06.04.1962
Sameinað þing: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í D-deild Alþingistíðinda. (3559)

174. mál, raforkumál

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. raforkumrh. um, að það sé nauðsynlegt að ákveða fjarlægðartakmörk í hinni nýju áætlun, þegar búið er að ljúka þeirri áætlun, sem fyrir liggur, en í henni er gert ráð fyrir, að ekki sé farið verulega út fyrir þau takmörk, sem ákveðin eru þar um í km vegalengd á milli bæja, en hann gaf í skyn, að e.t.v. yrði þar ákveðin eitthvað lengri vegalengd, allt að 11/2, þá vil ég taka fram, að það er mín skoðun, að þetta geti engan veginn verið neinn mælikvarði um það, hvar eigi að leggja rafmagn í landinu, og mér þykir ástæða til þess að taka það fram hér, vegna þess að það er verið að undirbúa hina nýju áætlun, og það virðist, að hjá raforkuráði og raforkumálastjórn sé það mjög ákveðin stefna, að það verði að takmarka þetta með ákveðinni fjarlægð á milli bæja. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að þetta var einnig gert á sínum tíma, þegar síminn var lagður hér á Íslandi. Nú er svo komið, að það dettur engum manni í hug að neita um að leggja síma til bæja, þó að það sé langt fjarri öðrum byggðum, og landssíminn verði að taka á sig þær fjárhagslegu byrðar, sem því eru samfara.

Það verður að vera krafa þeirra manna, sem hér á Alþingi eru umboðsmenn fyrir hinar fjarlægari byggðir, að sú skoðun verði ekki látin ríkja í sambandi við áætlunina, að raflýsa beri aðeins bæi innan ákveðinnar vegalengdar. Við verðum að krefjast þess, að þegar næsta áætlun er gerð, hvort heldur það verður nú eða þegar þessari áætlun, sem nú er að ljúka, verður lokið, þá liggi fyrir nákvæmlega, hvað það kostar að raftýsa hvern einasta bæ á Íslandi. Það getur ekki verið neitt vandamál fyrir raforkumálastjórnina að láta gera slíkar áætlanir, og er þetta er vitað, ber að ákveða, hvort bæir skuli lýstir með vatnsafli, dísilmótorum eða á einhvern annan hátt. En það verður þá þegar að vera ljóst, hvað það kostar að raflýsa alla bæi í landinu, hvar sem þeir eru staðsettir, því að það er vitanlegt, að ef felldur er sá dómur um ákveðin býli, að þau verði ekki raflýst með sams konar aðstoð frá ríkissjóði og ætlazt er til að fjölbýlið fái, þá er verið að dæma þá menn úr leik, sem þar búa, og gera þeim ómögulegt að lifa þar áfram sínu lífi.

Ég hef orðið var við þessa skoðun, ekki hjá hæstv. ráðh., nema síður sé, en ég hef mjög orðið var við hana hjá raforkumálastjóra, og það er einmitt þess vegna, sem það er nauðsynlegt að kveða þessa skoðun strax niður. Ríkisstjórnin og raforkuráð verða undir öllum kringumstæðum að gera sé ljóst, að það verður að láta hér alla þegna landsins sitja við sama borð, og verði það ekki gert, þá verður að gera ráðstafanir til þess að flytja þetta fólk í burtu frá dreifbýlinu inn á rafmagnssvæðin og sjá, hvað það kostar ríkissjóð.

Mér þykir ástæða til að láta þessi orð koma hér fram, vegna þess að það kom mjög fram hjá ráðh., að vegalengdin á milli bæja yrði látin ráða framkvæmdum í hinni nýju áætlun, en það tel ég hreinustu fjarstæðu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða málið hér nánar. Þessi till. fer sjálfsagt í n. og hún verður einhvern tíma síðar rædd, og málið sjálft verður tvímælalaust rætt mjög á Alþingi, áður en endanlega er náð samþykki um það að láta fjarlægðina á milli bæja skera úr um það, hvaða héruð skuli lýst, eins og var gert í síðustu áætlun.