18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

1. mál, fjárlög 1962

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Við hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) höfum leyft okkur að flytja brtt. við fjárlagafrv., þ.e. við 14. gr., um það, að framlag til tónlistarskólans á Akureyri verði aukið um 40 þús. í frv. er gert ráð fyrir 40 þús. kr. framlagi, eins og verið hefur, en till. okkar er, að framlag þetta verði aukið um helming. Fyrir fjvn. lá í haust erindi frá forráðamönnum þessa skóla, tónlistarskólans á Akureyri, þar sem þeir lýsa erfiðum fjárhag skólans og fara fram á í fyrsta lagi, ef það mætti verða, að skólastjórinn verði tekinn upp á launaskrá sem starfsmaður ríkisins, en sem varatillögu fóru þeir fram á, að framlag ríkisins til skólans yrði aukið allverulega. Við flutningsmenn þessarar brtt. leggjum ekki til að þessu sinni, að farið verði að óskum skólastjórnarinnar um, að skólastjórinn verði tekinn á launaskrá, en óskum hins vegar eftir því, að hv. Alþ. geti fallizt á að hækka framlag til tónlistarskólans á Akureyri sem nemur helmingi. Tónlistarskólinn á Akureyri er hinn stærsti, sem starfar utan Reykjavíkur. Hann hefur starf að óslitið í meir en fimmtán ár og er vaxandi stofnun. Hefur verið reynt að hafa þróun skólans sem jafnasta og samfelldasta, og þ. á m. hefur verið unnið að því að fá góða starfskrafta að skólanum, og ég hygg, án þess að lasta aðra tónlistarskóla utan Reykjavíkur, að tónlistarskólinn á Akureyri sé betur búinn að starfskröftum en aðrir tónlistarskólar. Þar eru nú a.m.k. tveir fastráðnir kennarar, skólastjórinn og annar til, og raunar sá þriðji líka, sem að nokkru leyti er fastráðinn kennari við skólann, og hefur skólastjórnin látið svo um mælt, að hún óttist, að einhverju af þessum starfskröftum verði að fórna, ef ekki er undinn bráður bugur að því að koma fjárhag skólans á traustari grundvöll en nú er.

Tónlistarskólinn á Akureyri fær tekjur sínar úr ýmsum áttum. Í fyrsta lagi frá Akureyrarbæ, 60 þús. kr. Að auki fær hann svo tekjur frá Alþ., sem eru 40 þús. Þannig var þetta á s.l. ári. Og auk þess hefur Menningarsjóður Kaupfélags Eyfirðinga lagt honum til 10 þús. kr. Þetta samanlagt er helmingur af tekjum skólans, því að hinn helmingurinn og þó ríflega það kemur inn í skólagjöldum. Forráðamenn skólans telja það nærfellt ókleift að ætla að hækka skólagjöld, en fara hins vegar fram á, að hið opinbera hlaupi undir bagga og stuðli að áframhaldandi starfsemi skólans, þannig að hann megi halda áfram að starfa, og einkum það, að hann þurfi ekki að draga úr starfsemi sinni.

Til frekari upplýsinga um hag skólans er skylt að geta þess, að hann skuldar nú allmikið. Í fyrsta lagi eru samansafnaðar skuldir vegna rekstrarhalla undanfarandi ára, og auk þess er skuld, sem stafar af kaupum á hljóðfæri, og það er á það bent í erindi skólastjórnarinnar til fjvn., að nauðsyn sé til bæði að greiða rekstrarhallann og þá skuld, sem stafar af hljóðfærakaupunum, og raunar sé einnig brýnt að bæta við hljóðfærum, og einkum og sér í lagi að tryggja það, að skólinn geti notið áfram þeirra starfskrafta, sem hann nú býr við.

Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari tillögu, ekki sízt vegna þess, að hún hefur enn ekki verið prentuð og þess vegna ekki útbýtti þinginu.