14.12.1961
Neðri deild: 36. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Ég er ekki að deila við hv. 12. þm. Reykv. um Sjómannasamband Íslands og svo aftur Alþýðusambandið. Það skiptir hér engu máli, hvort Sjómannasambandið er landssamtök, sem gefa öllum sjómannafélögum í landinu kost á að vera innan samtakanna eða ekki. Það, sem skiptir máli, er það, hvort félögin eru þar nú eða hvort þau eru innan annarra samtaka, því að við erum vitanlega að reyna að koma þessum málum þannig fyrir, að þeir, sem hér eiga beint hlut að máli, komi að samningaborðinu í gegnum sín samtök, en ekki í gegnum samtök einhverra allt annarra aðila.

En það er annað atriði, sem ég heyri að er verulega mistúlkað, varðandi meginatriði þessa máls, og það var það, sem ég vildi hér sérstaklega víkja að. En það er þetta, að þegar ég og fleiri gera kröfu um, að þeir fulltrúar, sem fram eiga að koma fyrir hönd fiskseljenda, þeir útgerðarmenn, sem eiga að koma fram fyrir hönd fiskseljenda, eigi ekki að hafa beina hagsmuni sem fiskkaupendur, þá er þessu snúið á þann veg, að það muni vera erfitt að finna menn, sem hafi hreina hagsmuni í þessum efnum, og sagt, að t.d. í Vestmannaeyjum muni þessi mál vera komin þannig, að það sé ekki hægt að fá þar fulltrúa úr hópi útgerðarmanna, sem gætu uppfyllt þær kröfur, sem ég geri eða við, sem höfum staðið að tillögum í þessa átt. Þetta er alger misskilningur. Hér hafa verið fluttar tillögur um það, að þeir aðilar, sem fram kæmu sem fulltrúar fiskseljenda, mættu ekki hafa meiri hagsmuna að gæta sem fiskkaupendur en fiskseljendur. Þeir aðilar í Vestmannaeyjum, sem hér er verið að ræða um, eru þeir, sem eru aðilar m.a. að Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Þar er um stórt fyrirtæki að ræða, sem kaupir fiskinn á fastákveðnu verði af bátunum, og eigendur bátanna, þó að þeir séu aðilar að þessum samtökum, koma algerlega fram sem hreinir fiskseljendur, þó að þeir séu að nafninu til eigendur þessa fyrirtækis, sem kaupir á föstu verði fiskinn af þeim. Það er því alger útúrsnúningur að reyna að halda því fram, að þessir aðilar séu ekki fullfærir um það að mæta við samningaborðið sem fulltrúar fiskseljenda. Einnig er það, að í þeirri tillögu, sem meiri hl. sjútvn. hefur þó fallizt á að samþykkja um þetta efni, varðandi fulltrúana í yfirnefnd, þar er orðalagið þannig, að það er aðeins bundið við það, að þessir aðilar mega ekki vera beinir félagsmenn í þeim samtökum fiskkaupenda, sem eiga að tilnefna samkv. Þessu frv. fulltrúana fyrir hönd fiskkaupenda. M.ö.o.: útgerðarmenn þeir, sem eru nú í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, mega ekki koma fram sem fulltrúar fiskseljenda. En bátaútvegsmennirnir í Vestmannaeyjum eru ekki í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna að þessu leyti, það eru allt aðrir aðilar. Og sama er að segja á öðrum stöðum, þar sem eru samvinnufélög útgerðarmanna, að þar eru einstakir útgerðarmenn ekki í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Ef þeir mættu núna á fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, yrði þeim strax vísað á dyr sem ekki meðlimum þar. Nei, hér hefur verið gerð tilraun til þess að reyna að tryggja það, að þeir aðilar, sem geta komið fram beinlínis fyrir hönd fiskkaupenda og eru í landssamtökum fiskkaupenda, skuli ekki líka geta tilnefnt þá menn, sem eiga að vera hinum megin við samningaborðið, á móti þeim, sem fulltrúar fiskseljenda. En um það hefur ekki fengizt samkomulag hér að ganga frá þessu svona, eins og ég hef lýst. Hitt er sem sagt aðeins rangfærsla, að það sé meiningin að elta þetta ákvæði út í slíka útúrkróka eða afkima, að það yrði svo að segja ómögulegt fyrir alla útgerðarmenn að koma þarna fram sem algerlega hreinir fiskseljendur.

Ég vil líka taka undir það með hv. 5. þm. Vestf., sem hér talaði næstur á undan mér, að ekki er ég á móti þeirri þróun út af fyrir sig, að frystihúsin í landinu eigi báta og geri þá út eða að fiskverkararnir í landinu geri út báta. Ekki hef ég fyrir mitt leyti á móti því. En ég segi: það er algerlega rangt, að þeir aðilar, sem eiga frystihús eða kaupa fisk í stórum stíl, geti komið fram sem fulltrúar fiskseljenda og ráðið þannig úrslitum um það, hvaða verð er skráð á fiski, og vænt þess, að sjómannasamtökin í landinu gangi á eftir inn á það að miða kaupgjald sitt við fiskverð, sem þannig er fundið. Það er líka auðvitað misskilningur hjá hv. 5. Þm. Vestf., og ég trúi því varla, að hann haldi því fram, þegar hann gætir þar betur að, að það er auðvitað ekkert áhugamál fyrir frystihúsaeigendur í landinu eða hina raunverulegu fiskkaupendur að hafa fiskverð sem hæst. Annað hefur komið fram á undanförnum árum, þegar róðrabann hefur staðið mánuðum saman eða háværar deilur hafa verið, sem menn eru nú að tala um að þurfi að setja niður á milli þessara aðila, vegna þess einmitt, að af skiljanlegum ástæðum vilja hreinir fiskkaupendur eða þeir, sem hafa meiri hagsmuni sem fiskkaupendur, hafa fiskverðið lágt. Þeirra hagur liggur í því. Alveg eins er það gefið mál, að hinir raunverulegu fiskseljendur, sjómennirnir í landinu og þeir útgerðarmenn, sem fyrst og fremst selja fisk, hafa allan hag af því að hafa fiskverðið skráð sem hæst og keppast við að koma því þannig fyrir. Þessir aðilar verða að semja sín á milli. En þeir samningar blessast ekki, ef fiskkaupendurnir velja mennina beggja vegna við samningaborðið. Þá heppnast það ekki, þá verður sú samningagerð til einskis. (Fundarhlé.]