17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Lúðvík Jósefsson:

Háttv. forseti. Aðeins örfá orð. — Það var í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér viðvíkjandi innflutningi á hátollavörum í tíð vinstri stjórnarinnar. Það var heldur skemmtilegt að heyra það, að hann talaði sérstaklega um, að það hefði dregizt saman innflutningur á hátollavörum í tíð vinstri stjórnarinnar. Eitthvað minnir mig nú, að ég hafi heyrt þetta koma úr hinni áttinni stundum áður. En þá hafði það verið einn aðaláróðurinn einmitt hjá hans flokki og honum sjálfum, að uppbótakerfið allt saman lifði á innflutningi á hátollavörum og allt hefði verið gert til þess að reka menn til að kaupa hátollavörur. Það er alveg rétt, að árin áður en vinstri stjórnin tók við, var innflutningur á þessum vörum enn þá meiri en hann var í tíð vinstri stjórnarinnar. 1957 og 1958 minnkaði innflutningurinn á hátollavörum, — það er rétt, — þó að flokkur hæstv. ráðh. hafi alltaf klifað á hinu allan tímann, þangað til nú þykir betra að snúa því aftur við. En því dettur mér ekki í hug að neita, að innflutningur á þessum vörum var mikill árin 1957 og 1958 og 1959 og miklum mun meiri en hann hefur verið nú eftir að viðreisnin var samþykkt. Það er nefnilega þannig með mikið af þessum vörum, að það er vitanlega ekki hægt að flytja þetta inn alveg endalaust. Þegar svo hafði verið, að bað hafði verið stöðvun á innflutningi á ýmsum þessum svonefndu hátollavörum í allmörg ár, tímabilið eftir 1950, þá fór það svo, að árin 1955 og 1956 var ofsamikill innflutningur t.d. á heimilistækjum og öðrum slíkum hátollavörum. Það vitanlega dró dálítið úr því aftur árin 1957 og 1958 af eðlilegum ástæðum. En nú hins vegar er enginn vafi á því, að salan á þessum vörum, eftir að gengisbreytingin var gerð í febrúarmánuði 1960, hefur farið langt niður fyrir það mark, sem eðlileg kaupgeta í landinu mundi samsvara. Kaupgetan hefur verið skrúfuð niður svo mikið, að menn hættu að kaupa þessar svonefndu lúxusvörur.

Nei, það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., að þær ráðstafanir, sem voru gerðar í upphafi tíma vinstri stjórnarinnar í sambandi við tolla á þessum vörum, hafi leitt til þess, að þá hafi smygl stóraukizt. Þá var bætt við nokkrum vörum á gamla bátalistann, og hækkanir voru nokkrar, en þær voru ekkert mjög miklar og hvergi nærri því að vera eins gífurlegar og þær hækkanir voru á þessum vörum, sem komu með gengisbreytingunni í febrúarmánuði 1960. Þá varð alveg stórkostleg hækkun á þessum vörum, þrátt fyrir þessa tiltölulega litlu lækkun á tollstiganum, sem hæstv. ráðh. gat hér um, en verðlagningin vitanlega þaut upp á öllum þessum vörum eftir gengisbreytinguna í febrúar 1960.

Svo var það aðeins hitt atriðið, hvað megi treysta á álagningarfrelsið. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að reynslan ein verður að skera úr um það, hvor okkar hefur rétt fyrir sér í þeim efnum. Ég veit, að hann hefur mestu ótrú á verðlagseftirliti og vill það feigt. Hann vill losna við verðlagseftirlit, það veit ég. Hann virðist trúa á álagningarfrelsið. Þessu er alveg öfugt farið um mig. Ég hef ekki trú á álagningarfrelsi og tel, að það þurfi að vera visst aðhald að þeim, sem ákveða álagningu á vörur og þjónustu. En ekki get ég fallizt á þau rök hjá hæstv. ráðh., að hann megi miða mikið við það, sem gerzt hefur í þessum efnum nú á tveggja og hálfs mánaðar tímabili. Hann veit það auðvitað mætavel, að áhrif eru ekki komin fram á þessum tíma nema að litlu leyti, og þegar verðlagið þýtur allt upp í kringum mann hér í þessu landi á flestöllum vörum, svo að segja frá degi til dags, þá er auðvitað ekki von, að almenningur átti sig á því, hvað af þessum verðhækkunum stafar af því, að álagningin hefur verið hækkuð, og hvað stafar af ýmsum öðrum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. Hið rétta er, að það hefur engin athugun enn þá farið fram á því, til hvers þetta álagningarfrelsi hefur leitt. En dæmið, sem ég nefndi, um það höfðu opinberir aðilar fjallað, og þá hafði það sýnt sig, að frelsið um álagningu leiddi ekki til þess, sem hæstv. ráðh. miðaði alla sína trú við.

Svo eru fullyrðingar hæstv. ráðh. um það, að verðlagseftirlit jafnvel stórskaði, valdi jafnvel stórum skaða í sambandi við verðlagningu á vörum og haldi hér uppi hárri verðlagningu. Skyldi það vera með öllu ástæðulaust, að verzlunarmenn berjast svo ákaft fyrir því að losna við verðlagseftirlit? Skyldi það vera alveg ástæðulaust, að þeir vilja endilega losna við það? Nei, það fylgir vitanlega alveg á eftir þeirri fullyrðingu verzlunarstéttarinnar, að hér hafi verzlunin þurft að búa við lægri álagningarreglur en í nálægum löndum og það sé lífsnauðsyn að hækka álagningarreglurnar, og þegar þeir fá ekki hækkun á álagningarreglunum, sem þeir vitna til sí og æ að séu allt of lágar hér, þá vilja þeir fá reglurnar afnumdar. Það er auðvitað með alveg ákveðið atriði í huga, sem þeir eru að biðja um þetta.

Hæstv. ráðh. verður að hafa sína skoðun á þessum efnum og ég mína. En ég held mér við það, að öruggara væri fyrir almenning eða fyrir neytendur í landinu að hafa verðlagsákvæði a.m.k. í þessum efnum, þegar er verið að lækka tollana mjög verulega, til þess að tryggja það, að þeir fái að njóta tollalækkunarinnar í lækkuðu verði á þessum vörum, og af því mun ég flytja brtt. í þá átt.