26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það má að sjálfsögðu lengi deila um atriði, sem viðkoma íslenzku máli. Hér gerist það, að nýtt heiti er sett á skólann af öðrum ástæðum en málsástæðum. Þá er nafninu breytt í þeim tilgangi að stytta orðið og gera það hljómbetra. Till. um þetta er komin frá forráðamönnum skólans, og n. hefur fyrir sitt leyti fallizt á hana.

Ég hygg, að það sé erfitt að tala um nokkrar reglur í okkar máli í sambandi við þetta. Ef hv. þm. telur sig vera til þess kallaðan að verja eignarfallið, vill hann þá ekki halda uppi því, sem er bezta vörnin, m.ö.o. sókn? Vill hann ekki leggja til, að hér verði ekki talað um þingmenn lengur, heldur þingsmenn, að ekki verði talað um sjónleysingja, heldur sjónarleysingja, að ekki verði talað um málleysingja, heldur málsleysingja? Af hverju hefur hann alla sína þingtíð látið standa í lögum frá 1922, að skólinn héti málleysingjaskóli, ef það eru afglöp gagnvart íslenzku máli að kalla hann ekki málsleysingjaskóla?

Ég vil taka fram að lokum, að ég tel till. enga goðgá. Við tökum samsett orð, heyrnarleysingi, og tengjum það við orðið skóla. Verður úr langt orð, eins og okkur hættir til í okkar máli, og eru mörg fordæmi fyrir því, að langar samsetningar hafa verið styttar með úrfellingum, þegar það hefur ekki skert merkingu. Ég sé ekki neina hættu við það. Þvert á móti tel ég, að nýja nafnið geti vel staðizt og sé að því leyti betra, sem það er styttra og óskert að merkingu.

Að öðru leyti get ég sagt fyrir sjálfan mig, — ég veit ekki um aðra nefndarmenn, — að ég mundi ekki telja það neitt höfuðatriði, ef hæstv. d. felldi þessa brtt. um nafnið, ef málinu sjálfu er jafnvel borgið eftir sem áður. Hv. deild ræður þessu að sjálfsögðu. En við skulum ekki hlaupa hugsunarlaust eftir fyrstu sérvizkurödd, sem kemur í þessum efnum.