04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3169)

113. mál, útflutningur á dilkakjöti

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nú orðið alllangt síðan þetta mál var hér til umræðu síðast, og hafði ég þá kvatt mér hljóðs, vegna þess að það voru nokkur atriði í ræðu hv. 1. þm. Austf., sem ég vildi fara fáeinum orðum um.

Hann mælti með till., en var þó á móti henni. Þetta er fremur óvenjulegt um þennan hv. þm., sem jafnan er óskiptur, þar sem hann tekur afstöðu til mála. Þrisvar sinnum lét hann í ljós ánægju sína yfir því, að hreyft væri við þessu máli, sem hann teldi mikilsvert, og ég gat ekki betur skilið en hann teldi umbóta þörf á meðferð og frágangi dilkakjöts í hendur vandlátra kaupenda frá því, sem verið hefur og nú er. Einnig sagði hann, að orðalag till. og grg. og framsöguræða hv. 3. þm. Austf. væri allt fremur hæversklega fram sett og áreitnislaust, eða þannig skildi ég hans orð, en aftan, framan og allt um kring og inni á milli var hann að tala um ófrægingarherferð á hendur Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem hangi á sömu spýtu og þessi ályktunartill. Ég held, að þetta snjalla líkingamál sé alveg orðrétt eftir honum haft.

Á hinum síðustu og verstu tímum einkennast sum blaðaskrif um of af ímyndun. Þau fjalla um árásir og ofsóknir og höfundar þeirra þykjast sjá flygsur liða um loftin, sem engar eru þó til. Ekki hélt ég, að hv. 1. þm. Austf. væri myrkfælinn á borð við Tímann, sem sífellt er að hafa á þessum ofsóknarótta, og svo þegar það góða blað fer að segja frá þessari ræðu þingmannsins daginn eftir, stendur skrifað mjög myndarlegu letri sem fyrirsögn: Rógurinn um kjötútflutning SÍS. — Af þeirri túlkun, sem fylgdi, hlaut frómur lesandi, t.d. norður í landi eða austur, að álykta sem svo, að flm. þessarar till. væru að hefja ofsóknir á hendur Sambandi ísl. samvinnufélaga.

Það er annars mikill siður hér á Alþ. að hengja tvo hluti á sömu spýtuna, þar sem aðeins einn ætti að hanga, svo að ég viðhafi skáldskaparmál hv. 1. þm. Austf. Hann telur málið sjálft í sjálfu sér nauðsynlegt og stuðnings vert, en tengir við það um leið tilbúinn hlut eða ímyndaðan, svo að hann geti verið á móti því. En svo að ég haldi áfram að tala um útflutning á dilkakjöti og þessa till., hið réttara er, að í henni fyrirfinnst ekki stafkrókur, ekki heldur í grg. og ekki í framsöguræðu, sem bendi á árásir á einn eða nokkurn, að maður ekki tali um ofsóknir.

Hv. þm. hefur það við till. helzt að athuga, að ekki sé rakið nógu ýtarlega, hvað tillögumenn vilja að gert sé, hvaða breytingar eigi að gera á meðferð kjötsins, svo að það hækki í verði á erlendum mörkuðum, hvernig nýjar umbúðir eigi að vera, hvort frysta eigi kjötið eða sjóða niður, reykja það eða hraðfrysta í pökkum, hvar eigi fyrir sér að leita um nýja markaði, hvaða mönnum eigi að fela athugun um nýjar leiðir í þessu efni, félögum eða stofnunum og þar fram eftir götunum. Ef þetta lægi allt ljóst fyrir, þyrfti enga athugun, enga rannsókn á því, sem hér um ræðir, og ég tel það fyrir utan landamerki umræðunnar að bollaleggja um það, hvort ríkisstj. eigi heldur að velja þennan manninn eða hinn til þess að fara með þessi mál, ef till. verður samþ. Þetta allt eru framkvæmdaratriði, en ekki málsatriði, og annaðhvort vill Alþingi, að ríkisstj. skipti sér af þessu máli ellegar hún skipti sér ekki af því. Til hennar einnar getur það snúið sér. Í öðru lagi er eðlilegt, að það hafi afskipti af málinu, vegna þess að ríkissjóður er ábyrgur gagnvart framleiðendum fyrir framleiðslukostnaðarverði fyrir það kjöt, sem er flutt úr landi. Í þriðja lagi er svo það, að ríkisvaldið hefur betri aðstöðu en allir aðrir til áhrifa með sínum afskiptum, beint eða óbeint.

Búnaðarþing sneri sér í fyrra til framleiðsluráðs landbúnaðarins, Sambands ísl. samvinnufélaga og ríkisstj. um það afl til þessara hluta, sem mest verkar, það eru fjárframlög. Þessi till. gengur raunar í mjög svipaða átt og till. sú, sem samþykkt var á búnaðarþingi í fyrra, sem sé að kanna nýjar leiðir í þessu efni, því að bændur sem aðrir finna til þess, að hér hefur orðið of mikil stöðnum á. Gegn þeirri viðbáru, að það eigi að vera vantraust og óvirðing, helzt rógur á SÍS, að Alþ. snúi sér til ríkisstj., en ekki þess, sem hefur haft með allan kjötútflutning að gera, vil ég leggja fram spurningar, sem ættu að vera nægileg svör: Er það óvirðing eða vantraust á útflytjendur sjávarafurða, að áskoranir hafa komið fram á Alþingi, að ríkið hlutaðist til um markaðsleitir fyrir þær hvað eftir annað? Er það óvirðingarmerki við útvegsmenn, að áskoranir hafa verið fluttar og samþykktar, að ríkið láti leita að nýjum fiskimiðum? Er það rógburður við sömu aðila, að margar tillögur hafa komið fram um betri hagnýtingu sjávarafla og í öðru lagi um bætta meðferð á honum? Svona mætti lengi telja hliðstæð dæmi, en þessar tillögur ganga allar út á það sama, að fá auknar tekjur, aukið verð fyrir framleiðsluna með einhverju móti, og það, sem nú gefur auknar líkur fyrir því, að þetta megi lánast að því er íslenzkt dilkakjöt varðar, er það, að lambakjötið hefur fengið það orð á sig mjög víða, að það sé jafnvel bezta lambakjöt, sem á markað kemur. Einnig hitt, að útflutningur okkar er svo lítill, að hann er aðeins dropi í hafi, þegar út fyrir pollinn kemur, og munar því engu um hann á erlendum mörkuðum.

Sem dæmi um breytta verkun má nefna léttreykta kjötið, sem nú hefur allmikið verið umtalað hina síðustu tíma og virðist líklegt til þess að geta unnið markaði. Um leið og þessi vara er að ná vaxandi áliti, dettur manni í hug til samanburðar tímabilið milli 1930 og 1940, þegar blöð og tímarit kölluðu dilkakjöt okkar óæti og hundamat og bændur idjóta, sem þreyttu maraþonhlaup við ær og hrúta um öll foldarból. Kindaull sögðu sömu blöð að væri nothæf aðeins í fótaþurrkur og stéttin, sem að þessu ynni, væri ómagi á þjóðinni. Þá fékk bóndinn 8–14 kr. fyrir dilkinn, enda allir bændur þá að flosna upp, unz Ingólfur Jónsson bjargaði verðlaginu mjög við 1942 eða 1943. Þessa tíð muna bændur enn og vita vel, hvað verðlag á vörum þeirra gildir.

Núverandi útflutningstrygging er ekki ákjósanleg fyrir neinn, þó að hún sé nauðsynleg eins og sakir standa. Að brottfalli útflutningsuppbóta vilja allir stefna, og að því á þessi þáltill. að miða meðal annars. Þær falla niður af sjálfu sér að því er kjötið snertir, ef unnt skyldi reynast að ná kostnaðarverði fyrir það, sem út þarf að flytja, eða jafnvel hærra verði en kostnaðarverði. Eitthvað var hv. 1. þm. Austf. að tala um, að ósatt væri það, að kjötverð til neytenda væri hærra í nágrannalöndunum en hér á Íslandi. Ég hef það beint frá manni, sem ég þekki og hefur keypt kjöt í Svíþjóð, að þar fæst ekkert kjöt í verzlunum fyrir minna en 60 kr. kg og upp í 160 kr., 60 kr. íslenzkar lélegasta kjöt og svo dýrara.

Ég ætla, að þetta sé ekki einstakt með Svíþjóð meðal nágrannalandanna, en ég þori ekki að fullyrða um annað en það, sem ég veit fyrir víst, enda skiptir það ekki út af fyrir sig verulegu máli í þessu sambandi. Aðalatriðið er það, hvort unnt er að gera lambakjöt að verzlunarvöru, sem verði eftirsótt og skili í hendur framleiðenda fullu kostnaðarverði eða meira, því að það ástand, sem er, að flytja út lambakjöt fyrir miklu lægra verð en kostar að framleiða það, er vitanlega ekkert framtíðarfyrirkomulag.

Ég vil svo vænta þess, að hv. 1. þm. Austf. sem aðrir þm. vilji styðja að því, að þessi till. verði samþ. Það getur engan skaðað a.m.k., en það getur vel verið, að eitthvað verulegt vinnist við það. Og það er engin ástæða til að vera að deila, vekja deilur um keisarans skegg í sambandi við þessa till. og útfæra hana almennt yfir í deilur um landsmál og stefnur. Þetta er sérstakt mál, og ég get ekki fundið, að í því felist nein árás á Samband ísl. samvinnufélaga, þó að á það sé bent og leitað sé leiða um það að fá betri útkomu og betri sölu og hærra verð á þessa vöru en enn hefur tekizt. Í grg. okkar tillögumanna er meira að segja að því vikið, að Sambandið hafi eitthvað gert í þá átt að fá betri markaði en enn hefur tekizt, en það hafi ekki enn tekizt. Og þó að leitað sé til ríkisstj. um að stuðla að því, að þessar betri niðurstöður fáist, þá er það algerlega hliðstætt við margs konar aðrar tillögur að því snertir okkar framleiðslu, sem hafa verið fluttar og samþ. hér á Alþingi.