25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3217)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Varla verður hjá því komizt að hugleiða, hvað núverandi ríkisstj. hefur gert á sinu æviskeiði, sem er hálft kjörtímabil, þegar vantrauststill. þessi er til umr. og afgreiðslu, og um leið að spyrja: hvað hefur stjórnarandstaðan lagt til mála og hvers er af henni að vænta, fái hún völd í hendur?

1956 rauf Framsfl. stjórnarsamstarf við Sjálfstfl. og gerði bandalög til vinstri handar. Ég harmaði það þá og harma það enn, þó að ég geti ekki farið út í það mál að þessu sinni. Vinstri stjórnin svokallaða ætlaði að gera mikið. Ekki væni ég hana um viljaleysi í því efni. En eftir tvö ár sprakk hún, kom sér ekki saman í vandamálum, réð ekki við þau, sá var hennar máttur. Næst kom minnihlutastjórn Emils Jónssonar með óbeinum stuðningi Sjálfstfl. til bráðabirgða. Þegar kjördæmamálið var til afgreiðslu 1959, hafði Framsfl. því skákað sjálfum sér til hliðar frá öllum áhrifum í því máli og öðrum, fyrst 1956 með samstarfsslitum við Sjálfstfl. og aftur 1958 með uppgjöf Hermanns Jónassonar, þáv. hæstv. forsrh. Þetta varð honum mjög erfið raun og orsakaði ákaflega miklar öfgar í málflutningi í sambandi við kjördæmamálið, sem honum hefur ekki enn tekizt að losa sig við og náði hámarki í slagorðinu: „Kjördæmabreytingarmenn ætla að leggja allt Ísland í eyði, nema Reykjavík og Suðurnes:

Haustið 1959 varð verðlagsnefnd landbúnaðarafurða óstarfhæf vegna ágreinings. Við upplausn lá og stórvandræðum. Friðjón Skarphéðinsson, þáv. hæstv. landbrh., bjargaði málinu við í bili með brbl. Sjálfstfl. lofaði að leysa málið á viðunandi hátt fyrir bændur þá um haustið fyrir kosningar, eftir því sem hans vald næði til að kosningum afloknum. Málflutningur framsóknarmanna í sambandi við afurðaverð haustið 1959 var með þeim hætti, að orðbragðið er ekki eftir hafandi. Svo var vanstillingin mikil og getsakirnar. Ríkisstj. og framleiðsluráð landbúnaðarins leystu málið betur en lofað var. Bændur þögnuðu, Tímann setti hljóðan og gat ekkert sagt annað en þetta: „Þessu komum við til leiðar með því að hræða íhaldið og kratana.“

Þriðja stórmálið, sem stjórnarandstaðan, og á ég þá einkum við Framsfl., því að til hans tala ég hér, vegna þess að hann ber fram vantraustið, — smækkaði sig mjög á með hóflausum æsingum, er landhelgismálið. Stóryrði og ljótyrði um það viðkvæma mál eru bezt geymd undir grænni torfu.

Alþjóð fagnaði lausn kjördæmamálsins, sem var hagfelldari Íslandi en bjartsýnustu menn höfðu látið sig dreyma um.

Um viðbrögð stjórnarandstæðinga gagnvart efnahagslögunum 1959 og 1960 er sömu sögu að segja. Eðlilegt var og er, að sú löggjöf sé gagnrýnd. En gagnrýni verður að vera við hóf og ekki svo neikvæð, að hún brjóti allan odd af sjálfri sér.

Þegar horft er til baka á hina sögufrægu yfirlýsingu forsrh. í desember 1958 um, að algert hrun í fjármálum væri fram undan, nema róttækar aðgerðir komi til þá þegar, er furðulegt að horfa á og hlusta, þegar skoðanabræður hans berja höfðum við steina staðreyndanna og segja, að engra aðgerða hafi verið þörf 1959 og 1960. Þannig málafylgja er ekki sannfærandi.

Enn er ótímabært að dæma árangur og afleiðingar efnahagslaganna. Ég bendi þó á fjórar staðreyndir, sem segja talsvert út af fyrir sig um það, sem á hefur unnizt. Þótt margt sé þar óljóst enn, hvernig ræðst, mun mest vera undir því komið, hvort þjóðin vill sjálf leiða yfir sig velmegun eða óvelmegun, sóma út á við eða varanlegan ósóma, kann að stilla kröfum í hóf eða beina þeim út í hófleysu. En staðreyndirnar eru þessar:

1) Uppbótakerfið á útfluttar sjávarafurðir er úr sögunni, sem æxlaðist stig af stigi um mörg ár sem bráðabirgðaúrræði til að halda útgerð landsmanna gangandi. Allir fagna því.

2) Vísitöluskrúfan á kaupgjaldi og verðlagi er einnig úr sögunni, en hún verkaði sem svikamylla til víxlhækkana á kaupgjald ag vöruverð um langan tíma.

3) Gjaldeyrisaðstaða gagnvart útlöndum hefur batnað svo, að segja má, að þar rofi fyrir nýjum degi og traust þjóðarinnar út á við sé að endurvinnast.

4) Sparifé fer vaxandi.

Þrátt fyrir þetta er þó enn við erfiðleika að etja, en þeir eru yfirstíganlegir.

Hvað svo um hinar ógurlegu afleiðingar efnahagsráðstafana fyrir landsins börn, sem stjórnarandstaðan hefur líkt við sjálf móðuharðindin 1783–1784? Atvinna hefur verið næg um allt land, nema þá tíma, sem andstaðan hefur fengið fólkið til að sitja auðum höndum vegna verkfalla. Eftirvinna, næturvinna, tekjur hærri en áður í krónutölu, en dýrtíð að vísu meiri. Spáð var og fullyrt, að allar framkvæmdir hlytu að stöðvast strax á árinu 1960, a.m.k. í sveitum. Ógerlegt væri að stofna nýbýli og ungu fólki væri fyrirmunað að koma sér upp heimilum. Búnaðarbankinn lánaði til bygginga og jarðræktar í sveitum 67 millj. á árinu 1960, hærri upphæð en nokkurn tíma áður. Ekki sannar það kenninguna um algera stöðvun. Nýbýli voru stofnuð litið eitt færri en 1959 og 1958, og enginn hefur orðið annars var en ungt fólk dragi sig saman og stofni heimili, rétt eins og ekkert hefði í skorizt. í Reykjavík hækkuðu nettótekjur um 20% á árinu 1960. Í sjávarþorpum og kaupstöðum Norðanlands og vestan var afkoma manna mjög góð. Í sveitahreppum, þar sem ég þekki til, hækkuðu nettótekjur um 20–25%, aðallega vegna hækkunar á almannartryggingum og betra verðs fyrir mjólk vegna breytingar á framleiðsluráðslögunum í byrjun ársins. Síðastliðið vor gekk bændum heldur betur að leysa út áburð á tún sín en vorið 1959. Á móti þessu kom svo auðvitað hækkun á nauðsynjum.

Í heildinni er efnahagur almennings, eftir þessu að dæma, ekki líkt því eins afleitur og spámenn Framsfl. hafa staðhæft, miðað við daglega framfærslu. Hitt er svo annað mál, að þyngzt hefur fyrir fæti bóndans sem annarra þjóðfélagsþegna um að ráðast í framkvæmdir og kaup á dýrum verkfærum og vélum. En það er ekkert annað en það, sem allir vissu að koma hlaut og allir höfðu um langan tíma verið að reyna að undirbúa sig að mæta.

Ég fer ekki hér út í lánamál landbúnaðarins, sem eru aðkallandi mál að leysa og eru í athugun, því að ég hef ekki tíma til þess.

Í örstuttu ágripi hef ég rakið fáeina þætti þjóðmálanna um hálft kjörtímabil. Þar hafa óvenjulega stór og afdrifarík mál komið við sögu og sum a.m.k. fengið lokaafgreiðslu á mjög æskilegan hátt. Til samanburðar vil ég spyrja: Eru afrek vinstri stjórnarinnar sálugu þau, að fýsilegt sé að afhenda slíkri stjórnartauma að nýju? Hafa viðbrögð andstöðunnar verið svo jákvæð og traustvekjandi um næstliðin tvö ár gagnvart vandasömum stórmálum, að nokkur maður treysti, að þar sé úrræði að finna? Ég held varla. Vinstri stjórnin flúði frá óleysanlegum vanda að eigin dómi 1958. Ríkisstj. sú, er nú situr, hefur frá engum vanda flúið. Hún hefur tekizt á við hvern vanda, sem að höndum hefur borið, og mun halda þeim upptekna hætti út kjörtímabilið, standa eða falla með sínum verkum. Ég fullyrði ekki, að allir hlutir hafi vel tekizt, en margir hlutir ágætavel.

Sá, sem flýr undan vanda, fær ævinlega vantraust áhorfandans. Sá, sem tekst á við erfiðleikana, vinnur sér traust. Framsfl. hefur sjálfur kallað yfir sig mikið vantraust með því að flýja frá erfiðu verkefni 1958, en þó meira tiltrúarleysi með mjög furðulegri afstöðu til nær allra stórmála, sem varð að leysa nú hin síðustu ár, og málflutningi, sem er honum ósamboðinn. Hann þarf að bæta ráð sitt verulega að þessu leyti, ef tiltök eiga að vera að afhenda honum stjórnartauma að nýju, gerast jákvæður í tillögum og viðhafa virðulegri vinnubrögð en s.l. 2 ár. Ég ætla, að honum veiti tæpast af árinu í ár til þeirra hluta, næsta ári og hálfu árinu 1963.