21.11.1961
Neðri deild: 23. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (2853)

75. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. fjallar um breyt. á lögunum um verkamannabústaði eða þann kafla laganna um byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, sem fjallar um verkamannabústaði.

Eins og kunnugt er, þá er það tilgangur laganna um verkamannabústaði að hjálpa þeim, sem eru efnaminnstir, til að eignast eigið húsnæði. Því voru þau ákvæði sett í lögin, að lánin mættu vera allt að 90% af kostnaðarverði viðkomandi eignar og lánstíminn 42—75 ár. Þessum ákvæðum laganna var nokkurn veginn fylgt í upphafi, en mjög hefur hins vegar skort á það hin seinustu ár, og stafar það jöfnum höndum af fjárskorti byggingarsjóðsins og síhækkandi byggingarkostnaði, þannig að nú er svo komið, að t.d. á íbúð, sem kostar um 400 þús. kr., nema lán úr sjóðnum ekki nema 160 þús. kr., sem vantar mikið á að sé helmingur af kostnaðarverðinu, eða milli 30 og 40% af því. Þetta frv. er flutt til að bæta úr þessu, og meginbreytingarnar, sem í því felast, eru þessar:

Í fyrsta lagi er ákveðið nýtt framlag ríkisins til byggingarsjóðsins, er nemi árlega 5 millj. kr.

Í öðru lagi er ákveðið, að lán úr sjóðnum skuli aldrei nema lægri upphæð en 65% af kostnaðarverði viðkomandi eignar. Þetta mundi í framkvæmd þýða það, að t.d. út á íbúð, sem kostar 400 þús. kr., ætti sjóðurinn að veita lán, sem næmi a.m.k. 260 þús. kr. í stað þess, að samkvæmt þeim reglum, sem nú er farið eftir, mundi ekki verða lánað út á hana nema 160 þús. kr.

Í þriðja lagi er svo lagt til, að lágmarkstími lána verði lengdur úr 42 árum í. 50 ár, og þetta er einnig gert til þess að gera lánskjörin hagstæðari.

Ég held, að þeir, sem kynna sér þessi mál, hljóti að telja þessar breytingar eðlilegar og sjálfsagðar, enda skilst mér, að breytingar, sem ganga í svipaða átt, hafi undanfarið verið til athugunar hjá þeim, sem ráða yfir þessum sjóði.

Ég flutti sams konar frv. og þetta á síðasta þingi, en það var að vísu ekki fyrr en nokkuð var á það liðið, og það frv. dagaði þá uppi. Ég vænti þess, að þar sem nú gefst meiri tími til að athuga þetta mál hér í þinginu, þá geti það orðið til þess, að þetta mál nái fram að ganga. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta að sinni, en legg til, að að umræðunni lokinni verði því vísað til heilbr: og félmn.