11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Hv. forseti. Það voru nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr., síðan ég talaði hér síðast, sem mig langaði til að víkja hér nokkuð að.

Það er þá fyrst ræða hæstv. sjútvmrh. hæstv. ráðherra afsakaði það nokkuð, hvernig haldið hefði verið á þessu máli varðandi vinnuhraða allan, og gerði það aðallega með því, að mikil nauðsyn væri á að afgreiða málið nú fvrir jól. Ég hafði lýst því hér yfir, að ég teldi mjög eðlilegt og sjálfsagt að stuðla að því, að það yrði gert, en ég sé ekki, að það sé nein ástæða til þess að haga afgreiðslu málsins eins og gert hefur verið hér, bæði við 1. og 2. umr. málsins, þó að það sé takmarkið að afgr. málið fyrir jól. Enn þá á Alþingi eftir að sitja að störfum í nokkra daga, svo að það mætti vel takast, þó að reynt yrði meira en gert hefur verið til þess að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins. Þá vil ég einnig benda hæstv. ráðh. á það, að ef nokkur á sök á því, að málið er orðið nokkuð tæpt um afgreiðslu, þá er það einmitt hann sjálfur og hæstv. ríkisstjórn. Það kemur sem sagt í ljós, að það er ekki fyrr en 9. nóv. sem hæstv. sjútvmrh. skipar þá undirbúningsnefnd, sem samið hefur þetta frv. og hann játar hér í þessum umr. að hafi unnið rösklega að málinu og skilað sínum störfum tiltölulega fljótlega. En það er nærri heilt ár síðan við þm. úr stjórnarandstöðunni höfðum bent á það hér á Alþingi, að það væri knýjandi nauðsyn að reyna að finna einhverja lausn á þessum málum, varðandi verðlagningu á nýjum fiski, eins og þessum málum væri nú orðið komið í okkar landi. Og það máttu allir sjá, að bæði á vetrarvertíðinni 1960 og einnig á vetrarvertíðinni 1961 voru þessi mál í mesta ólestri, því að það er vitanlega að vera í mesta ólestri, að sjómenn og útgerðarmenn skuli ekki fá að vita um það, hvaða verð þeir eiga að fá fyrir fiskinn, fyrr en í vertíðarlok, eins og var á vetrarvertíðinni 1960. Það var komið fram um miðjan aprílmánuð eða seinni part aprílmánaðar, þegar tilkynnt var það verð, sem var á fiski á þeirri vertíð. En það var einmitt þá, sem hið nýja fyrirkomulag núv. hæstv. ríkisstjórnar byrjaði í þessum efnum, að það átti að vera frjálsa leiðin, það áttu aðeins að vera beinir samningar á milli sjómanna og útgerðarmanna, á milli fiskseljenda og fiskkaupenda, án allra afskipta ríkisvaldsins. En framkvæmdin tókst bara svona til. Þetta endurtók sig um síðustu áramót og þá með þeim afleiðingum, að framleiðslustöðvanir urðu mjög tilfinnanlegar af þessum ástæðum. En eigi að síður er það ekki fyrr en 9. nóv. nú á þessum vetri, að hæstv. ráðh. skipar undirbúningsnefnd í málinu, og svo skilar þessi undirbúningsnefnd störfum til hæstv. ríkisstj. 30. nóv. Það kemur fram í nál. Því, sem fylgir með frv. 30. nóv. er ríkisstj. skilað till. nefndarinnar, en það er ekki fyrr en seinni hluta dags 8. des., eða 9–10 dögum síðar, sem hæstv. ríkisstj. er búin að athuga málið að sínu leyti og leggur það fyrir Alþingi. Hæstv. ríkisstjórn þurfti 9 daga eða þar um bil til þess að athuga till. nefndarinnar, og verð ég þó að búast við því, að hæstv. sjútvmrh. hafi nokkuð fylgzt með því, hvaða tillögur nefndin var að gera. En málið er tekið þannig fyrir hér á Alþingi til 1. umr., að ég fullyrði, að enginn alþm. hefur getað haft tíma til þess að lesa frv. yfir, frá því að það var lagt fram og þar til það var tekið fyrir. Og það var ekki beinlínis á dagskrá þess fundar, sem auglýstur hafði verið, það var settur sérstakur aukafundur til þess að taka málið þá fyrir. Þetta var vitanlega alveg óvenjulegt, að standa svona að afgreiðslu málsins. En þó að á þetta væri bent, undu menn þó við það í trausti þess, að reynt yrði í nefnd þeirri innan þingsins, sem ætti að fjalla um málið, að ná samkomulagi um þau ágreiningsmál, sem vitað var að voru til staðar. En þá var það, sem enginn tími virtist heldur vera til þess að reyna að ná samkomulagi, og það er kannske það versta í sambandi við afgreiðslu málsins.

Hæstv. sjútvmrh. sagði, að með samþykkt þessa frv. væri verið að auka á réttindi sjómanna stórkostlega frá því, sem áður hefði verið, því að þeir hefðu aldrei verið aðilar að samningum um fiskverð. Þetta er mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh. Málið er hins vegar þannig, að sjómenn höfðu ár eftir ár samið um tiltekið fiskverð, svonefnt skiptaverð, þannig að þeir vissu algerlega fyrir fram um það, hvaða fiskverð átti að leggja til grundvallar við útreikning á þeirra kaupi. Þetta höfðu þeir samið um ár eftir ár, og á meðan uppbótafyrirkomulagið var, þá var samið við fulltrúa sjómanna á hverju ári, og það var ekki aðeins samið við félög háseta, heldur var einnig samið við fulltrúa frá félögum yfirmanna. En það, sem gerðist til breytinga á rétti sjómanna í þessum efnum, var það, að um síðustu áramót gengu sjómenn inn á að falla frá skiptaverðinu, sem kjör þeirra voru miðuð við, og breyta hlutaskiptakjörum sínum, lækka aflahlutinn, sem sjómenn áttu að fá, en í staðinn áttu þeir að fá fullnaðarfiskverð, það sama og útgerðarmenn fengju fyrir sinn fisk á hverjum tíma. Þegar þessi breyting var gerð, var alveg augljóst, að það varð að reyna að koma hér á einhverju skipulagi í stað þess, sem áður var, þannig að sjómenn ættu beina hlutdeild að samningum um fiskverð, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, var vitanlega spor í rétta átt til þess að reyna að koma þessu þannig fyrir. En eins og ég hef bent á í þessum umr., er svo illa á málinu haldið, að hér er að verulegu leyti gengið fram hjá því að gefa réttum aðilum aðstöðu til þess að fá að semja um fiskverðið. Ég hef bent á, að það eru allar líkur til þess, að svo verði á málinu haldið, að t.d. Þeir fjölmörgu sjómenn, sem eru innan Alþýðusambands Íslands, fái ekki við endanlega ákvörðun fiskverðsins að hafa neinn fulltrúa af sinni hálfu. Það eru langmestar líkur til þess, að frá Alþýðusambandinu verði enginn fulltrúi í sjálfri yfirnefndinni, eins og frá málum er gengið í þessu frv., og verði því málið afgr. á þennan hátt, þá er sá vandi ekki leystur, sem átti að leysa, að skapa eðlilegan samningagrundvöll á milli réttra aðila.

Ég tók eftir því, að hæstv. sjútvmrh. sagði, að hann teldi, að í langflestum tilfellum ætti það að verða svo, að samningar um fiskverðið ættu að takast í sjálfu verðlagsráði, í ráðinu, sem á að vera skipað 14 fulltrúum, 7 af hálfu fiskseljenda og 7 af hálfu fiskkaupenda. En jafnhliða því, sem hæstv. ráðh. sagði þetta, að hann teldi, að það væru langmestar líkur til þess, að í þessu ráði yrði samið um verðið, þá sagði hann, að hann teldi, að meiri hluti sjútvn. gerði mjög veigamikla breytingu að einu leyti til, en það væri að tryggja það með nýju orðalagi, að fulltrúarnir frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, eða sá fulltrúi, sem á að vera frá Landssambandi ísl. útvegsmanna í yfirnefndinni, mætti ekki hafa fiskkaupasjónarmið. Hvaða þýðingu hefur það að breyta um stöðu þessa manns í yfirnefndinni, ef menn trúa því í raun og veru, að það eigi alltaf að semja um fiskverðið í verðlagsráðinu sjálfu? Ætli væri þá ekki nær að hafa fyrirkomulagið þannig að ákveða, að þeir fjórir fulltrúar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem eru í sjálfu verðlagsráðinu, sem ráðherra segist trúa á að muni semja yfirleitt oftast nær um fiskverðið, þeir skuli, þessir 4 fulltrúar í sjálfu verðlagsráðinu, ekki hafa sjónarmið eða hagsmuni fiskkaupenda? það hefði verið veigamikið atriði að taka það fram fyrir þann, sem trúði á, að þar yrði samið. En hæstv. ráðh., sem trúir á það, að verðlagsráðið sjálft muni oftast semja, getur vel hugsað sér það, að þar megi áfram vera í hópi fiskseljenda menn, sem hafa meiri hagsmuni sem fiskkaupendur. Kemur ekki hér einmitt að því, sem ég hef bent á áður, að það er greinilegt, að í sambandi við uppbyggingu þessa verðlagsráðs er beinlínis hallað á hlut sjómanna í flestum greinum, en reynt að koma málunum þannig fyrir, að hagur fiskkaupenda sé settur þar fyrir ofan? Nei, hið rétta er, að það eru auðvitað ekki verulega miklar líkur til þess, eins og verðlagsráðið er upp byggt, að þetta 14 manna ráð semji um fiskverðið. Það eru mjög litlar líkur til þess, vil ég segja, að það verði það, sem semur um það. En það hefði eigi að síður allmikið gildi að ákveða, að þeir 4 fulltrúar, sem koma frá hálfu Landssambands ísl. útvegsmanna sem fulltrúar fiskseljenda í verðlagsráðið, séu aðilar, sem hafa ekki sjónarmið fiskkaupenda, vegna þess að þessir aðilar eiga að standa að því að velja menn í undirnefndina, sem á raunverulega að ráða um verðlagningu. Þessir menn fá því allmikið vald, þannig séð.

Nei, þegar þannig er haldið á máli, að það er gert ráð fyrir því, að hver og einn aðili af 14 í verðlagsráði geti vísað málinu til þessarar undirnefndar eða yfirnefndar eða hvað sem hún er kölluð, þá er það nokkurn veginn gefið mál, að málið mun alltaf lenda til þessarar sérstöku fimm manna nefndar. Það þarf ekki nema einn aðila í hópi 7 fiskkaupenda til þess að koma málinu þangað, og það þarf ekki heldur nema einn aðila í hópi 7 fiskseljenda til þess að koma málinu í hendur yfirnefndarinnar. Þetta atriði leiðir vitanlega til þess, að það verður yfirnefndin, sem fjallar um endanlegu ákvörðun fiskverðsins. Af því er það einmitt, að það skiptir öllu máli, eins og ég hef bent hér á áður, að vita um það, hvernig á raunverulega að velja þessa yfirnefnd, hvernig verður hún raunverulega skipuð. Eru einhverjar líkur til þess, að hún verði skipuð þannig, að þeir fulltrúar, sem eiga hér hagsmuna að gæta, vilji fallast á þessa yfirnefnd sem sinn umboðsaðila, og það séu einhverjar líkur til þess, að þeir sætti sig við úrskurð þessarar yfirnefndar? Vegna þess spurði ég um það fyrr í þessum umr., og hv. 2. landsk, þm. (EðS) spurði einnig um það, og ég átti von á því, að hæstv. sjútvmrh. svaraði þeirri spurningu, hvernig bæri að skilja orðalag frv. og till. meiri hl. sjútvmn. um val á mönnum í þessa yfirnefnd. Það stendur þar, að fulltrúar fiskseljenda í verðlagsráði, en það eru 4 menn frá L.Í.Ú. og 3 frá sjómönnum, eigi að tilnefna 2 fulltrúa, annan úr hópi L.Í.Ú., en hinn úr hópi sjómanna. Ef má skilja þetta eins og orðalagið er þarna að fullu og öllu, þá þýðir þetta, að það eru raunverulega 4 fulltrúar L.Í.Ú. sem skipa meiri hluta í hópi fiskseljenda, sem geta ákveðið, hvaða menn fara í yfirnefndina, hvaða fulltrúi á að koma frá sjómönnum og hvaða fulltrúi á að koma frá L.Í.Ú. Ber að skilja þetta svona, eða ber að skilja þetta á hinn veginn, að þessir þrír fulltrúar sjómanna í verðlagsráði eigi út af fyrir sig að velja þann fulltrúa, sem á að koma úr þeirra hópi í yfirnefndina, og að fulltrúar Landssambandsins fjórir eigi út af fyrir sig að velja einn úr sínum hópi sem fulltrúa L.Í.Ú. í yfirnefndina? Um þetta var hæstv. ráðh. spurður, en hann svaraði ekki. Nú vil ég enn einu sinni endurtaka þessa spurningu og vænti þess, að hæstv. ráðh. svari því hér alveg skýrt og greinilega, hvernig ber að skilja þetta að hans dómi. Ber að skilja þetta svona, að fulltrúar fiskseljenda, þessir 7 aðilar í verðlagsráðinu, eigi að velja þessa tvo menn, þannig að meiri hluti í þeirra hópi geti tilnefnt mennina? Ef hitt kynni að vera meiningin, þá tel ég, að það þurfi að breyta orðalaginu, eins og það er í frv. nú. En einmitt vegna þess, hvað yfirnefndin er mikilvæg í þessum efnum, því að það verður hún, sem á að fjalla um verðlagninguna, það er alveg augljóst mál, þá skiptir miklu máli að vita um það, hvernig þessi yfirnefnd verður valin.

Svo er hitt atriðið, að það skiptir vitanlega höfuðmáli fyrir t.d. sjómannasamtökin í landinu almennt séð, að það sé tekið fram alveg skýrt, hvaða fulltrúi eigi að vera í þessari yfirnefnd, sem eigi raunverulega að fjalla um málið af hálfu sjómanna. Það er eðlilegt, að það sé fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, sem spennir yfir allt landið sem samtök, en hitt eru miklu takmarkaðri samtök. Ef svo yrði látið ganga, að fulltrúi t.d. frá Farmannasambandinu eða fulltrúi frá Sjómannasambandinu yrði í yfirnefndinni, þá er enginn vafi á því, að mikill meiri hluti af sjómannafélögunum í landinu, sem hafa verið samningsaðilar fyrir hönd sjómanna fram til þessa, mundi telja, að þau hefðu engan aðila við þetta samningaborð. Það er ekkert annað en að grafa hausinn niður í sandinn að þykjast ekki sjá og skilja, að þetta hlýtur að fara svona. Það þýðir vitanlega ekkert að segja við sjómannafélögin á Austurlandi og Norðurlandi og Vestfjörðum, þó að í þessari yfirnefnd kynni að vera fulltrúi frá Sjómannasambandi Íslands, að þau, félögin þar fyrir austan, norðan og vestan, eigi þar nokkurn fulltrúa af sinni hálfu. Þau eru ekki í Sjómannasambandinu og geta ekki snúið sér til þess sem slíks aðila. Það eru vitanlega engin rök í því hjá hæstv. sjútvmrh. að tala um, að hinir fulltrúar sjómanna, eins og fulltrúi frá Farmannasambandinu eða fulltrúi frá Sjómannasambandinu, eins og þetta séu ekki góðir fulltrúar sjómanna, segir ráðherra. Hvað ætil hæstv. ráðh. hefði sagt við því eða hvað halda menn að sjómenn t.d. almennt hefðu sagt við því, ef almennum hásetafélögum í landinu hefði verið boðið upp á það í samningum hingað til, að einhver fulltrúi frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands ætti að semja fyrir þeirra hönd, hvort heldur er um fiskverð eða annað? Nei, það var ekkert óeðlilegt og vissulega réttlátt, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands ætti einn fulltrúa í sjálfu verðlagsráðinu og að Sjómannasamband Íslands ætti einn fulltrúa í verðlagsráðinu, á móti t.d. tveim fulltrúum frá Alþýðusambandi ef sjálft verðlagsráðið hefði síðan verið byggt þannig upp, að því hefði raunverulega verið ætlað að semja um fiskverðið, en ekki aðeins að tilnefna aðra nefnd til samninganna.

Þá tók ég eftir því, að hæstv. sjútvmrh. hefur bitið sig mjög fast í, að það verði að ganga þannig frá þessum málum, að það sé alveg öruggt, að einhver úrskurðaraðili sé til að lokum, verði ekki samkomulag í verðlagsráðinu eða yfirnefndinni, þá verði til einhver úrskurðaraðili, einhver oddamaður, einhver gerðardómur til þess að leysa málið endanlega. Og honum finnst, að ef tekinn yrði upp sá háttur, sem 2. minni hl. sjútvn. leggur til, að sáttasemjari yrði kvaddur til þess að reyna að koma á samningum á milli aðila og sáttasemjari ríkisins fengi aðstöðu til þess að leggja fram miðlunartillögur, sem aðilar yrðu að greiða atkv. um, þá finnst hæstv. ráðherra, að það sé of mikil hætta á því, að málið leysist ekki og allt lendi út í stöðvun. En grundvöllur þessa máls er sá að reyna að knýja aðila til þess að ná samningum, en ekki að fá einhvern aðila til þess að höggva á einhvern hnút og það kannske á þann hátt, að aðilar láti ekki sansast og grípi þá til annarra ráða.

Ég hef bent á, að það er alveg augljóst, að sjómannasamtökin í landinu eiga þá leið opna og munu nota hana, að sé þeim ákveðið ósanngjarnt fiskverð að þeirra dómi, þá segja þau upp hinum almennu hlutaskiptasamningum, og það verður stöðvun eftir sem áður út af hlutaskiptakjörunum. Úrskurður, sem aðilar geta ekki sætt sig við í þessum efnum, leysir því ekki sjálfan vandann. Samkomulag eitt getur leyst vandann í þessum efnum.

Þá reyndi hæstv. sjútvmrh. að rökstyðja sitt mál með því, að ég ásamt hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) hafi flutt hér um alveg hliðstætt efni frv. áður, þar sem gert hefði verið ráð fyrir gerðardómi. Hv. 6. Þm. Sunnl. hefur þegar bent á það hér í þessum umr., að það frv., sem hér liggur fyrir, og það, sem við fluttum, eru í stórum atriðum ekki sambærileg. Okkar frv. var ekki almennt um verðlagningu á fiski, heldur var það fyrst og fremst um verðflokkun á fiski, hvernig skyldi flokka fiskinn niður í verðflokka, og það var flutt, eins og greinilega stóð í grg. Þess, í tilefni þess, að þá stóðu málin svo illa, að það tókst ekki að koma á kjarasamningum í fjölmörgum verstöðvum, vegna þess að upp voru risnar deilur um það, hvernig ætti að flokka fiskinn í verðflokka. Það voru uppi harðar deilur um það, hvað skyldi kalla 1. flokk og hvað 2. flokk sem gæðaflokk og verðflokk, og það þurfti vitanlega að leysa þessa deilu og bað alveg sérstaklega, eins og þá var komið málum, þar sem komið var fast að vertíð. Við bentum á það, að okkar frv. væri eingöngu bráðabirgðalausn á vandamáli, sem þá lá fyrir, og meginefni frv. var um það, hvernig skyldi flokka fiskinn í verðflokka, og sá úrskurður, sem þar átti að kveðast upp, var fyrst og fremst um, hvernig verðlagið skyldi verða út af fyrir sig á hverjum verðflokki. En hér er um allt annað atriði að ræða. Hér er um það að ræða að setja upp stofnun, sem á að vera til frambúðar og á að ákveða endanlegt fiskverð, sem hlutaskiptakjör verða byggð á og launakjör sjómanna byggjast því að mjög miklu leyti á. Það er því alveg gefið mál, að verði þannig gengið frá þessum málum, að sjómenn geti ekki sætt sig við þann grundvöll, sem hér er lagður, þá hlýtur það að leiða til þess, að þeir heyja deilur sínar um kjör sín, eins og ég hef sagt, um kjarasamningana sjálfa, um hlutaskiptakjörin, í stað þess að deila um sjálft fiskverðið.

Hæstv. sjútvmrh. sagði, að ætlunin væri með þessu frv. einmitt að koma í veg fyrir vinnustöðvanir. En hann hefur í þessum umr. gersamlega forðazt að ræða um þá hættu, sem á því er einmitt, að það fyrirkomulag, sem hann leggur til í þessu frv. á verðlagningu á fiski, kunni einmitt að leiða til vinnustöðvana. Einn aðilinn í undirbúningsnefndinni, sem vann að undirbúningi frv., fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, bendir beinlínis á það í sinni grg., að verði þessi skipan höfð á málinu, sem lagt er til í þessu frv., þá sé veruleg hætta á því, að þá rísi upp deilur um hlutaskiptakjörin.

Ég vildi sérstaklega óska eftir því, að hæstv. sjútvmrh. upplýsti það, sem ég hef spurt hér um varðandi skipun undirnefndarinnar, áður en atkvgr. fer fram um málið. Ástæðan til þess, að ég spyr sérstaklega um þetta atriði, er sú, að ég hef haft nokkra von um, að það kynni að hafa verið meiningin, að yfirnefndin ætti að veljast þannig, að fulltrúi sjómanna í yfirnefndinni yrði valinn af þeim einum í verðlagsráðinu sjálfu og að fulltrúi Landssambandsins í yfirnefndinni ætti að veljast eingöngu af fulltrúum Landssambandsins í verðlagsráðinu. Ég hef haft allverulega von um, að þetta kynni að vera meiningin, þó að orðalagið sé svona, og af því inni ég enn fastar eftir því, að hæstv. ráðh. svari þessari fsp., sem hér hefur komið fram bæði frá mér og öðrum, því að sé ætlunin sú að halda sér við það orðalag, sem segir í frv. í þessum efnum, og þá túlkun, sem er í beinu framhaldi af því orðalagi, þá tel ég, að nokkurn veginn hafi verið þrædd versta leiðin í öllum þeim atriðum, sem ágreiningurinn er sérstaklega um, þá hafi þetta verið gert nokkurn veginn eins bölvað og hægt var að hugsa sér það. Ég teldi allmikinn mun á, ef þetta væri á hinn veginn, þó að ég telji það vera fjarri því, að það leysi hér allan vanda. Það þarf að gera hér miklu meiri breytingar á. Að lokum vænti ég þess, að hæstv. ráðh. svari þessari fyrirspurn.