27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2976)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Með því að felldar hafa verið þær brtt., sem af Alþýðubandalagsins hálfu hafa verið lagðar fram og fara í þá átt að fordæma allar kjarnorkusprengingar án tillits til þess, hver framkvæmir þær, og einnig hefur verið hafnað, að Alþingi lýsi yfir, að Ísland verði ekki notað sem bækistöð kjarnorkuvopna, hafa þeir, sem að þál. þessari standa, fullkomlega leitt í ljós, að með flutningi hennar vakir aðeins fyrir þeim áróður, en ekki barátta gegn kjarnorkusprengingum eða kjarnorkuvopnum. Því sé ég ekki ástæðu til að taka frekari þátt í afgreiðslu málsins hér á þingi og greiði því ekki atkvæði.