né skemma það á neinn hátt. Og ég vona, að ég hafi ekki misskilið hv. þm.. að þessu leyti, enda kom það fram í ræðu hans hér áðan, að hann taldi, að það væri nokkurt glapræði af okkar hálfu, flm., að vera einmitt á þessum tíma með frumvarpið. En ég sé ekki, að þetta frv., eins og stefna þess er, geti nokkuð tafið undirbúning málsins hjá ríkisstj., ef hún er farin að undirbúa það að sínu leyti, eða tafið fyrir aðilum heima í héraði. Það er hægt að halda öllum undirbúningi í fullum gangi á báðum þessum vettvöngum, ef verkast vill. Frv. er aðeins í þá stefnu, að þegar til kemur að reisa hetta hús, þá verði greiðsluhlutföllin, að því er varðar stofnkostnað, eins og segir í lögum að eigi að vera um fjórðungssjúkrahús. Um annað er ekki að ræða, þannig að ég held, að við hv. 3. þm.. Sunnl. séum fyllilega sammála um þetta mál, enda átti ég þess von af honum, og brennur eldurinn einna sárast á þessum hv. þm.., að því er málið varðar. Og mér þykir vænt um að heyra það og okkur flm. öllum þrem, að undirbúningur er kominn á flugstig, og þess vegna tel ég, að það sé fyllsta nauðsyn að flýta fyrir þessu máli og að það nái sem fyrst fram að ganga á þessu þingi, úr því að svo er komið, því að þá má helzt ekki tefja nema sem allra minnst.

Framburð þessa frv. af hálfu okkar þriggja þm. á Suðurlandi taldi hann mjög færa stoðir undir, hversu réttmæt kjördæmabreytingin var á sínum tíma. Ég er 1. flm. þessa frv. og 2. flm. er hv. 2. þm.. Sunnl. Við búum á Suðurlandsundirlendinu. Þó svo að kjördæmi okkar hafi verið stækkað allverulega og gegn okkar vilja á sínum tíma, látum við það ekki á okkur fá, þegar um hag og gengi fólksins er að ræða, sem í hinu útvíkkaða kjördæmi býr. En að það renni stoðum undir réttmæti þessarar breytingar, byltingar á sinni tíð, það fæ ég ekki séð. Það má heldur segja, að við þm.. séum dálítið hreyfanlegir eg eigum hægt með að samlaga okkur breyttum aðstæðum, þó að ekki séu góðar og hvergi nærri.

Mér þykir ekki ástæða til þess að ræða svo meira um þetta mál, en ég vænti þess og hef tekið það fram, að það er fyllilega nauðsynlegt, að frv. nái sem fyrst fram að ganga hér á Alþingi, úr því að byggingarundirbúningur allur er kominn á síðasta þrep. Og ég vil vænta þess, að einmitt upplýsingar frá hv. 3. þm.. Sunnl. megi verða m.a. til þess að ýta málinu sem fyrst fram.