06.02.1962
Sameinað þing: 42. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (3638)

112. mál, fjárfesting Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis o.fl.

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. olli mér nú vonbrigðum með sinni ræðu. Ég man eftir í fyrra, þegar þáv. 3. þm. Austf. kom hér upp, daginn eftir að ég hafði haft mína framsöguræðu. Þá var hann búinn að safna saman öllum þeim upplýsingum, sem ég hef vitnað hér í í minni grg., og flutti þetta mjög skörulega hér á Alþingi. Mér þykir satt að segja mjög leitt, að hann skuli ekki vera staddur hér núna, því að ég býst við, að hann hefði ekki látið á sér standa um það. En ég sé, að hv. 2. þm. Vesturl. er miklu íhaldssamari með þessar upplýsingar. Það er þess vegna kannske dálítið tvíræð huggun fyrir mig, þegar hann segir, að hann muni gefa upplýsingar, þegar málið komi úr nefnd. Í fyrsta lagi er nú, svo að maður sé mjög raunsær, náttúrlega ekki alveg vist, að málið komi úr nefnd aftur. Það hefur komið fyrir einstaka sinnum á þingi, að mönnum hefur þótt gott að liggja á svona málum. Og þá hefur þeim aldrei verið skilað. Og þó að það sé ákaflega gott að eiga inni hjá hv. 2. þm. Vestusl. upplýsingar um þetta, þegar það kæmi úr nefnd, þá væri betra að fá þessar upplýsingar, áður en málið fer í nefnd, því að til þess er eitt mál sent til nefndar, eins og hæstv. 1. varaforseti sameinaðs Alþingis veit, að í nefndinni sé málið rannsakað og fyrir n. liggi upplýsingarnar og úr þeim upplýsingum geti hún unnið, þannig að annaðhvort hefði hv. 2. þm. Vesturl. átt að tjá okkur þessar upplýsingar nú við þessa 1. umr. eða þá að heita því að koma með upplýsingarnar til nefndarinnar. Hitt er seint, að ætla að fara að koma með þær, þegar málið kæmi úr nefnd, ef það kæmi einhvern tíma úr nefnd. Og hvað er þá það, sem veldur því, að hann vildi fresta því svona lengi? Er þetta eitthvað óþægilegt með upplýsingarnar? Eru þær ekki svo ánægjulegar, að honum sé mikil ánægja að því að upplýsa, að öli sölufyrirtækin þarna fyrir vestan og verksmiðjan séu seljanleg undireins með ágætu verði, allar birgðirnar vestanhafs seljanlegar undireins, búðirnar í Bretlandi mundu verða reiðubúnar að kaupa þær, skuldirnar í Hollandi borganlegar strax? Ef þetta eru upplýsingarnar, því í ósköpunum vill hann ekki koma með þessar upplýsingar strax? Hvað er það, sem gerir, að hann vill draga þetta? Ég held, að ef hann vill ekki láta þessa hv. deild fá þessar upplýsingar við þessa umr., þá hefði hann þó a.m.k. átt að heita því að láta nefndina fá þessar upplýsingar, því að sú nefnd, sem þetta fer til, hefur náttúrlega rétt til þess að krefjast slíkra upplýsinga frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og ég býst ekki við, að S.H. ætti neitt þægilegt með að neita að gefa þær upplýsingar.

Hins vegar, eitt hafðist þó upp úr þessari ræðu hv. 2. þm. Vesturl. Hann svaraði þeirri spurningu hv. 4. þm. Austf., hvort hann áliti þessa rannsókn þarfa eða ekki. Og hann svaraði því á þann veg, að hann álíti, að þessi rannsókn væri óþörf. Og nú vil ég leyfa mér að spyrja hv. þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl. í þessari deild: Álíta þeir það óþarft, að þessar upplýsingar verði gefnar? Álíta þeir það óþarft, að þetta ástand S.H. verði rannsakað? Taka þeir á sig allir saman sem heild ábyrgðina á S.H. og öllu því, sem þar er að gerast og hefur gerzt? Því svara þeir með afgreiðslu þessa máls.

Hv. 2. þm. Vesturl, talaði, eins hægur og rólegur eins og hv. þm. alltaf er, af dálítilli skerpu til mín áðan og kvað þetta óþarfa tortryggni. Óþarfa tortryggni, sagði hann, sem ég væri raunverulega að koma með hér með þessari þáltill. Ég hef ekkert verið sérstaklega harðorður í þessum ræðum, sem ég hef hérna flatt, en ég vil vekja athygli hv. 2. þm. Vesturl. á því, að það, sem liggur fyrir í þessu máli, ótvírætt upplýst af S.H. og hennar fulltrúa, sem hér var í fyrra, Einari Sigurðssyni, er, að það hafa verið fluttar ólöglega úr landi 150 millj. kr., leyfislaust og ólöglega hafa verið fluttar úr landi 150 millj. kr. og leyfislaust og ólöglega festar í fyrirtækjum erlendis. Er ekki hv. 2, þm. Vesturl. ljóst, að S.H. hefur framið lagabrot? Þegar menn veðsetja eina vöru og það hvíla á henni þau veðbönd, að menn eiga að greiða hana, þegar hún fer úr landi, þá eiga menn að greiða hana. Og ef menn flytja hana úr landi án þess að greiða hana, þá eru menn að brjóta sinar skuldbindingar, — skuldbindingar, sem þeir hafa undirgengizt. Þetta hefur S.H. gert og látið einstaka meðlimi sina gera gagnvart bönkum ríkisins. Og þetta hlýtur hv. 2. þm. Vesturl, að vera ljóst. Það hefur verið framið lögbrot á lögbrot ofan. Það hefur verið tekið traustataki fé annarra manna og fest í fyrirtækjum erlendis. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er eftir lögum aðeins sölusamtök, sem eiga að skila sínum meðlimum andvirði fjárins, jafnóðum og það er greitt, og eiga gagnvart bönkunum að sjá um að greiða veðin upp, þegar fiskurinn fer úr landi. Það eru þær skuldbindingar, sem hún hefur undirgengizt. Þeir, sem hér eiga hlut að máli, eru ekki einhverjir einkabankar. Ég veit ekki til, að það sé t.d. Verzlunarbankinn, sem lánar Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það eru bankar ríkisins. Það eru bankar, myndaðir samkvæmt lögum frá þessari stofnun, frá hinu háa Alþingi, og það er fé almennings og fé ríkisins, sem er sett fast í þessu, fé, sem okkur sem þingmönnum líka ber að hafa eitthvert eftirlit með og hafa einhverja hugmynd um og Alþingi ber að vita eitthvað af hvernig ráðstafað er. Það er ekkert einkamál S.H., hvernig hún fer með það fé, sem almenningur í landinu á, eða það fé, sem ríkisbankarnir lána henni, þannig að það er rétt í þessu máli að koma fram með fullri kurteisi gagnvart Alþ. í þeim málum. Alþingi á hér hlut að máli. Þetta er ekkert einkamál S.H. Þess vegna vil ég, án þess að ætla að draga þetta mál nokkuð lengur, alvarlega vara við því, að þetta mál sé tekið einhverjum lausum tökum, því sé stungið undir stól, það sé svæft hér. Ég vil eindregið óska þess, að þetta mál sé rannsakað til hlítar í þeirri nefnd, sem það fer til, að sú n. fái upplýsingar frá S.H. og líka frá hv. 2. þm. Vesturl., og að fengnum þeim upplýsingum, þá myndi sú nefnd sér skoðun á því, hvað gera beri í þessum málum. Og eins og hlutirnir liggja fyrir, þá sýnist mér, að hún mundi ekki geta komizt að annarri niðurstöðu en þeirri, að það sé öllum aðilum heppilegast, að slík rannsókn fari fram.

Þetta mál snertir Alþingi. Það eru hagsmunir almennings, sem hér eru í veði, þeir hagsmunir, sem einmitt stjórn S.H. hefur skírskotað mjög til, og þess vegna á þetta mál að fá afgreiðslu. Og ég vil eindregið skora á hv. þm. — stjórnarflokkanna líka, þrátt fyrir þá skoðun, sem hv. 2. þm. Vesturl. lét í ljós, að samþykkja þessa till., þá nefnd, sem hún fer til, að sjá um, að hún komi aftur úr nefnd, og hv. þm. um það, þegar hún er komin úr nefnd, að samþykkja hana og láta þessa rannsókn fara fram hið skjótasta, því að ég álít, að það sé öllum fyrir beztu, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna megi sem fyrst ýmist hreinsast af því, sem óverðuglega kynni að vera á hana borið, eða að það yrði lagað hjá henni það, sem aflaga hefur farið, og að það sé hægt að skapa eða endurskapa þessi samtök íslenzkra freðfiskútflytjenda á svo heilbrigðum grundvelli, að slíkt vandræðaástand eins og nú hefur skapazt þar í þurfi ekki að koma fyrir aftur.