21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í D-deild Alþingistíðinda. (3421)

86. mál, landafundir Íslendinga í Vesturheimi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þessi till., sem ég flyt ásamt þremur þm. öðrum, hljóðar á þessa leið: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að leita samvinnu við ríkisstjórnir Kanada og Bandaríkjanna um rannsóknir varðandi landfundi Íslendinga í Vesturheimi á 10. og 11 öld.”

Ég tel mig ekki þurfa að hafa mörg orð til að rekja forsögu eða tilefni þessarar tillögu. Þær heimildir, sem taldar eru merkastar um landfundi Íslendinga í Vesturheimi á öldum fyrr, eru taldar áreiðanlegastar í Grænlendingasögu. Skv. þeim var það íslenzkur maður, Bjarni Herjólfsson, sem fyrstur norrænna manna sá meginland N.- Ameríku, sennilega nokkru fyrir árið 1000. Leifur heppni hafði svo spurnir af þessum landafundi Bjarna, fékk hjá honum upplýsingar og fór í slóð hans, fór nokkru síðar þangað vestur og fann löndin Helluland, Markland og Vinland. Hann sneri svo þaðan aftur eftir nokkra dvöl þar. Þorfinnur karlsefni gerði síðan tilraun til þess að gerast þar landnámsmaður, en varð að hverfa þaðan aftur eftir skamma hríð.

Ég sé ekki ástæðu til að rifja þessa sögu nánar upp, því að hún er tvímælalaust öllum hv. þm. kunn. En á síðari áratugum hafa þessar sagnir rifjazt upp og margt verið um það rætt og ritað, hvaða lönd það voru, sem þeir Bjarni Herjólfsson, Leifur heppni og Þorfinnur karlsefni könnuðu þarna fyrr á öldum. Menn hafa ekki verið á eitt sáttir um, hvaða staðir það hafa verið, sem þeir komu til, eða hvaða lönd það voru, og ýmsar getgátur verið uppi í því sambandi og margt verið um þetta ritað af fræðimönnum í þessum efnum. En flestra dómur er þó sá, að þeir Leifur og Þorfinnur hafi alltaf komizt suður fyrir 50. breiddarbaug og sennilegast dvalizt lengri eða skemmri tíma í einhverjum af austurfylkjum Bandaríkjanna.

Hér er tvímælalaust um mál að ræða, sem Íslendingar eiga að láta sig verulegu skipta og ekki láta útlendinga svo að segja vera eina um, eins og átt hefur sér stað að undanförnu, og reyna að finna þá staði, sem Íslendingar fundu vestra. Aukin ástæða til þess, að Íslendingar gefi þessu nýjan gaum, er ekki sízt sú, að þeir eru nú orðnir siglingaþjóð að nýju og hér er um að ræða einn glæsilegasta þáttinn í íslenzkri siglingasögu.

Ég vil í sambandi við þetta geta þess, að nokkru eftir að ég flutti þessa þáltill., kom til mín nefnd frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, sem hafði verið kjörin á seinasta aðalfundi þess einmitt til að fylgjast með þessum málum og vinna að framgangi þeirra. Í þessari nefnd eiga þeir sæti Sigurður Guðjónsson, sem lengi var skipstjóri á Skallagrími, Henry Hálfdánarson og Hallgrímur Jónsson vélstjóri. Þessir menn eru allir mjög siglingafróðir og hafa kynnt sér þessi mál alveg sérstaklega og hafa því að sjálfsögðu mikinn áhuga á framgangi þess, að Íslendingar láti þessi mál til sín taka. Þeir hafa jafnvei látið sér það til hugar koma, að íslendingar sjálfir mönnuðu skip, sem reyndu að fara í slóð þeirra Bjarna Herjólfssonar og Leifs heppna. Það var jafnvel minnzt á, að það gæti komið til greina að nota Sæbjörgu í því skyni á þeim tíma ársins, sem hún hefur minnst að gera. En þess ber vel að gæta, að hér er ekki eingöngu um mál að ræða, sem snertir fornleifafræðinga eða þeir bera skyn á. Hér er ekki síður um málefni að ræða, sem siglingafróðir menn bera skyn á og eru líklegastir til að benda á, hvaða leiðir það hafa verið, sem þeir fóru Bjarni Herjólfsson, Leifur heppni og Þorfinnur karlsefni, vegna þess að straumar og vindar á þessum slóðum hafa að sjálfsögðu ráðið miklu um það, hvernig leið þeirra hefur legið. Ég álít þess vegna, að í því, sem kann að vera gert af Íslendinga hálfu til rannsókna á þessum málum, eigi að leggja sérstaka áherzlu á að hafa samband og samvinnu við íslenzka siglingafræðinga og menn, sem eru kunnugir þessum slóðum, Grænlandshafi, eins og t.d. Sigurður Guðjónsson, sem lengi var skipstjóri á Skallagrími og stundaði árum saman veiðar á Grænlandsmiðum.

Það hefur svo einnig gerzt, síðan þessi till. var lögð hér fram á hv. Alþingi, að hingað hefur komið norskur maður, Helge Ingstad, sem hefur fengizt við rannsóknir í þessum efnum og hefur, að ég hygg með aðstoð hæstv. menntmrh. tekið upp samvinnu við íslenzka fræðimenn í þessum efnum og mun hafa þá með sér í nýjum leiðangri, sem hann hyggst gera á komandi sumri.

Ég tel það mjög vel til fallið og tel það rétt ráðið af hæstv. ríkisstj. að stuðla að því, að Íslendingar geti tekið þátt í þessari rannsókn. En ég tel það hins vegar ekki nema lítinn hluta af þeim rannsóknum og athugunum, sem gera þarf í þessum efnum. Þær þurfa að verða miklu víðtækari og ná til fleiri staða en beirra, sem Ingstad rannsakar sérstaklega, og ég álít, að það sé heppilegasta leiðin til framkvæmda í þessum efnum, að íslenzka ríkisstj. leiti til tveggja þeirra ríkisstj., sem þetta mái varðar alveg sérstaklega og þau lönd, sem þær ráða yfir, en það eru stjórnir Bandaríkjanna og Kanada. Ég tel alveg víst, að þetta mál mundi fá góðar undirtektir hjá stjórnum hessara landa og að upp úr því ætti að geta tekizt samvinna á milli íslenzku ríkisstj. og þeirra um framkvæmd á þessum rannsóknum. Að sjálfsögðu gæti það komið til mála, að einhverjir menn frá Noregi tækju einnig þátt í slíkum rannsóknum, en hins vegar hygg ég, að málið liggi þannig fyrir, að það varði Íslendinga og Vesturheimsmenn fyrst og fremst.

Ég vænti þess, að þetta mál fái góðar undirtektir hjá hv. Alþingi, og leyfi mér að leggja til, að að umr. hér loknum verði þeim frestað og málið falið hv. allshn. til athugunar.