26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Vestf., sem ég vil minnast á, og hafði þó vikið að því áður. Ég leyfði mér að draga í efa, að hækkunin á meðalíbúð væri 100 þús. kr., eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. vildi vera láta, en hafði ekki tölurnar við höndina. Mér er nokkuð vel kunnugt um það, að þær eru í Hagtíðindum, þó að ég kynni þær ekki utan að. Ég hafði þau ekki við höndina og vildi þess vegna ekki nefna neinar tölur úr þeim eftir minni, sem ég þar að auki hafði ekki heldur glöggt yfirlit yfir í huganum. En þessar tölur, sem hv. 4. þm. Vestf. nefndi, eru góðar út af fyrir sig, og ég skal ekkert vefengja, að hann fari rétt með þær. En það fer bara allt eftir því, hve stóra íbúð maður tekur, hvað kostnaðaraukinn við íbúðina verður mikill. Það er enginn vandi að taka svo stóra íbúð, að þessar 100 þús. kr. fáist. En ef hann tekur t.d. 90 m2 íbúð í margbýlishúsi, lofthæðin er ekki það mikil, a.m.k. í íbúðinni sjálfri, ef ekki eru tekin þá með einhver aukaherbergi, þá verða það ekki nema 270 m3, sem út úr því koma, og 270 m3, sem hækka um 313 kr. hver, gefa 84 510 kr. Ég get því alveg eins farið niður á við, eins og hann getur farið upp á við, það er enginn vandi, því að það má fá nánast sagt hvaða upphæð sem maður vill út úr þessu, eftir því, hvort maður tekur stóra íbúð eða litla, en með venjulegri íbúðarstærð, þá hygg ég, að hækkunin nái tæplega 100 þús. kr.