15.02.1962
Neðri deild: 49. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

21. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Hæstv. forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft þetta mál til meðferðar fyrir alllöngu og hafa nefndarhlutar skilað álitum. Það voru haldnir nokkrir fundir í nefndinni um þetta mál, og á einum þeirra mætti hæstv. landbrh. og gaf þar ýmsar upplýsingar og skýringar. Sömuleiðis leitaði nefndin til Búnaðarbankans eftir tölu umsækjenda um lánin, og reyndust þeir vera einhvers staðar á milli 12 og 13 hundruð. Þá var og sent til Stéttarsambands bænda og leitað umsagnar þeirra um málið.

Ég mun hér í stuttu máli gera grein fyrir þeim grundvelli, sem markaði afstöðu meiri hl. n., en ég geri hins vegar ráð fyrir, að hæstv. landbrh. muni við umr. þessar skýra stöðu málsins í dag.

Nefndin var í heild sammála um markmið frv., þ.e.a.s. þá stefnu að reyna að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, og telur meiri hl. n., að með frv. og aðgerðum hins opinbera í framhaldi af þessari löggjöf verði þeim tilgangi náð. Hins vegar taldi minni hl. þessar aðgerðir ekki fullnægjandi og hefur í sérstökum nefndarálitum gert grein fyrir afstöðu sinni. Megingagnrýni minni hl. beindist að eftirfarandi atriðum: Í fyrsta lagi, að Seðlabankinn og aðrar lánastofnanir séu ekki skyldaðar samkv. þessu frv., ef að lögum verður, til þess að taka við hinum nýja flokki bankavaxtabréfa sem greiðslu. í öðru lagi, að lánin verði ekki veitt gegn veði í vélum eða tækjum. Og í þriðja lagi, að ekki sé gert ráð fyrir lánum til vinnslustöðva landbúnaðarins. Og að lokum í fjórða lagi, að af landbúnaðarlánunum sé hugsað að reikna hærri vexti en af lánum sambærilegum til sjávarútvegsins.

Skoðanir meiri hl. á þessum athugasemdum eru í stuttu máli þessar: Varðandi fyrsta atriðið er það að segja, að engar upplýsingar lágu fyrir, þegar nefndin vann að þessu verki, og munu sennilega ekki liggja tæmandi fyrir í dag, um heildarlánsupphæðina til landbúnaðarins, og virðist því hæpið að ætla að skuldbinda lánastofnanir samkvæmt lögum til að veita ótakmörkuð lán. Þá er það að áliti meiri hl. hæpin stefna yfirleitt að flytja slíkar skyldur yfir á lánastofnanir, því að þær geti á annan veg orðið beint til skaða og tjóns fyrir þá, sem ætlað er að gera gagnið, því að þær munu þá torvelda í framtíðinni lánveitingar til þeirra, a.m.k. á stuttum lánum, víxillánum, sem allajafna koma öllum atvinnuvegum að vissu haldi. Til viðbótar má svo geta þess, að hæstv. landbrh. upplýsti við umr., að hann hefði rætt þessi mál við viðskiptabankana og fengið fyrirheit þeirra um kaup á þessum bréfum. Varðandi annað og þriðja atriðið, að ekki sé gert ráð fyrir lánum gegn veði í vélum og tækjum og sömuleiðis til vinnslustöðva, þá upplýsti hæstv. landbrh., að í undirbúningi væri öflun fjár til fjárfestingarsjóða landbúnaðarins og mundi þá vera tilætlunin, að lán yrðu veitt gegn nýjum og nýlegum vélum og sömuleiðis veðhæfum vinnslustöðvum landbúnaðarins. Að lokum er það svo atriðið varðandi vaxtakjörin. Það er ætlan mín, að ef frv. þetta nær fram að ganga, muni vaxtakjör landbúnaðarins sízt verða lakari en hliðstæð lán til sjávarútvegsins, þar sem landbúnaðurinn mun fá vexti þessa að verulegu leyti inn í verð afurðanna.

Meiri hl. fjhn. er af framangreindum ástæðum þeirrar skoðunar, að þetta frv. nái tilgangi sínum að létta þungbærum lausaskuldum af bændum og þannig að bæta hag þeirra, og mælir því með því, að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.