14.12.1961
Neðri deild: 36. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Nú hefur verið útbýtt á fundinum brtt. frá meiri hl. sjútvn. á þskj. 213, sem lýst hefur verið. Að sumu leyti tel ég þær tillögur til bóta, en hefði þó heldur kosið, að það mál, sem þar er verið að reyna að leysa, yrði leyst með því að fjölga fulltrúum í verðlagsráðinu, með því að þá hefði einnig verið hægt að koma við á grundvelli þessarar till. öðrum umbótum á skipun verðlagsráðsins. En ég vil lýsa hér skrifl. brtt., sem ég vil leyfa mér að bera fram við brtt. á þskj. 213. Hún er þess efnis, að einn af fulltrúum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna verði sérstaklega tilnefndur sameiginlega af félögum fiskvinnslustöðva á Norður- og Austurlandi og á Vestfjörðum. Till. er í tveimur liðum. Þetta, sem ég nú hef nefnt, felst í fyrri töluliðnum. Síðari töluliðurinn er afleiðing af hinu, ef samþ. verður. Annars vildi ég aftur beina því til hæstv. forseta, að ég óska mjög eftir því, að hann vildi koma því svo fyrir, að tillögur mínar á þskj. 207 komi til atkv. sem brtt. við frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 206, þannig að greidd verði atkv. m.a. um það, að fulltrúar útvegsmanna, sem eru fjórir, eins og stendur í frv., verði búsettir einn í hverjum landsfjórðungi.

Ég skal ekki hafa mörg orð um það, sem fram hefur komið, síðan ég talaði hér síðast. Ég vil þó segja það, að það er vitanlega misskilningur hjá hv. þ.m., sem að því hafa vikið, að með tillögum mínum sé verið að leysa upp Landssambandið. Ég legg til, að fulltrúar útvegsmanna verði, eins og í frv. er gert ráð fyrir, tilnefndir af Landssambandi ísl. útvegsmanna, þannig að þar er ekki um neina upplausn að ræða, ekkert frekar en það er upplausn að ætla Sjómannasambandi Íslands, sem er í Alþýðusambandinu, meira að segja sjálfu að tilnefna fulltrúa, í stað þess, ef það væri hliðstætt og í minni till., þá ætti Alþýðusambandið að tilnefna fulltrúa úr Sjómannasambandi Íslands. Það er því síður en svo, að tillögur mínar stefni að neinni upplausn landssambanda fram yfir það, sem gert væri þá í frv.

Hv. 5. Þm. Vestf. skaut því inn í sína ræðu í tilefni af því bréfi, sem ég las upp hér í deildinni frá félagi fiskvinnslustöðva á Norður- og Austurlandi, að þetta félag virtist aðallega stofnað til þess að lækka verð á smáfiski. Það held ég sé nú ekki sérstaklega. Það er stofnað til þess að gæta hagsmuna meðlima félagsins í hvívetna. En hitt er víst, að verð á smáfiski hefur verið lækkað, og það eru allt aðrir, sem standa að því. Það er hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar hér á Alþingi, sem standa að þeirri verðlækkun smáfisks, sem orðið hefur á síðustu árum.