11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í D-deild Alþingistíðinda. (3775)

208. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi

Magnús Jónason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja umræður um þetta mál, en það var aðeins vegna ummæla í ræðu hv. fyrirspyrjanda, sem ég stóð hér upp. Hann sagði, held ég, eitthvað á þá leið í upphafi ræðu sinnar, að hann hefði átt nokkurn hlut að því, að ákveðið var að kaupa þennan jarðbor. Ég skal sannarlega ekki draga úr hans áhuga í því máli. En af því að ég veit, að hann muni hafa áhuga á því að segja hlutina eins og þeir raunverulega eru, þá tel ég rétt í framhaldi af hans ræðu, því að það kom ekki glöggt fram, að skýra frá því, að heimildin um kaup á þessum jarðbor var flutt af mér í fjvn. 1959 í samráði við hæstv. þáverandi raforkumrh., Friðjón Skarphéðinsson, og var þá ákveðið að hefjast handa um kaup á þessum bor. Mér er hins vegar vel kunnugt um það, að vitanlega hefur hv. 1. þm. Norðurl. e. haft mikinn áhuga einnig á þessu máli. En til þess að það komi fram í þessu máli, sem rétt er, taldi ég aðeins rétt að segja þetta. Ég vil svo taka undir það með honum, að það er mjög þýðingarmikið fyrir byggðirnar Norðanlands, að þessi bor verði hagnýttur sem bezt. Það eru víða þar skilyrði til þess að fá heitt vatn til hitaveitu og raunar einnig iðnaðar og annarra þarfa, og þess verður mjög að vænta, að þessu máli verði hraðað svo sem verða má og samfelld starfsemi jarðhorsins tryggð, eins og hæstv. raforkumrh. sagði að mundi verða lögð áherzla á.