11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Karl Guðjónsson:

Hæstv. forseti. Sjútvmrh. hæstv., sem hér talaði fyrir skömmu um málið, lagði á það mjög ríka áherzlu, að gangi þess yrði hraðað hér í þinginu, til þess að það yrði örugglega afgr. fyrir þinghlé, og það verðlagsráð, sem væntanlega skapast upp úr samþykkt frv., gæti tekið til starfa í tæka tíð, til þess að fiskverð yrði ákveðið, áður en vertíðarveiðar ættu að hefjast.

Ég skil að sjálfsögðu mætavel þessa ósk hæstv. ráðh. og er henni fyrir mitt leyti samþykkur. En ég get samt ekki stillt mig um það í tilefni af henni að vekja hér aðeins athygli á því, að það er að verða býsna mikið um það hjá okkur, að Alþingi fái tillögur eða lagafrv. til meðferðar rétt af formsástæðunum einum og allar athuganir, sem gerðar eru hér á þessum plöggum, þegar þannig stendur á, séu nánast taldar vera tímasóun og annað ekki. Það er af öllum viðurkennt t.d. í sambandi við þetta frv., að undirbúningsnefnd þarf tíma til að semja svona frv. Þegar hún hefur skilað því, þarf ríkisstj. einnig tíma til að athuga þær tillögur, sem gerðar hafa verið. Það er einnig viðurkennt að þegar slíkt verðlagsráð væri komið á laggirnar, muni það þurfa tíma. Það er bara Alþingi, sem þarf ekki tíma. Það er bara Alþingi, sem er í rauninni að spilla málum, ef það tekur sér tíma til þess að athuga þau gaumgæfilega og reyna að búa tryggilega um þá hnúta, sem þó eru hnýttir óumdeilanlega á Alþingi með lagasetningu, til þess að lögin geti orðið þjóðinni til framdráttar og hagkvæm.

Nú skal það fúslega játað, að það hefur verið hafður jafnvel enn þá meiri hraði á sumum öðrum málum hér en þessu. En mér þykir samt sem áður ástæða til að vekja athygli á þessu, og að svo miklu leyti sem ég gæti mælt fyrir munn Alþingis í þessum efnum, þá vil ég vekja athygli á því, að Alþingi er sú stofnun, sem þjóðin hefur kosið sér til þess að ráða ýmsum málum til hlunns, og það er ekki nema eðlilegt, að sú stofnun, ekki síður en aðrir, þurfi sinn tíma til að undirbúa mál, ekki sízt þau mál, sem miklu varða um hluti eins og t.d. vinnufrið í landinu. En það er óumdeilanlegt, að þetta mál getur verkað nokkuð til þess, hvort hér verður í þeirri grein, sem það fjallar um, um vinnufrið að ræða eða ekki.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, vil ég ekki gera hér neitt, sem torveldar það, að þessi skipan, sem fyrirhuguð er, komist á. Ég hef að vísu margt við þetta frv. að athuga, og mun ég drepa á það hér á eftir. Engu að síður þykir mér vert að láta það koma fram strax, að ég tel, að jafnvel þótt frv. yrði samþ. óbreytt eða lítið breytt, eins og það hefur nú komið frá meiri hl. sjútvn., þá tel ég, að það væri til bóta frá þeirri skipan málanna, sem verið hefur að undanförnu, þegar ríkisvaldið hefur talið sér framleiðslumál sjávarútvegsins óskyld, að því er þau atriði varðar, sem hér er fjallað um. En það hefur ríkisstj. óneitanlega gert fram til þessa, og vildi ráðh. að vísu ekki kannast við, að hér væri um stefnubreytingu að ræða hjá ríkisstj. Hér er þó greinilega um skref til þeirrar áttar að ræða, hvort sem maður á að kalla það stefnubreytingu eða eitthvað annað, og tel ég, að það sé reyndar eitt af því fáa, sem heldur horfi til réttrar áttar í þeirri lagasetningu, sem ríkisstj. hefur einkum beitt sér fyrir.

Það er óumdeilanleg staðreynd, að í fyrra, þegar við hv. 4. þm. Austf. (LJós) lögðum fram hér frv. sem hér hefur nokkuð borið á góma og ég mun víkja örlítið nánar að síðar, þá var það mjög haft á orði af málsvörum ríkisstj., að það væri ekki vert, að ríkisvaldið blandaði sér í samningsmál þeirra stétta, sem með framleiðsluna færu, en það var í því tilfelli samningur útgerðarmanna og fiskkaupenda. Þá voru sjómenn ekki komnir með í þá samninga, eins og þó hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt, þar eð þeir voru eigendur að verulegum hluta af því fiskmagni, sem selja átti.

Á undanförnum árum hefur það gengið þannig til, að veiðitímabil hafa hafizt, án þess að samningar væru til um fiskverðið, og það hefur að vísu ekki gengið mjög greiðlega að láta slík veiðitímabil hefjast. Á því hafa orðið meiri og minni truflanir, vegna þess að ekkert var gert til þess, að samningar kæmust á um fiskverðið. Þannig var t.d. í fyrravetur verkbann af hálfu útgerðarmanna í ýmsum verstöðvum fram eftir vetri, og tapaðist við það verulegur afli, sem annars hefði fallið þjóðinni í skaut. En einnig eftir að úr tók að greiðast í því efni, kom það fyrir í allmörgum verkalýðsfélögum, að þau samþykktu ekki þá samninga, sem samninganefnd þeirra hafði þó fyrir sitt leyti samþykkt, vegna þess að í gildi var gengin sérstök verðflokkun á nýjum fiski, svokallað ferskfiskeftirlit ríkisins, þar sem farið var eftir reglum um fiskverð, sem enginn aðili hafði fjallað um í samningum um fiskverð, a.m.k. enginn þeirra aðila, sem sjómenn töldu sig eiga neins staðar við þau samningaborð, þar sem þeim málum var ráðið til hlunns.

Hæstv. sjútvmrh. hélt því fram, að með samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, væri hlutur sjómanna gerður miklum mun betri en hann var í sjávarútvegsmálaráðherratíð hv. 4. þm. Austf., því að þar hafi sjómenn aldrei verið kallaðir að samningaborði um fiskverð. Hér er því í fyrsta lagi til að svara, að þá var skipan mála öll önnur en nú. Þá höfðu sjómenn sérstakan fiskverðssamning við útgerðarmenn, en sömdu ekki sjálfir við fiskkaupendur, þ.e.a.s. Þeirra fiskkaupendur voru útgerðarmennirnir sjálfir, og um það var fjallað í sérstökum samningi. Það er á hinn bóginn alveg rangt hjá hæstv. sjútvmrh., að við þær samningagerðir, sem gerðar voru undir handleiðslu sjútvmrn. á þeim tíma, hafi sjómenn ekki verið til kvaddir. Þeir voru einmitt þar til kvaddir oft og iðulega, og það urðu minni tafir og reyndar engar teljandi tafir á framleiðslu landsmanna fyrir þá sök í sjávarútvegsmálaráðherratíð 4. þm. Austf., vegna þess að ekki hefðu náðst samningar, og er þar ólíku saman að jafna eða því, sem síðar hefur gerzt í þeim efnum.

Hér hefur af mörgum aðilum verið bent á það sem einn megingalla þessa frv., að sjómönnum sé ætluð minni aðild að þessum samningum af seljenda hálfu heldur en útgerðarmönnum, enda þótt það standi ómótmælt, að sjómennirnir eru eigendur a.m.k. helmings þess fiskmagns, sem þannig verður væntanlega samið um. Það hefur hvergi, svo að ég hafi orðið þess var, verið í þessum umr. dregin fram nein réttlæting fyrir því, að sjómenn ættu vegna eignarhluta síns í fiskinum að eiga færri aðila við samningaborðið við fiskkaupendur heldur en útgerðarmenn, enda er upplýst, að hér er ekki farið að réttum hlutföllum í fisksölunni, þar sem sjómennirnir eru eigendur að a.m.k. helmingi fiskmagnsins.

Hér hefur einnig verið bent á, að það sé óeðlilegt, að Alþýðusamband Íslands tilnefni ekki nema einn aðila að þeim fiskverðssamningum, sem fram fara væntanlega á vegum verðlagsráðs sjávarútvegsins. Hér hefur verið bent á marga þá hluti, sem sanngjarnir hljóta að teljast og hníga að því, að Alþýðusambandinu beri fleiri fulltrúar en aðeins einn. Ég vil taka undir þær röksemdir, sem í þá átt hafa farið. Ég vil auk þess benda á það, sem hv. 5. Þm. Norðurl. v. (BP) sagði hér í ræðu rétt áðan, að það væri eðlilegt, að af hálfu Landssambands ísl. útvegsmanna yrði það tilskilið, að fulltrúar þess sambands yrðu ekki allir úr einum og sama landshlutanum, heldur væri eðlilegt, að þar væri sinn maðurinn úr hverjum landsfjórðungi, sökum þess að nokkur aðstöðumunur væri eftir því, hvar útgerð væri staðsett. Þetta tel ég vera rétta ábendingu hjá 5. Þm. Norðurl. v., og hún á einnig við að því er varðar fulltrúa sjómannasamtakanna. Nú er því svo háttað, að Sjómannasamband Íslands er eingöngu samband sjómanna hér við Faxaflóa, önnur sjómannasamtök eru ekki í því. Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að fulltrúi Sjómannasambands Íslands mundi verða úr röðum sjómanna hér við Faxaflóa. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefur einnig sínar aðalstöðvar hér í Reykjavík, og þótt það sé að vísu landssamband, þá sýnist mér nokkuð einsýnt, að þar muni fyrst og fremst gæta áhrifa héðan frá Faxaflóasvæðinu, og teldi ég ekki óeðlilegt, að þessi sambönd bæði, Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandið, mundu tilnefna sem sína fulltrúa í verðlagsráð aðila, sem ættu bólfestu hér við Faxaflóa. Í Alþýðusambandi Íslands eru hins vegar sjómannasamtökin um allt land, og er það býsna þröngt olnbogarúm, sem Alþýðusambandinu er ætlað, að skipa aðeins einn fulltrúa í þessa nefnd. Ég teldi það vera nokkurn veginn lágmark, að það ætti þess kost að skipa þar tvo og að þeir yrðu sinn úr hvorum landsfjórðungi og þá væntanlega hvorugur þeirra af því svæði, þar sem Sjómannasamband Íslands starfar, en það er, eins og ég hef áður tekið fram, Faxaflóasvæðið.

Ég vil þá aðeins víkja að því, að það hefur orðið hér nokkurt umræðuefni, að menn líta það nokkuð tortryggnum eða a.m.k. misjöfnum augum, að frv. um verðlagsráð sjávarútvegsins felur það í sér, að til þess getur komið, að felldur verði úrskurður af eins konar gerðardómi. Í því sambandi hefur mjög verið til þess vitnað, að í frv., sem ég hef áður minnzt á, um verðflokkun á nýjum fiski, sem við hv. 4. Þm. Austf. fluttum hér í fyrra, var gert ráð fyrir því, að til þess gæti komið, að slíkur gerðardómur yrði settur á laggirnar og hann yrði látinn fella úrskurð. Ég vil hins vegar taka það alveg sérstaklega fram, að hér er gerólíku saman að jafna. í frv. Því, sem við hv. 4. Þm. Austf. fluttum, var fjallað um verðflokkun á nýjum fiski, en það var einmitt hún, sem þá hafði orðið til þess, að fiskiflotinn í mörgum höfnum landsins stóð aðgerðalaus, og sjómenn vildu ekki samþykkja það, að þeir væru undir þá verðflokkun gefnir, sem í lögunum um ferskfiskeftirlit var gert ráð fyrir að til greina gæti komið og forráðamenn Landssambands íslenzkra útvegsmanna og forráðamenn fiskkaupenda höfðu talað um og gert að sínum till. og reyndar var þar róið út á alla vertíðina í fyrravetur, án þess að útvegsmenn eða sjómenn hefðu í rauninni nokkra samningsaðstöðu.

Í frv. segir, eftir að þar hafði verið lagt til, að sett yrði upp samninganefnd um þessi atriði og að ferskfiskeftirlitinu skyldi vera óheimilt að verðflokka fisk eftir öðrum reglum en þeim þremur, að í fyrsta gæðaflokki skyldi vera óskemmdur fiskur, sem sagt fiskur, sem væri fyrsta flokks vara og hæfur væri sem fyrsta flokks útflutningsvara, í öðrum flokki skyldi vera sá gallaður fiskur, sem væri ekki útflutningshæfur sem fyrsta flokks frosinn fiskur, en samt nægilega góður til þess að vera verkunarhæfur í saltfisk eða í skreiðarverkun, og í þriðja flokki skyldi vera sá fiskur, sem væri óhæfur til verkunar til manneldis, en væri hins vegar unninn í mjöl eða dýrafóður. Þá sagði: „Nú næst ekki samkomulag nefndarmanna um fiskverð, og tekur þá sáttasemjari ríkisins sæti í nefndinni, og fellir hún úrskurð þannig skipuð.“ það er rétt, hér er um að ræða, að í þessu tilviki lögðum við til, að endir yrði bundinn á þá togstreitu, sem hélt flotanum í höfn á hávertíð, með þessum hætti, sem í frv. segir. En við tókum það greinilega fram, að þetta legðum við ekki til sem neina frambúðarskipun. Við lögðum það til í sjálfu frv., að það gilti aðeins til ársloka 196I, en þá tæki að sjálfsögðu við önnur skipan málanna, sem væri ekki gerð undir þeirri knýjandi nauðsyn, sem var, þegar við fluttum frv. Og í grg. frv. sjálfri segir: „Frv. þetta er flutt af því sérstaka tilefni, að skapazt hefur hið alvarlegasta ástand í atvinnulífi þjóðarinnar vegna ágreinings um verðflokkun á nýjum fiski: Við frambúðarskipan málanna tókum við það greinilega fram, að eðlilegt væri, að samið væri um þetta með það löngum fyrirvara, að ekki þyrfti að grípa til neins konar gerðardómsákvæða, og það kom skýrt og greinilega fram við alla meðferð málsins. Hér er því ekki hægt að fá á neinn samjöfnuð, því að það frv., sem hér er fjallað um, er á hinn bóginn til þess ætlað að verða ekki fyrir liðandi stund, heldur í framtíð ákvarðandi um skipan þeirra mála, sem hér um ræðir.

Ég get hins vegar fúslega gengizt inn á, að það sé ekki stór eðlismunur á því, hvort sáttasemjari ríkisins eða maður tilnefndur af hæstarétti fjallar um verðlagsmál í sjávarútvegi. En það var samt ekki að tilefnislausu eða að ástæðulausu, að við gerðum einmitt till. um sáttasemjara ríkisins. Það var með sérstöku tilliti til þess, að þar yrði fenginn maður, sem talizt gæti hlutlaus og þegar væri kominn inn í málin, þekkti til málanna, en það var lagt til, að n., eins og við lögðum til að hún yrði skipuð, starfaði undir handleiðslu sáttasemjara ríkisins, og það hefði þess vegna tekið lengri tíma, ef það hefði átt að fá einhvern málunum ókunnugan til þess að setjast í þau, þegar sú nefnd hefði gefizt upp á að semja um málin, ef til þess hefði komið. Eini hlutlausi aðilinn, sem þá var tiltækur, var sáttasemjari ríkisins sjálfur, og frv. var flutt og til komið af því sérstaka tilefni, eins og í því sjálfu segir, að framleiðslan var stöðvuð, vegna þess að sjómenn og útgerðarmenn áttu um það að velja að sækja sjóinn, afhenda fiskkaupendum fiskinn óumsamið og eiga það svo geymt til vertíðarloka, hvaða verð þeir ættu að fá fyrir hann. Þetta skapaði þjóðinni þegar framleiðslutap, og auðvitað bíður hún þess ekki bætur enn sem komið er, að sá dráttur skyldi hafður á, sem þarna var. Hefði okkar frv. Þá verið samþ., er ég ekki í vafa um, að það hefði orðið til þess, ef það hefði verið gert með álíka miklum hraða og nú er ætlazt til að Alþingi samþykki þetta frv., að bjarga miklum verðmætum á land, sem raun varð á að eftir lágu í hafsins djúpi, þegar veiðitímabili því, sem hér var fjallað um, var lokið.

Það voru sem sagt helztu röksemdir ríkisstj., þrátt fyrir það að mikil áherzla var á það lögð, að þetta mál yrði ekki látið bíða og dankast, eins og gert var, að það væri ekki eðlilegt, að ríkisvaldið blandaði sér í deilur, sem þá stóðu. En nú hefur sem sagt ríkisstj. nokkuð lært, og fagna ég því. Hún á að vísu langt í land með að verða góð ríkisstj. En það væri mikill ávinningur, ef hún reyndi að tileinka sér nokkra lærdóma úr þeim frv., einnig þeim, sem fjalla um önnur efni en fiskverð, sem við í stjórnarandstöðunni höfum hér flutt, því að það má hún vita, að þrátt fyrir allt það ágæti, sem hún kann að telja sér, þá er hún ekki lengra komin á þroskabrautinni en það, að hún getur ýmislegt af stjórnarandstöðunni lært.