21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3508)

152. mál, útflutningssamtök

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Raunverulegt efni þessarar till. er að stiga fyrstu skrefin til þess, að þjóðfélagið fylgist með rekstri stórfyrirtækja og hindri vöxt einokunarhringa og annarra slíkra fyrirbrigða, sem við vitum allir og viðurkennum að tröllríða efnahag ýmissa þjóða í kringum okkur, þó að það hafi því miður verið lítið um þetta talað hér.

Ég get sagt frá því hér, ef það væru tíðindi fyrir einhverja, að í baráttunni gegn þessum hringum og fyrir löggjöf til að takmarka starfsemi þeirra í þágu þjóðfélagsins og borgaranna hefur einn hópur manna skarað fram úr að áhuga, atorku og dugnaði. Þessi hópur er samvinnumenn. Alþjóðasamband samvinnumanna gefur út tvö sérstök tímarit. Annað þeirra heitir Cartel og fjallar eingöngu um þessi mál, af því að viðurkennt er alls staðar, að höfuðandstæðingar samvinnufélaganna á grundvelli frjálsra viðskipta séu einmitt þessar samsteypur fjármagnsins. Tilgangur þeirra er yfirleitt að skapa óeðlilega efnahagsaðstöðu og óeðlilegan gróða, sem þá verður á kostnað smáframleiðenda eða neytenda. Þess vegna verð ég að segja, að það er heldur einkennilegt, að eini maðurinn, sem stendur upp, ekki aðeins til að andmæla, heldur gera góðlátlegt grín að málinu, skuli vera frægur fyrir áratuga starf í samvinnufélögum hér á landi.

Ég var árum saman starfsmaður félaganna og skrifaði öðru hverju um þessi mál í Samvinnuna. Voru aldrei gerðar neinar aths. við það þar.

Þessi hv. þm. segist ekki fella sig við þá hugsun, að ríkið eigi að geta ákveðið, hvort efnahagssamsteypa megi taka upp skiparekstur, taka upp tryggingastarfsemi eða annað slíkt. Þetta þýðir, að hann hrindir frá sér þegar í upphafi kjarnanum og fyrsta atriði þess, að ríkisvaldið hafi vald til að hindra myndun einokunarhringa. Ég gæti nefnt honum mörg dæmi, þar sem slíkt er gert. Það þykir góð latína í baráttu gegn einokunarhringum að taka dæmi um Bandaríkin, sem eru háborg kapítalismans, og ég get bent hv. þm. á, að það eru ekki nema fá ár, síðan ríkisvaldið í Bandaríkjunum sagði við einn hringinn, Du Pont: Þið megið ekki stunda bílaframleiðslu, þið megið ekki eiga meiri hlutann í General Motors-hringnum. Með því að eiga þetta, fáið þið of mikið vald. Þetta var bein fyrirskipun um að selja hlutabréfin í General Motors. Í háborg auðvaldsins er þetta vald viðurkennt, sem hrekkur af hv. 1. þm. Norðurl. eins og vatn af gæs. Ég vona, að hann íhugi þetta betur og hvað á bak við er. Hann mun þá komast að raun um, að það er ekki vitleysa, sem Alþjóðasamband samvinnumanna er að gera, þegar það gefur út sérstakt tímarit helgað þessari baráttu. Það kemur út suður í London, í aðalstöðvum samtakanna, og eru vafalaust til eintök af því í skrifstofum Sambands ísl. samvinnufélaga hér á landi.

Ég vil taka fram, að inn í þessar umr. blandast verulega rekstrarformið. Það, sem gerist við samsteypur, getur haft mismunandi þjóðfélagsleg áhrif eftir því, hvort gert er gegnum opinber fyrirtæki, samvinnufyrirtæki eða einkafyrirtæki. Ég get nefnt mjög nærtækt dæmi. Ég efast til dæmis ekki um, að ef mikill ágóði er af skipadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, rennur sá ágóði annaðhvort til stuðnings öðrum deildum eða sem arður til kaupfélaganna og þaðan til fólksins. En það hefur enginn maður enn þá sannfært mig um, að ef t.d. Jöklar h/f skili stórkostlegum gróða eitt ár, þá sé sjálfgert, að þeim gróða verði dreift til frystihúsanna í landinu. Í þessu felst einn af meginkjörnum málsins og eitt af því, sem athuga þarf, þegar slíkt mál er tekið til athugunar.

Ég fékk skýrslu Gerhardsens hjá viðkomandi ráðuneyti, og ég vona, að nefndin, sem fær málið, geti fengið hana til athugunar og þær nánari upplýsingar, sem þar eru.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á því, að mönnum þætti nóg um þann eld og ófrið, sem er um útflutningssamtök hér á landi, og lá í orðum hans, a.m.k. skildi ég þau þannig, að við Alþýðuflokksmenn værum bókstaflega að ganga gegn sjálfu lýðræðinu með því að láta okkur detta í hug, að það væri hagkvæmt fyrir útflutningsatvinnuvegina að minnka þessar opinberu deilur. Ég minnist þess, að þau mörgu ár, sem ég átti sem starfsmaður sæti á aðalfundum Sambands ísl. samvinnufélaga, voru oft gerðar samþykktir, þar sem fundirnir lýstu hryggð sinni yfir stöðugum árásum, sem gerðar voru á samtökin, og túlkuðu þær alls ekki allar sem eðlilega, lýðræðislega gagnrýni, sem ekki var von, því að þetta voru ekki annað en pólitískar árásir. Ég tel, að það sé engin goðgá gagnvart lýðræðinu, þó að við reyndum að koma málum þannig fyrir, að við deildum um pólitík og annað á viðkomandi vettvangi, en reyndum að skapa þær aðstæður, að við teldum okkur ekki þurfa að draga fyrirtæki, sem eiga að koma fram í öðrum löndum fyrir okkar hönd og selja okkar framleiðslu, stöðugt inn í deilurnar.

Það, sem ég hef sagt eða haft eftir hinum norska sérfræðingi í grg. till., er að minni hyggju nákvæmlega í sama anda og ég lærði á þeim árum, sem ég hafði nánust kynni af samvinnustarfsemi. Ég vil því endurtaka, að ég tel þetta veigamikið mál og ekki sé seinna vænna, að Alþingi Íslendinga fari að íhuga það og athuga, rétt eins og þjóðþing svo til allra siðmenntaðra landa hafa gert.