21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar till. um samninginn við Breta til lausnar á landhelgisdeilunni var til umr. á seinasta Alþingi, þá hygg ég, að nær allir stjórnarandstæðingar hafi tekið til máls og flutt langar og ýtarlegar ræður, sumir þeirra töluðu oftar en einu sinni. Á þeirri ræðu, sem hv. frsm. minni hl. flutti hér áðan, mátti glöggt heyra, að nú er vindurinn úr þeirri andstöðu, sem var við lausn málsins í upphafi. Hv. þm. minntist aðeins á tvö atriði, sem eftir standa, að því er varðar samkomulagsúrlausn á landhelgismálinu. Hann hélt því fram, þessi hv. þm., í fyrsta lagi, að það hefði verið með öllu ástæðulaust og óþarfi að semja við Breta, vegna þess að fullur sigur hafi verið unninn í deilunni og Bretar hafi verið búnir að gefast upp. Hann hélt því að öðru leyti fram, að illa hefði verið samið og að við hefðum samið af okkur. Þetta eru þau tvö atriði, sem þeir, sem enn andmæla samningunum, byggja andmæli sín á. En það þarf ekki nema rifja upp með fáum orðum það, sem áður hafði gerzt í þessu máli, til að sýna, að ummæli sem þessi eru algerlega í mótsögn við allt það sem Framsfl. hefur áður sagt um málið, og allt, sem hann hefur áður í því gert. Þessi skoðun og þessi afstaða er til orðin, eftir að málið leystist, en þeir voru á gagnstæðri skoðun, áður en málið var leyst. Mér þykir rétt, til yfirlits, nú þegar umr. um þetta mál er að ljúka, að draga þessar staðreyndir fram aðeins í örfáum orðum.

Ég ætla fyrst að víkja að þeirri fullyrðingu, að við höfum verið búnir að vinna sigur í landhelgisdeilunni 1960, Bretar hafi verið uppgefnir og þess vegna hafi verið óþarfi að leysa málið með samkomulagi. Það var einmitt um sumarið 1960, rétt áður en til viðræðnanna við Breta var gengið, að fulltrúi Framsóknarflokksins sneri sér til ríkisstj. og óskaði eftir sérstökum fundi í utanrmn. til þess að ræða um ástandið í landhelgismálinu. Á þessum fundi lýsti Framsfl. því yfir, að ástandið hefði aldrei verið jafnalvarlegt í málinu og það væri nú og ekki væri sjáanlegt annað en við værum gersamlega að missa málið út úr höndum okkar. Eina leiðin, sem Framsfl. sá til lausnar á þessu, var sú að snúa sér til Bandaríkjanna og biðja þau um að senda sinn flota hingað til þess að vernda okkar landhelgi fyrir Bretum. M.ö.o.: nokkrum dögum áður en gengið er til viðræðna við Breta, lýsir Framsfl. yfir, að ástandið sé alvarlegra og verra en nokkru sinni áður, flokkurinn sjái ekki annað en við séum að tapa málinu, og eina leiðin, sem hann sér okkur til verndar, er sú að biðja eitthvert stærsta herveldi heims um vernd. Svo kemur Framsfl. nú, þegar allt er leyst, og segir: Það var alveg óþarfi að semja, við vorum búnir að leysa málið. — Það væri fróðlegt, ef hv. frsm. minni hl. vildi reyna að samræma þessar tvær afstöður sins eigin flokks.

Því er haldið fram, að illa hafi verið samið, við höfum samið af okkur. Á meðan Framsfl. sat í ríkisstj., frá því að fiskveiðilögsagan var færð út 1. sept. 1958 og þangað til hann hvarf úr ríkisstj. undir árslok 1958, voru með atbeina Framsfl. gerðar ýtarlegar tilraunir til að leysa málið við Breta, og það er rétt að rifja það upp í örfáum orðum, hvernig Framsfl. vildi láta semja til lausnar á málinu og hvernig var samið. Framsfl. stóð að því og hafði reyndar forustuna um það, að Bretum var boðið, að þeir mættu í næstu fimm árin veiða innan 12 mílnanna, ef þeir vildu viðurkenna 12 mílna fiskveiðilögsögu þar frá. Það var samið ekki um fimm ár, heldur um þrjú ár. Framsfl. hafði forustuna í því að bjóða, að Bretar mættu fiska á öllum 6 mílunum kringum allt landið allt árið um kring í þessi fimm ár. Það var samið um, að þeir skyldu fá að veiða á mjög takmörkuðum svæðum á mjög takmörkuðum tíma úr hverju ári af þessum þremur árum. Framsfl. vildi fá nokkrar grunnlínubreytingar. Það var samið um miklu viðtækari grunnlínubreytingar en Framsfl. vildi ganga að, þ. á m. alla þá breytingu, sem varð á Selvogsbanka, og breytinguna, sem varð út af Faxaflóa. Meðan reglurnar um fiskveiðilögsögu og landhelgi voru til umr. á alþjóðaráðstefnunum í Genf 1958 og 1960, stóð Framsfl. að því í bæði skiptin að fylgja tillögum um það, að fiskveiðilögsaga yrði ákveðin 12 mílur og að ekki yrði um útfærslu þar fyrir utan að ræða, án þess að þeir, sem teldu á sig hallað, gætu borið það undir alþjóðadóm. Um það var samið við Breta, að þeir í framtíðinni skyldu ekki beita ofbeldi við Íslendinga, ef þeir flyttu út sína fiskveiðilögsögu, heldur sætta sig við niðurstöður alþjóðadóms. Þannig er samkomulagið, sem gert var við Breta til lausnar fiskveiðideilunni, í hverju einasta atriði miklu hagstæðara fyrir Íslendinga en það, sem Framsfl. átti sjálfur aðild að því að bjóða á sínum tíma.

Þeim tveim atriðum, sem frsm. minni hl. hefur borið hér fram, að óþarfi hafi verið að semja og að illa hafi verið samið, hefur verið svarað af Framsfl. sjálfum, með hans framkomu, með hans tillögum í málinu. Ég verð að segja, að mér hefði fundizt það miklu karlmannlegra hjá Framsfl., þegar hann sá, hvaða lausn var hægt að fá á þessu máli, að fagna henni, eins og flestir Íslendingar vissulega gerðu, í stað þess að taka upp það ráð, eftir að lausnin er fengin, að fordæma allt það, sem hægt er að fá, sem er þó betra en Framsfl, hafði farið fram á, gegn því að láta minna en það, sem Framsfl. hafði boðið.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að lofað hefði verið í kosningunum 1959 af stjórnarflokkunum að hverfa í engu frá 12 mílna fiskveiðilandhelginni og að petta loforð hefði verið svikið. Það er alrangt hjá þessum ræðumanni, að nokkuð af því, sem stjórnarflokkarnir sögðu í kosningunum, hafi verið svíkið. Þvert á móti, það hefur verið staðið við það allt og meira til. Stjórnarflokkarnir lýstu því báðir yfir, að þeir mundu berjast fyrir viðurkenningu 12 mílna fiskveiðilögsögunnar og ekki hverfa frá henni. Hvað hafa þeir gert? Viðurkenningin liggur þegar fyrir, ekki aðeins á 12 mílna fiskveiðilögsögunni, heldur stórkostleg og mjög þýðingarmikil útfærsla frá því, sem var ákveðið 1958. Og Bretar veiða núna á þrengri og færri svæðum og styttri tíma úr ári en þeir gerðu, þegar núv. ríkisstj. var mynduð. Og því til viðbótar kemur, að þegar núv. ríkisstj. var mynduð, var ekki séð fram á, að Bretar mundu víkja um ófyrirsjáanlega framtíð. Nú er tryggt, að þeir víkja eftir tvö ár. Ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa þannig ekki aðeins staðið við það, sem þeir lofuðu í kosningunum 1959, heldur gert miklu meira.