07.12.1961
Efri deild: 28. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

34. mál, félagslegt öryggi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Um nokkur undanfarin ár hefur verið í gildi milli Norðurlandanna samningur um félagslegt öryggi, sem gengur í þá átt, að íbúar Norðurlanda, hvar sem þeir eru staddir innan þessara landa, skuli hafa jafnan rétt til ýmissa félagslegra bótagreiðslna, og verður þá réttur hvers aðila jafnmikill og heimamannsins. Þó er sá hængur á þessu eða hefur verið að undanförnu, að til þess að öðlast rétt í dvalarlandinu þarf aðkomumaðurinn að hafa dvalizt vissan tíma í landinu, til þess að öðlast þessar bætur að fullu, venjulega 5 ár. En þar sem réttur mannsins til bóta í heimalandinu fellur niður, um leið og hann flyzt í burtu, verður þarna millibilsástand, sem getur orðið til þess, að maðurinn njóti engra bóta á þessu tímabili, frá því að hann flytur burt úr sínu heimalandi og þangað til hann öðlast fullan rétt í dvalarlandinu. Til þess að bæta úr þessu var í haust gerður viðbótarsamningur við þennan samning frá 1955, sem hér er lagt til að verði staðfestur. Aðalinnihald þessa viðbótarsamnings er það, að þeir, sem flytjast frá sínu heimalandi, skuli, þangað til þeir öðlist réttinn í dvalarlandinu, fá sína bótagreiðslu frá heimalandinu, þannig t.d., að ef Íslendingur flyzt til Danmerkur og öðlast ekki rétt þar fyrr en að 5 árum liðnum, þá verði honum greiddar bætur af tryggingunum hér, þangað til hann öðlast sínar bætur í dvalarlandinu. Þessi samningur var undirskrifaður í Finnlandi af öllum 5 félagsmálaráðherrum Norðurlanda nú í septembermánuði s.l., og er með þessu frv. lagt til, að hinu háa Alþingi mætti þóknast að staðfesta þennan viðbótarsamning.

Þetta frv. hefur verið samþykkt í Nd., að ég ætla ágreiningslaust, og er þaðan komið hingað til þessarar hv. deildar.