16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

21. mál, lausaskuldir bænda

Jónas Pétursson:

Hæstv. forseti. Á s.l. vetri, við útvarpsumr. hér á Alþingi, gaf ég þá yfirlýsingu með leyfi ríkisstj., að hún mundi beita sér fyrir því, að hluta af víxilskuldum bænda yrði breytt í föst lán til langs tíma með hagstæðum vaxtakjörum. Í framhaldi af því var farið að vinna að löggjöf um þetta efni. Í júlímánuði s.l. voru svo gefin út brbl. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, sem hér eru nú til 2. umr. til staðfestingar. Þar er málið tekið mun fastari tökum en fólst í þeirri yfirlýsingu, sem upphaflega var gefin, þar sem veðdeild Búnaðarbankans er aðili málsins og þar með gert mögulegt að breyta í föst lán ekki einasta víxilskuldum bænda eða hlutum þeirra, heldur meginhluta allra lausaskulda þeirra, auðvitað að því tilskildu, að þeir hafi veð að setja fyrir lánunum. Ég vil minna á þetta hér, ef menn vildu bera saman það, sem við gætum kallað framkvæmd og fyrirheit.

Hv. þm. Ásgeir Bjarnason var við útvarpsumr. frá Alþingi fyrr í vetur að beina skeytum að mér út af þessu máli. Hann vitnaði þá í þessa yfirlýsingu, er ég gaf s.l. vetur með leyfi ríkisstj., og dró svo þá ályktun af því, að Jónas Pétursson teldi 8% vexti mjög hagstæða fyrir bændur. Þessi túlkun hans kom mér ekkert á óvart, því að hún er ákaflega táknræn fyrir málflutning framsóknarmanna yfirleitt, þann að rangsnúa ummælum andstæðinga.

Það voru þrjú atriði, sem hafa þurfti í huga við framkvæmd þessa máls. Það fyrsta, að sem mestum hluta lausaskuldanna yrði breytt í föst lán, annað, að lánstíminn yrði viðhlítandi langur, og þriðja, að vextirnir yrðu sem hagstæðastir. Í brbl. eru vextirnir ekki ákveðnir, heldur svo fyrir mælt, að stjórn sjóðsins ákveði vextina með samþykki ráðh. En ég vil leggja á það mjög mikla áherzlu, að allir þessir þrír höfuðþættir eru óvefengjanlega samtengdir. Ég tel þessa löggjöf í heild mjög mikilsverða og veit, að hún verður þeim bændum, sem fá skuldum sínum breytt eftir henni, að mjög miklu liði og bjargar í mörgum tilfellum frá algeru strandi. Um þetta vitnar líka ótvírætt áhugi þeirra bænda, sem laganna munu njóta, fyrir því, að málið gangi sem fyrst fram, en við þann áhuga hef ég m.a. mjög orðið var. Þeir skilja, að svo mikilvægir sem vextirnir eru, þá er hitt ekki síður mikilvægt, að sem mest af lausaskuldunum falli undir þessa breytingu og að lánstíminn sé langur.

Þeir, sem unnið hafa að mótun og framkvæmd þessara mála, hafa unnið mikið starf. Það er ekki einfalt mál að breyta lausaskuldum þúsund aðila eða svo víðs vegar að af landinu í föst lán í einni stofnun, þar sem segja má, að þessar skuldir séu kvíslaðar um allt viðskiptalífið, og hafa ber það einnig í huga og gleyma sízt, að hér var aðeins um skuldabreytingu að ræða, ekki nýtt fé í umferð. Hæstv. landbrh. á að mínu viti sannarlega þakkir skilið fyrir farsælt starf við lausn þessa máls.

Framsóknarmenn eru sífellt að tala um hollustu sína við landbúnaðinn og bændur. Á Austurlandi, í Múlasýslum hafa þeir haft öll ráð, öll völd í sínum höndum um aldarfjórðungsskeið a.m.k. Það mætti því ætla, að þar væri velmegun bænda einna mest á Íslandi. En hverjar eru þá staðreyndirnar? Ja, þær eru, að á Austurlandi eru bændur einna tekjulægstir á landinu. Þar eru búin of lítil, bændur eru með miklar lausaskuldir. Úr Suður-Múlasýslu, þessu ríki sjálfs Eysteins Jónssonar, hafa, að því er ég bezt veit, 28% bænda sótt um lán til þess að breyta lausaskuldum. Í engum landshluta mun hafa verið jafnmikil nauðsyn að létta lausaskuldir bænda sem einmitt á Austurlandi. Þar hefur til þessa bústofninn verið að mestu leyti sauðfé, en alla þá tíð, sem það verðlagskerfi hefur gilt, sem við nú búum við, hefur verið hallað á sauðfjárbændurna í verðlagningunni.

Þessar lausaskuldir bænda, sem nú er verið að breyta, hafa myndazt á undanförnu fimm ára skeiði. Lítið af þeim er myndað á valdatíma núv. ríkisstj., þar sem það nær aðeins yfir um það bil af þessu tímabili. Mestar eru þær frá valdatíma vinstri stjórnarinnar, frá velmektarárum Eysteins og Lúðvíks.

Hv. 1. þm. Austf. var hér í gær og einnig í ræðu sinni nú áðan að þakka framsóknarmönnum, að samkomulag hefði náðst við bankana um að taka skuldabréfin á nafnverði. Ja, flest má nú bjóða mönnum. Ég held, að flestir viti, að framsóknarmenn með Eystein Jónsson í broddi fylkingar gerðu það, sem þeir gátu, til að torvelda og koma í veg fyrir, að þessir samningar tækjust við bankana. Svona virðast þá heilindin vera á stundum. Mér finnst því miður oft sá svipur á framkomu og afstöðu framsóknarmanna til ýmissa mála hér, að ég tel hann ekki æskilegan, og ég vildi í fullri vinsemd og fullri alvöru beina því til þeirra, að þeir breyttu um þennan svip, þannig að það mætti ekki virðast, að þeir væru að þvælast fyrir þeim málum, sem hæstv. landbrh. er að vinna að fyrir landbúnaðinn og bændurna í landinu. Það væri betra fyrir þá að taka sér fremur til fyrirmyndar hv. flokksbróður sinn, þingmanninn Björn Pálsson. Hann er á móti því, sem hann er á móti, en viðurkennir það, sem vel er gert.