29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

51. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er rétt bjá hv. tillögumanni, sem var nú að ljúka máli sínu, að hér er um mikið vandamál að ræða. Hitt er ég honum ekki sammála um, að málið sé eins auðvelt úrlausnar og hann virðist ætla. Og vitna ég strax til þess, sem hann sagði hér eða ekki varð annað skilið af orðum hans, að hann talaði um það sem sama vandamálið, að einhver maður væri drukkinn og að hann væri drykkjusjúklingur. Ég skal ekki segja, hvort þetta er svo að mati sumra lækna. Hitt hygg ég, að almenningsálit og heilbrigð skynsemi sé þar gersamlega á annarri skoðun. Það er að vísuvandamál, hvernig á að fara með mann, sem er drukkinn eða ofurölvi. En það er allt annað vandamál en hvernig eigi að fara með þann, sem er eiginlegur drykkjusjúklingur, sem almenningur skilur á þann veg, að það sé maður, sem að staðaldri ræður ekki við drykkjuhneigð sína. Hér eru tvö mjög ólík vandamál, sem verður að meta einmitt vegna þess mismunar, sem á þeim er. En þessi fullyrðing hv. þm., sem er læknir, gaf til kynna, að þegar hann gefur svo gersamlega villandi yfirlýsingu á Alþingi í þeim efnum, sem ætla mætti þó að hann hefði þekkingu á, þá sé ekki mikið að marka það, sem hann sagði um önnur atriði málsins, enda kom það á daginn.

Hann fullyrti, að frv. í þessum efnum hefði lagzt til hliðar í heilbrmrn., vegna þess að það hefði engan áhuga á þessum málum, og það væri ekki annar vandinn en að taka frv., sem fyrir liggur, dusta af því rykið og leggja það fram. Ég hygg, að það sé enginn vandi fyrir hv. þm. að fá þetta frv. og leggja það fram á Alþingi. Hann þarf enga milligöngu um þál. til þess að fá það frv., sem legið hefur í dómsmrn. Það er ekkert leyndarmál. Hitt er rétt, að að mínu viti er það frv. ekki viðhlítandi lausn á því vandamáli, sem hér er um að ræða. Og það verður ekki fram hjá því komizt, að það er mjög mikill ágreiningur milli lækna um það, hverjar ráðstafanir eigi að gera í þessum málum, eins og það er mikill ágreiningur milli áhugamanna í málinu, hverja aðferð sé bezt að hafa. Því fer þess vegna fjarri, að það sé til nokkur patentlausn, sem ekki sé annað en hrista rykið af og svo sé allur vandi búinn.

Ég athugaði þetta frv. rækilega á sínum tíma og hef verið í nánu sambandi við þá menn, sem mest hafa starfað og beztum árangri hafa náð í baráttunni við þetta vandamál hér. Ég segi ekki, að ég sé þeim mönnum að öllu leyti sammála, og ég skal ekkert fullyrða hér um afstöðu þeirra til þessa frv. En ég veit svo mikið um þeirra skoðun, að hún fer mjög í bága við það, sem ýmsir læknar segja um þetta mál, og einmitt þess vegna er viss klofningur í framkvæmdinni, eins og hv. ræðumaður gat um, að aðilunum, sem mestan áhuga hafa á málinu, mesta þekkinguna hafa og mesta reynsluna, kemur alls ekki saman um, hvaða aðferð sé heppilegust. Í þessu liggur vandinn.

Það má segja, að stjórnin hefði átt sjálf að reyna að gera upp sinn hug um þetta mál eða kveðja til þess sérfræðinga. Enda er það svo, að ég hef haft hug á því, að þegar ný skipan kæmist á meðferð geðveikimála hér á landi í sambandi við stofnun prófessorsembættis við Háskóla Íslands og skiptingu starfa á Kleppsspítala til að byrja með og síðar væntanlega tvískiptingu þess spítala, þá væri tímabært að taka allt þetta mái upp. Ég vil geta þess, að einmitt í sumar eða haust átti ég tal við þann nýja mann, sem hefur verið skipaður prófessor við læknadeildina og á að taka við nokkrum hluta læknisstarfsins á Kleppi, um, að hann færi sérstaklega í að kynna sér þessa löggjöf hér, þær brtt., sem fyrir liggja um aðra skipun á þeim málum, og fyrirkomulag annars staðar í ljósi þeirrar beztu þekkingar, sem nú er hægt að fá frá sérfræðingum í öðrum löndum. Mér kemur ekki til hugar, að þessi maður finni, hvorki einn né með öðrum mönnum hér á seinni stigum málsins, neina allsherjarlausn á málinu. En ég hygg, að það sé mjög hollt að fá álitsgerð frá manni, sem hefur jafnrækilega kynnt sér ýmsar hliðar þessa vandamáls og annað í nágrenni við það og á nú að taka að sér kennslu í þeim fræðum, sem mjög snerta þetta mál, við Háskóla Íslands. Ég hef akki trú á því, að hans tillögur — og veit rannar, að hans tillögur verða ekki til svo snemma, að hægt sé að leggja þær fyrir framhald Alþingis nú eftir jólin. En ég hef fulla von um það, að það ætti að vera hægt að leggja fram nýtt frv. um þessi efni fyrir Alþingi, sem kemur saman næsta haust, án þess að ég vilji á þessu stigi gefa bindandi fyrirheit um það: En ég hafði hugsað mér að stefna að því, að svo gæti orðið.

Ef vandinn er ekki annar en sá að leggja frara það frv., sem liggur í heilbrmrn., þá veit ég, að hv. þm. þarf ekki annað en fara til heilbrmrh., og hann getur sjálfsagt útvegað honum það nú með klukkutíma fyrirvara og hann lagt það sjálfur fram hér á morgun, án milligöngu eða atbeina sameinaðs Alþingis.