21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (3506)

152. mál, útflutningssamtök

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er tekin til umr. og flutt er af 6 þm. Alþfl., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að semja frv. til laga um útflutningssamtök. Nefndin skal hafa samráð við félagssamtök sjómanna og útvegsmanna og starfandi sölustofnanir, en ljúka störfum svo snemma, að frumvarpið verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.”

Undanfarna mánuði hafa verið miklar deilur um ýmis atriði varðandi útflutning og útflutningssamtök hér á landi, og hafa þær deilur bæði verið innan sala Alþingis og utan. Útflutningsmálin skipta Íslendinga meiru en flestar aðrar þjóðir, því að erfitt mun að finna nokkurt ríki, þar sem utanríkisverzlun er eins mikil miðað við íbúafjölda og hér eða hefur eins mikla þýðingu varðandi afkomu borgaranna. Útflutningur fiskafurða hér á landi hefur verið skipulagður eftir margra áratuga reynslu. Fimm stórar stofnanir hafa nú með hendi um 70% af þessum flutningi, en það eru Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga, Samband skreiðarframleiðenda og síldarútvegsnefnd. Aðeins ein af þessum stofnunum, síldarútvegsnefnd, starfar eftir sérstökum lögum. Löggjöf um starfsemi slíkra útflutningssamtaka er ekki til, og hafa margir komið auga á, þegar mikið hefur verið deilt um samtökin og starf þeirra, að slík ástæða væri til þess að setja sérstaka löggjöf, sem yrði eins konar rammi fyrir starfsemi þeirra.

Flm. till. hafa í grg. ekki valið þann kost að benda á röksemdir, sem Íslendingar eða aðilar innanlands hafa flutt með og móti þessari hugmynd, vegna þess að mál þessi eru viðkvæm, og má oft vefengja skoðanir eða tilgang manna. Hins vegar höfum við dregið fram atriði úr skýrslu, sem norski sérfræðingurinn Gerhard Meidell Gerhardsen prófessor fyrir nokkru gerði eftir mjög ýtarlega athugun á sjávarútvegsmálum Íslendinga. Við drögum skoðanir hans fram eingöngu af því, að varla verður um það deilt, að hann sé fullkomlega hlutlaus í þessum málum og hafi þar engra hagsmuna að gæta. Í skýrslu þessa norska prófessors leggur hann einmitt mikla áherzlu á nauðsyn þess, að slik löggjöf um starfsemi útflutningssamtaka verði sett. Hann nefnir margar ástæður fyrir því, að slíkrar löggjafar sé þörf. Fyrst og fremst bendir hann á, að hér á Íslandi sé engin löggjöf til um einokun, Cartel eða antitrust lög eins og þau kallast annars staðar. Nú er efnahagslíf okkar ekki stærra en svo, að tilhneiging til einokunar hlýtur að vera mjög mikil, og mætti því ætla, að við þyrftum að hafa slíka löggjöf. Hinn norski sérfræðingur bendir á, að þar sem slík löggjöf sé hér engin til og ekki líkindi til, að hún verði sett bráðlega, vegna þess að undirbúningur hennar mundi verða mikil vinna, sé enn ríkari ástæða til að setja löggjöf um starfsemi þessara fimm stórfyrirtækja, sem eru meðal hinna stærstu og voldugustu í landinu. Þá bendir hann á með ýmsum dæmum, að þörf sé á því að staðfesta með reglum eða lögum verkaskiptingu, vegna þess að hér sé greinileg tilhneiging til þess, að einstök fyrirtæki breiði sig út í önnur svið. Þannig er útflutningsfyrirtækið, áður en menn vita af, einnig orðið siglingafyrirtæki, tryggingafyrirtæki, verzlunarfyrirtæki o.s.frv., og virðist liggja í augum uppi, að nauðsynlegt sé fyrir okkur að gera okkur grein fyrir, hvað af þessari þróun kynni að byggjast á röksemdum, sem þjóðfélagið verði að taka gildar, en hvað af þessu sé óeðlileg tilhneiging til valds, áhrifa og gróða í þjóðfélaginu.

Augljóst er, hversu lítið þarf til þess, að hagsmunarárekstrar komi til, og ekki víst, að þeir aðilar, sem ríkisvaldið hlýtur að hafa mestan áhuga á, hinir raunverulegu framleiðendur, njóti þar kostanna við bætt skipulag eða kaup nýrra atvinnutækja.

Fleira nefnir Gerhardsen, og skal ég aðeins telja eitt fram, sem virðist, eftir því sem árin liða, skipta meira og meira máll. Það er að skapa þolanlegan frið fyrir þessi samtök til að starfa. Þróun hefur orðið slík hér á Íslandi, að tortryggni um starfsemi þessara samtaka er sívaxandi. Skal ég ekkert segja um ástæðu til þess, að hún virðist oft vera rík, en það mundi vera samtökunum og útflutningsframleiðslu okkar allri í heild mjög til góðs, ef hægt væri að skapa starfsskilyrði og ramma fyrir starfsemina, þannig að tortryggnin minnkaði og deilurnar yrðu minni en verið hafa. Í skýrslu Gerhardsens eru mun nánari tillögur um það, hvað hann telur að eigi að vera í slíkri löggjöf, en ég tel ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir því á þessu stigi. Hér er ekki um að ræða lauslega hugmynd, heldur skilgreinir hann nákvæmlega, hvaða efnisatriði honum virðist að þyrftu að vera í slíkri löggjöf, ef sett yrði.

Herra forseti. Þar sem ákveðnar eru tvær umr. um þessa till., virðist hún eiga að fara til fjvn., og geri ég tillögu um, að henni verði þangað vísað.