08.12.1961
Neðri deild: 34. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hefði nú satt að segja haldið, að það væri ómögulegt að læða inn í þessar umr. umræðum um líkið af Stalín, en þar sannast hið fornkveðna, að vini mínum, hv. 4. þm. Norðurl. v. (BP), er ekkert ómögulegt í ræðustól hér á hv. Alþingi.

Þau fáu orð, sem ég ætlaði að segja um þetta frv., ganga út á það fyrst og fremst að taka undir fyrri hluta ræðu hv. 4. þm. Austf. (LJós), sem hann hafði hér áðan yfir. Ég tek undir það með honum, að það er ástæðulaust að vera að stofna til óþarfa tortryggni í sambandi við þetta ráð strax á byrjunarstigi með því að hafa það ráð skipað á þann veg, að þarna séu 4 útgerðarmenn, sem eigi sína fulltrúa annars vegar ásamt 3 fulltrúum sjómanna, því að það hefur verið lengi viðurkennt af útgerðarmönnum, a.m.k. Þegar þeir kvarta yfir því, hvað sjómenn hafa mikið í sinn hlut, að þeir taki milli 50 og 60% af brúttóafla skipanna til sín. Hins vegar má að vísu fallast á þá skoðun útgerðarmanna, að þeirra er ábyrgðin. Þeir standa að baki útgerðinni með fé sitt og eigur og bera ábyrgð á því, að vel gangi, þannig að ég teldi rétt að koma þarna að nokkru leyti á móti þessari skoðun þeirra, og tel þess vegna, að þeim væri full sæmd í því að eiga jafnmarga fulltrúa og sjómenn eða við hlið þeirra annars vegar við þetta samningaborð.

En út af hinu atriðinu, sem hv. 4. þm. Austf. minntist á, en það er till. Tryggva Helgasonar um skipun yfirnefndarinnar og breytingu á því, sem segir í þessu lagafrv., þá fæ ég ekki séð annað en að ef sú till. yrði samþykkt, þá sé komið út í sömu ófæruna og er verið að reyna að forðast með þessum lögum. Þá er komið út í nákvæmlega sama stríðið og verið hefur undanfarin ár, sem orsakar það, að fiskimenn allt í kringum landið fá kannske ekki að vita, upp á hvaða hlut þeir rói til fiskjar, fyrr en komið er að lokum veiðitímabilsins, og það tel ég alveg ófært. Tilgangur þessara laga er m.a. sá að losna við þann mikla vanda.

Um hitt atriðið, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. kom reyndar inn á ásamt hv. 4. þm. Austf., um skipan þeirra fulltrúa, sem eiga sæti í þessu væntanlega ráði fyrir hönd sjómanna, vil ég aðeins benda hv. þdm. á það, þegar verið er að tala um fulltrúa Alþýðusambandsins og fulltrúa Sjómannasambandsins annars vegar, að Sjómannasambandið er fullgildur aðili innan Alþýðusambands Íslands, þannig að þarna kæmi aldrei til greina annað en þessir tveir fulltrúar, sem sagt tveir fulltrúar Alþýðusambandsins, gætu ráðið því og haft hönd í bagga um það, að annar hvor þeirra færi inn í yfirnefndina. Af þessu er alveg óþarfi að hafa nokkurn ótta um það, að Alþýðusambandið mundi ekki alltaf eiga sinn fulltrúa þar.

Ég vil ekki hafa fleiri orð um þetta við 1. umr., enda get ég tekið undir með öðrum ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, að það er stutt síðan þetta mál hefur verið lagt fyrir þd. og fáir hafa getað kynnt sér það til hlítar, þó að ég hins vegar ásamt 4. þm. Austf. að því er virðist höfum haft nokkurt tækifæri til þess að kynna okkur þetta. En að sjálfsögðu verður þetta athugað í nefnd og ég mun þar að öllum líkindum gera ráðstafanir til þess að flytja brtt. við 1. gr. um skipunina í ráðið.