07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í D-deild Alþingistíðinda. (3721)

303. mál, ríkislántökur 1961

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp., sem hljóðar þannig:

„Hverjar voru lántökur ríkisins og ríkisstofnana árið 1961, með hvaða kjörum voru lánin, hvernig varið lánsfénu og hverjar lánsheimildir Alþingis notaðar við lántökurnar?”

Ástæðan fyrir þessari fsp. er sú, að eins og allir vita, hefur ríkið lengi haft með böndum lántökur til fjárfestingar í landinu, talsvert verulegar, nokkuð mismunandi miklar, og lánsféð hefur svo ýmist verið lánað öðrum stofnunum eða varið beint til fjárfestingarframkvæmda á vegum ríkisins. Fyrir þessum viðskiptum hefur yfirleitt ekki verið gert ráð í fjárlögum, en eigi að síður er þetta mjög þýðingarmikill liður í ríkisbúskapnum, og hefur verið venja að gera grein fyrir þessum þætti í ríkisbúskapnum, þegar fjárlagaumr. hafa verið á Alþingi og yfirlit hefur verið gefið um afkomu ríkissjóðs, enda er það fullkomlega eðlilegt, þar sem þessi lánaviðskipti hljóta að ganga inn í ríkisreikningana, og þetta er þáttur í sjálfum ríkisbúskapnum. Á hinn bóginn hef ég saknað þess upp á síðkastið, að það hafi verið gefin skýrsla um þessi lántökumál í sambandi við fjárlagaumr. Þetta hefur orðið til þess, að ég býst ekki við, að þm. sé ljóst, hvernig þessum lánamálum ríkisins var háttað á árinu 1961. Mig rekur ekki minni til, að þetta bærist neitt í tal í sambandi við fjárlagaumr. nú í árslokin eða þær upplýsingar, sem þá voru gefnar um væntanlega afkomu ríkissjóðs. Þetta er önnur ástæðan til þess, að ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp.

Hin ástæðan er sú, að fregnir hafa verið um ýmsar lántökur til framkvæmda á vegum ríkissjóðs, sem mig a.m.k. rekur ekki minni til að hafi verið ræddar eða samþykktar á Alþingi, og eftir þeim fregnum að dæma virðist geta komið til mála, að einhver lán hafi verið tekin, sem ekki eru ráðgerð í lögum. En samkv. 40. gr. stjórnarskrárinnar er ákveðið, að ríkið eigi ekki að taka lán, nema fyrir því sé lagaheimild. Nú má vel vera, að þetta sé á misskilningi byggt, að nokkur lán hafi verið tekin umfram það, sem lagaheimildir gera ráð fyrir, og gæti það byggzt á því, að mjög víða í lögum eru heimildir til lántöku fyrir ríkið. En til þess að fá algerlega úr þessu skorið, hvaða lántökur hafa farið fram og hvernig heimildum er háttað í því sambandi, þá er í fsp. ekki aðeins spurt um lántökurnar, heldur líka, hvaða heimildir Alþingis hafi verið notaðar.

Mér sýnist það vera mjög nauðsynlegt fyrir Alþingi að fylgjast vel með því, hvað liður notkun þeirra lántökuheimilda, sem samþykktar hafa verið. Ég vona, að það sé misskilningur, að lán hafi verið tekin, sem ekki er heimild fyrir, og að það upplýsist einmitt í sambandi við þetta svar við fsp. Ég vona, að við ættum öll að geta verið sammála um, að það verði að halda sér fast við það að hafa lagaheimildir fyrir lántökunum.