07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í D-deild Alþingistíðinda. (3402)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Inn í umr. um þetta mál, sem hér er á dagskrá, hefur blandazt allverulega það alvarlega vandamál, hversu komið er fyrir sjóðum landbúnaðarins, ræktunarsjóði og byggingarsjóði, sú staðreynd, hversu gersamlega vanmegna og gjaldþrota þessir sjóðir eru.

Það er vitað, að núv. ríkisstj. hefur gefið um það yfirlýsingar og vinnur að því að koma fjárhag og aðstöðu þessara sjóða á heilbrigðan grundvöll og mun áreiðanlega standa við fyrirheit í því efni, áður en þessu þingi lýkur, og gefst þá að sjálfsögðu meira tóm til umr. um þetta mál. En örfá atriði vil ég gera að umtalsefni í samhandi við það, sem fram hefur komið í umr. þessum nú, og þá fyrst og fremst þá skemmtilegu yfirlýsingu hv. 1. þm. Austf., að nú sé nóg fé í flestum sjóðum — eða alls staðar nóg fé til að bjarga gjaldþrota sjóðum landbúnaðarins frá tíð vinstri stjórnarinnar. Þessa yfirlýsingu má stjórnin þakka fyrir, að formaður þingflokks Framsfl. og hæstv. fyrrv. fjmrh. gefi þá yfirlýsingu, að það sé enginn vandi að leysa þetta mikla vandamál landbúnaðarsjóðanna, því að nú sé ríkisstj. búin að koma málum þannig í sinni stjórnartíð, að það sé hægt að fá nægjanlegt fé svo að segja hvar sem er til þess að rétta þann halta og skakka, sem á var orðinn. Ég segi fyrir mitt leyti, að það er gott að fá slíkar yfirlýsingar frá stjórnarandstöðunni fyrir þá, sem styðja núv. ríkisstj. í viðleitni hennar til þess að rétta við þjóðarbúskapinn og rétta við gjaldþrotasjóði landbúnaðarins frá tíð vinstri stjórnarinnar, og það segi ég vegna þess, að með 55% yfirfærslugjaldinu í tíð vinstri stjórnarinnar, með þeirri geigvænlegu gengisfellingu, sem í því fólst, urðu sjóðir landbúnaðarins fyrir tugmilljóna kr. gengistapi, og þeir voru með þeirri aðgerð svo gersamlega lamaðir, að það mátti telja, að þeir væru þá þegar orðnir aðgerðalausir eða skorti möguleika til aðgerða. Þeir voru ekki megnugir að rísa undir því geigvænlega gengistapi á lánum sínum, sem þeir urðu fyrir vegna 55% yfirfærslugjaldsins í tíð vinstri stjórnarinnar. Samfara því þurfti því að sjálfsögðu að hafa forustu um það af hálfu þessarar stjórnar að gera ráðstafanir til þess — og það þegar og án undandráttar — að bjarga þessum sjóðum. Þetta lét vinstri stjórnin undir höfuð leggjast undir fjármálaforustu hv. 1. þm. Austf.

Ég skal svo víkja örfáum orðum að erlendum lántökum fyrir hönd fjárfestingarsjóða í landinu, bæði landbúnaðarins og annarra. Hv. 1. þm. Austf. gaf sínar skýringar á því, hversu nauðsynlegt hefði verið og óhjákvæmilegt að taka þessi erlendu lán fyrir landbúnaðarsjóðina. Eins og hæstv. landbrh. vék að, kann nokkuð í þessu að vera, en ég skal þó víkja að því nánar síðar. En hitt er alveg augljóst mál, að þeirra, sem báru höfuðábyrgð á þessum sjóðum á þeim tíma, var að sjálfsögðu að gera viðeigandi ráðstafanir af þessum sökum, til þess að sporna við þeirri hættu, sem af gengisfellingunni mundi leiða, eins og hæstv. landbrh. líka réttilega benti á.

Ég vil láta þess getið hér, að þegar fiskveiðasjóði var af hálfu ríkisstj. boðið erlent lán til þess að bæta úr lánsfjárskorti fiskveiðasjóðs til bátaútvegsins, þá var það fyrsta verk sjóðsstjórnarinnar að leita sérfræðilegs álits á því, hvort stjórn þessa sjóðs hefði heimild til þess, eins og lög sjóðsins voru, að lána þessi lán út með gengisáhættu. Og þegar niðurstaða þeirrar sérfræðilegu rannsóknar var sú, að sjóðsstjórnina brysti til þess lagaheimild, þá óskaði hún eftir því við viðkomandi ráðherra, að lögunum yrði breytt þannig, að fiskveiðasjóði væri heimilt að lána með gengisáhættu, ef þörf krefði, og Alþingi samþykkti þessa breytingu. Nú skal ég í þessu sambandi fallast á, að það sé nokkur eðlismunur á lánum úr fiskveiðasjóði og lánum til bænda og að bændastéttin eigi miklu erfiðara um vík að talta á sig lán með gengisáhættu heldur en þeir, sem fá lánin úr fiskveiðasjóði. Hins vegar er að mínum dómi engan veginn loku fyrir það skotið, að bændur hefðu getað tekið á sig einhverja gengisáhættu af sínum lánum. Þessum málum hefur verið hagað þannig með útlán hjá fiskveiðasjóði gagnvart þeim, sem lánin hafa fengið, eftir að hin erlendu lán voru tekin, að þá hefur nokkur hluti lánanna verið með gengisáhættu og annar ekki. Og það var auðvitað ekki nema nokkur hluti af fjármagni landbúnaðarsjóðanna, sem var, sérstaklega í upphafi, þegar þessi erlendu lán voru tekin, með gengisáhættu og ekki tilfinnanleg gengisáhætta, sem þar var um að ræða. Enn fremur er á það að líta, að bændur hafa nokkra hagsmuni, þó að það sé ekkert sambærilegt við útflutningsframleiðsluna við sjávarsíðuna, af útflutningnum, hvernig hann gengur, og hefðu þess vegna með hóflegum hætti getað tekið á sig nokkra gengisáhættu, og ég vil ekki fallast á, að það sé algerlega útilokað, þegar þannig stendur á í þjóðfélaginu, að nokkur gengisáhætta væri þannig í lánum til bænda. En ég viðurkenni mjög mikinn mismun í þessu efni hjá þeim og hinum, sem stunda sjávarútveginn eða bátaútgerðina einkum og sér í lagi. En sumir hafa ekkert verið feimnir við það hér í þessu þjóðfélagi á undanförnum árum að leggja fulla gengisáhættu á lán til íbúðabygginga fólks í landinu, svo sem sum af þeim félögum, sem standa næst Sambandi ísl. samvinnufélaga. En auðvitað er ekkert betra fyrir fólkið í bæjunum að taka íbúðalán eða byggingarlán með gengisáhættu heldur en bændur, sem eru að byggja upp hjá sér, að einhverju leyti. Þar eiga margir um sárt að binda, sem tóku lán frá þessum aðilum, sem ég nefndi, með fullri gengisáhættu til íbúðabygginga, og eru enn ekki búnir að leysa þá erfiðleika, sem af því stöfuðu. En til viðbótar því, að nokkur gengisáhætta hefði ekki verið nein fjarstæða í þessu sambandi, er einnig á það að lita, að hér er um stórkostleg forréttindalán að ræða, lán, sem áður voru með 21/2% vöxtum og síðar með 31/2% vöxtum, og meðan svo var, var auðvitað alls ekki loku fyrir það skotið, að hér gætu bændur eins og aðrir tekið á sig nokkur skakkaföll, ef fjármálakerfi þjóðfélagsins reyndist svo veikt, að breyta þyrfti gengi krónunnar eða gildi krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri hrakaði í verði.

Að sjálfsögðu stafa margir af þeim erfiðleikum, sem við nú eigum við að glíma á þessu sviði semi öðrum, frá því, að okkur skorti eðlilega yfirstjórn peningamálanna í landinu, og felli ég enga sérstaka sök eða einvörðungu á hv. fyrrv. fjmrh., 1. þm. Austf., í því sambandi eða neinn einstakan flokk. Þeir flokkar, sem að stjórnum hafa staðið í landinu á undanförnum árum, eiga þar allir sök. Þeir, sem nú fara með stjórn landsins, hafa áttað sig á þessu, haft kjark til þess að horfa framan í vandræðin, gera fólkinu í landinu grein fyrir því, hvernig komið er, og hjá því yrði ekki komizt að nema þetta kýli burt úr þjóðfélaginu, að vera með svo litla yfirstjórn peningamálanna almennt. Þetta segi ég vegna þess, að hv. 1. þm. Austf. sagði, að það væri búið að lána allt spariféð í aðra hluti, og þess vegna varð að taka erlend lán fyrir bændurna. Með meiri yfirstjórn peningamálanna en við höfðum á þessum tíma mátti að sjálfsögðu hugsa meira til þess, að erlendu lánin gengju fremur til þeirra, sem færari væru að bera gengisáhættu, heldur en til bændanna eða þeirra framkvæmda, sem þeir hafa með höndum. En eins og ég sagði áðan, þá eigum við sjálfsagt allir, sem höfum borið ábyrgð á ríkisstj. á þessum tíma og stjórn peningamála, hér nokkra sök. Það var búið að lána allt spariféð, sagði hv. 1. þm. Austf. En það var miklu meira en það væri búið að lána allt spariféð, heldur voru útlán bankanna á þessum tímum langt fram yfir sparifjáraukninguna í landinu. Þau voru langt fram yfir sparifjáraukninguna. Samt man ég eftir, ekki sízt í kosningahríðinni fyrir kosningarnar 1956, þegar vinstri stjórnin tók við eftir þær kosningar, þeim margföldu ásökunum, sem þeir, sem fóru með stjórn bankanna, urðu þá fyrir vegna þess, að útlán bankanna væru of lítil, en þó var lánað meira en spariféð og langt umfram það. Hv. 1. þm. Austf. sagði, að á þessum tímum og í tíð vinstri stjórnarinnar hefði verið siglt fullum seglum, hver eyrir í landinu hefði verið notaður, allt spariféð lánað út o.s.frv. Jú, það var siglt fullum seglum. Það var siglt fullum seglum í strand, og það þykir ekki lofsverð sigling. Það er miklu betra að rifa seglin, áður en komið er í brimgarðinn. Þetta reyndist ekki fært, og stjórnin fór frá með þeim ummælum hæstv. forsrh. þessarar stjórnar, að það væru engin úrræði til eða engin samstaða innan vinstri stjórnarinnar um nein úrræði, strandið væri komið og geigvænleg verðbólgualda væri skollin yfir þjóðina. Það var á þessum tímamótum, sem núv. stjórnarflokkar tóku við, og gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar var komið þannig á fyrsta ári, eftir að vinstri stjórnin lét af völdum og hafði stýrt okkar þjóðarbúskap, að bankarnir voru að komast í fullkomið greiðsluþrot erlendis, og enginn gjaldeyrir var til, og ég man eftir því, að ég var staddur erlendis annarra erinda þá, þegar ég fékk neyðarskeyti frá mínum banka um að reyna umfram allt að fá eitthvert bráðabirgðalán, þó að ekki væri meira, vegna þess að hvergi væri gjaldeyri að fá, og bæði bankinn og einnig þjóðarbúskapurinn af þessum sökum gæti lent í stórkostlegum skakkaföllum, sem yrði ekki þá bætt úr í bili, ef til vanefnda kæmi.

Þá kem ég að bundna sparifénu, sem nokkuð hefur veríð víkið að. Menn verða að gera sér grein fyrir eðli þess, að Seðlabankinn hefur fyrst og fremst það hlutverk að byggja upp gjaldeyrisvarasjóði, og hann fékk það verkefni, eftir að hann var stofnaður sem sjálfstæð stofnun með nýju lögunum um Seðlabankann, og reyna að byggja upp úr engu og minna heldur en það, því að báðir viðskiptabankarnir voru þá búnir að nota til fulls sinar yfirdráttarheimildir alls staðar, þar sem þeir höfðu möguleika til. Ein ráðstöfunin til að gegna þessu meginhlutverki að rétta við gjaldeyrisstöðu landsmanna er auðvitað að taka úr umferð eitthvað af eigin sparifé til þess að minnka eftirspurnina eftir gjaldeyrinum. Þetta hefur Seðlabankinn gert, og hann hefur gert það með þeim afleiðingum, að við eigum nú á okkar mælikvarða allgilda gjaldeyrisvarasjóði, sem við áttum enga. Hitt hættir mönnum svo við að telja, að hið bundna sparifé í Seðlabankanum, eða það virðist mér oft, þegar ég heyri talað nm það hér í þingsölunum og annars staðar, að þetta sé eins og tapaðir peningar, að þeir séu bókstaflega ekki til lengur. Þetta fé er í fullu gildi, það hefur styrkt aðstöðu þjóðarinnar og byggt upp og verið þáttur í að byggja upp gjaldeyrisaðstöðuna út á við. Um þetta bundna sparifé er svo farið ýmsum orðum af miklum misskilningi, að það sé fryst til þess að draga úr framkvæmdum í landinu. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að á árinu 1960 var ekki meira bundið umfram sparifjárinnstæður í Seðlabankanum heldur en sérstök útlán Seðlabankans voru á sama ári til viðskiptabankanna til þess að koma í veg fyrir, að útflutningsframleiðslan strandaði í landinu. M.ö.o.: þetta bundna sparifé var að fullu nýtt, en undir yfirstjórn Seðlabankans. Að þessu leyti var fé frá einstökum peningastofnunum, sparisjóðum og viðskiptabönkum, bundið, en svo lánað út með sérstökum lánum, sem höfðu ekki áður verið lánuð, til þess að koma í veg fyrir, að útflutningsframleiðslan stöðvaðist.

Mér er ljóst, að þetta er að þessu leyti öðruvísi á árinu 1961, og frá því koma þessar margumtöluðu 300 milljónir hv. 1. þm. Austf., sem nú virðist eiga að nota til að bjarga landbúnaðarsjóðunum og mörgu öðru. Ég vil lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég tel eðlilegt, að viss hluti af sparifjáraukningunni í landinu fari t.d. til byggingarmála, til þess að byggja íbúðarhús yfir þessa þjóð, sem stendur þar illa að vígi, bæði til sjávar og sveita. Til þess að svo megi verða, þarf að gera vissar ráðstafanir. Þær ráðstafanir voru gerðar hér á árunum 1955, þegar lögfest voru lögin um húsnæðismálastofnun ríkisins af ráðuneyti Ólafs Thors, í samvinnu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á þeim tíma. Stjórnin samdi þá við banka, tryggingastofnanir og sparisjóði að kaupa tiltekinn hluta af verðbréfum veðdeildarinnar, sem gengu til íbúðarhúsalána gegnum húsnæðismálastofnunina í landinu. Þetta samkomulag var til tveggja ára, og þetta eru langdrýgstu tekjur, sem fengizt hafa, frá því að húsnæðislöggjöfin var sett og kom til framkvæmda. Eins og hæstv. landbrh. vék að, var því miður ekki hægt að skuldbinda sig til þess að kaupa fyrir sparifé á þeim tímum, sem mjög alvarlega stendur með sparifjáraukningu í landinu, alveg á sama hátt og ég tel eðlilegt, að það sé stefnt að því, að tiltekinn og hæfilegur hluti sparifjáraukningar fari til slíkra hluta, að sinna verkefnum þess frv., sem hér er til umræðu, og til þess að efla eða styrkja aðra byggingarsjóði í landinu. Þá tel ég einnig eðlilegt, þegar jafnvægi hefur skapazt í okkar efnahagsmálum, að haft sé í huga, að nokkur hluti þess bundna sparifjár, sem kann að hafa myndazt, ef þol þjóðarinnar að öðru leyti gjaldeyríslega leyfir það, gangi til slíkra verkefna eins og þeirra að byggja íbúðarhús fyrir fólkið í landinu. Og sennilega er langheilbrigðasti fjárhlutinn, sem á hverjum tíma er varið til íbúðabygginga, sá hluti af eign landsmanna, sem skapast við sparifjáraukningu á hverjum tíma.