22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3052)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir og heitir till. til þál. um staðfestingu á samkomulagi um viðurkenningu Sambandslýðveldisins Þýzkalands á 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland, er að sjálfsögðu beint framhald af því, sem hér gerðist á þingi í fyrravetur, þegar landhelgi okkar var með samningi við Breta og síðar með samþykkt Alþingis opnuð að nokkru fyrir brezkum togurum. Efnislega höfum við Alþýðubandalagsmenn þegar lýst yfir, að við værum andvígir allri skerðingu á íslenzku landhelginni, og mótmælt því, að útlendingum væru þar leyfðar veiðar. Þessi mótmæli leyfi ég mér hér með að endurtaka, allt eins hvort í hlut eiga þýzk veiðiskip, eins og fjallað er um í þessari till., eða brezk veiðiskip, eins og fjallað var um hér á Alþingi í fyrravetur. Um þessa till., sem heitir því virðulega nafni, að hún sé um staðfestingu á samkomulagi um viðurkenningu Sambandslýðveldisins Þýzkalands á 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland, má geta þess, að hér er um algert yfirskin að ræða. Efnislega er till. að sjálfsögðu um hitt, að þýzkum veiðiskipum sé gefinn réttar til að veiða eftir ákveðnum reglum í íslenzkri landhelgi. Sambandslýðveldið Þýzkaland viðurkennir ekki samkvæmt þessu samkomulagi fremur en Bretar íslenzku 12 mílna landhelgina, heldur segir í þessum samningi, alveg eins og í samningnum við Breta, sem gerður var í fyrra, að Sambandslýðveldið Þýzkaland falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. Sambandslýðveldið Þýzkaland hafði í rauninni ekki mótmælt íslensku 12 mílna landhelginni nema að forminu einu. Það land hafði ekki stundað veiðar í þessari landhelgi, og þar með höfðu þeir í raun fallið frá því að gera mótmæli sín virk á nokkurn hátt. Það, sem Íslendingar hljóta því með þessari samningsgerð, er að sjálfsögðu ekki neitt, en hitt, sem Þjóðverjar hljóta, er hreint ekki svo lítið.

Svo ýtarlega sem þessi mál voru rædd hér á Alþingi í fyrravetur, er máske ekki ástæða til þess að fara efnislega í það af mikilli nákvæmni, hvað hér er um að ræða, en í stærstum dráttum er það þó það, að Bretar fengu í fyrra leyfi til fiskveiða innan íslenzku landhelginnar á milli 12 og 6 mílna markanna á þeim stöðum og á þeim tímum, sem Bretar höfðu sjálfir kosið, Samningurinn jafngilti því að færa okkar 12 mílna landhelgi í það að vera 6 mílna landhelgi. Þetta er hér enn gert og nú gagnvart Þjóðverjum.

Við samningsgerðina við Breta, var það ákveðið sagt af hálfu okkar Alþýðubandalagsmanna og raunar fleiri aðila hér á þingi, að hér hlyti að verða dreginn dilkur á eftir, það væri næstum óhugsandi, að hér mundu ekki aðrar þjóðir sigla í kjölfar Breta, og er það nú á daginn komið.

Í ræðum og ritum ýmissa ríkisstjórnarmanna á Íslandi nú, einkanlega ráðherra, má stundum sjá það, að með samningnum við Breta hafi ekki verið gert neitt það, sem skerði íslenzka hagsmuni í einu eða neinu. Aflasæld er jafnvel af slíkum aðilum stundum talin vera hér öllu betri eftir þessa samningsgerð en hún var áður og aðstaða Íslendinga sé öll hin bezta eftir samningsgerðina. En þó kemur stundum fyrir, og það veit ég að þeir hv. alþm. kannast við, sem lesa dagblöð þjóðarinnar að staðaldri eða hlýða á fréttir útvarpsins, að alltaf öðru hverju er þess þó getið í fréttum, að íslenzk veiðiskip séu illa komin við veiðar sínar vegna ágangs einmitt þeirrar þjóðar, sem fékk réttindi í íslenzku landhelginni með samningnum, sem gerður var við Breta í fyrravetur. Að vísu skal það játað, að þessar fréttir í blöðum ríkisstj. ern ekki nærri eins áberandi og sumar aðrar fréttir. Það kemur t.d. stundum fyrir, að í því virðulega aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, reynist ekki vera til neitt fyrirsagnarletur, þegar slíkar fréttir koma. Daginn, sem þetta mál var fyrst tekið á dagskrá til umr. í Alþingi, — það var hinn 8. nóv., að því er ég ætla, — þá leit ég t.d. yfir Morgunblaðið og fann þá dálitla frétt þar. Hún var nú ekki mjög stór, ég klippti hana hér út, en hún sést þó með berum augum. Þar segir:

„Norðfirði, 7. nóvember.

Í fyrrinótt urðu línubátar hér fyrir miklu veiðarfæratjóni af völdum erlendra togara, og misstu þrír bátar línu sína.“

Það reyndist ekki vera til neitt fyrirsagnarletur hjá Morgunblaðinu yfir þessa frétt. Það er þess vegna ekki alveg ólíkt komið með ríkisstj. Íslands og karlinum, sem sagði: „Ég heyri það, sem ég vil heyra, en hitt miklu verr.” En þetta er ekkert einstök frétt. Alltaf af og til heyrum við fréttir af því, að einmitt vegna þess samnings, sem gerður var í fyrravetur og heimilaði útlendingum veiðar í íslenzku landhelginni, kemur það á daginn, að íslenzk veiðiskip eru aðkreppt á sínum eðlilegu veiðislóðum, og um þessar mundir nú að haustinu mun það vera hvað mest áberandi úti fyrir Austurlandi. En strax á vordögum í vor var ljóst, að t.d. sunnan við Vestmannaeyjar kreppti mjög að fiskibátaflotanum þar, og er engum blöðum um það að fletta, að sá, sem vill heyra og sjá, hvað er að gerast í kringum hann, fær þess ekki dulizt, að hér hefur verið gengið á rétt þann, sem íslenzkum veiðiskipum hafði skapazt.

Það má segja, að sú till., sem hér er lögð fyrir, sé máske rökrétt afleiðing af því, sem gerðist hér í fyrravetur. Engu að siður leyfi ég mér að undirstrika það, að opnun landhelginnar fyrir útlendingum er mál núv. stjórnarflokka. Alþb. er henni andvígt og einnig opnun landhelginnar fyrir Þjóðverjum. Þetta vildi ég láta koma greinilega fram við þessa umr.

En í framhaldi af þessu þykir mér einnig ástæða til að rifja upp þá staðreynd, að eftir að samningurinn var gerður við Breta á s.1 vetri, kom í ljós, að brezkir togarar höfðu meiri réttindi til veiða á íslenzkum fiskimiðum en togarar íslendinga sjálfra sums staðar. Í framhaldi af því var reglugerðinni um það, hvar íslenzkir togarar mættu veiða, breytt þannig, að þeir fengu réttindi til jafns við Breta. Nú hefur það flogið fyrir, að íslenzk stjórnarvöld hafi í athugun að breyta enn reglunum um réttindi íslenzkra togara til veiða. Í því tilefni vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. sérstaklega: Eru væntanlegar á næstunni breytingar á reglunum um veiðirétt íslenzkra togara, og ef svo er, hvaða tryggingar eru þá fyrir því settar, að sá réttur verði ekki einnig yfirfærður til erlendra togara? Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að svara þessum spurningum mínum: annars vegar um það, hvort í ráði séu breytingar á reglunum um rétt íslenzku togaranna til veiða í landhelginni, og ef svo er, hverjar tryggingar séu þá fyrir því, að sá réttur verði réttur Íslendinga einna og ekki annarra.