22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Þetta frv. var tvisvar tekið fyrir í hv. heilbr.- og félmn. Það var í raun og veru ekkert rætt þar, en umsagnar var óskað frá stjórn húsnæðismálastofnunarinnar. Sú álitsgerð var lögð fram á síðari fundi nefndarinnar. Þá óskaði ég þess við hv. formann þessarar nefndar, að hann færi þess á leit við formann þeirrar nefndar, sem frv. undirbjó, að hann kæmi á fund nefndarinnar til viðræðna. Ég hafði sérstaklega í huga, að spyrja hann nokkurra spurninga, sem ég óskaði að fá svarað, áður en n. afgreiddi málið frá sér. Þá brá svo undarlega við, að hv. formaður heilbr.- og félmn. neitaði gersamlega að verða við þeirri beiðni minni hlutans. Mér skildist það helzt á hv. form., að það þyrfti að hraða málinu og þess vegna væri ekki hægt að verða við umsókn minni. Síðan er liðinn a.m.k. hálfur mánuður og málið ekki tekið á dagskrá fyrr en nú, svo að ekki getur orsökin að þessari synjan hv. form. legið í því. Ég vil hafa orð á þessu, mér finnst þetta vítavert, að neita um jafnsanngjarna ósk og þá, sem ég bar fram, og ég tel, að það hafi verið alveg ástæðulaust að synja því. Ég vil sérstaklega finna að þessu, af því að ég tel, að hér hafi minni hlutinn verið óvirtur af meiri hlutanum að gersamlega þarflausu. Eins og við vitum allir, á minni hl., hvort sem er í n. eða í þd., miklu hlutverki að gegna hér á þingi eins og alls staðar þar, sem lýðræði og þingræði ríkir, og á kröfu á því, að til hans sanngjörnu óska sé fullt tillit tekið. Ég vil hins vegar finna að þessu og vita þetta, þó að ég hins vegar sé viss um, að í þessu tilfelli hafi frekar verið um hugsunarleysi að ræða hjá hv. form. n. en eitthvað annað.

Þetta stjórnarfrv., sem hér er til umr., er ekki mikið að ummáli eða efni. Í því felast sex breytingar á lögum um húsnæðismálastofnun, og engar þessara breytinga eru stórvægilegar. Það eru allt smávægilegar breytingar, sumar af þeim að mínum dómi til bóta, aðrar máske óþarfar.

Lög um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins o.fl. eru sennilega vel úr garði gerð upphaflega. Þau voru samþ. á Alþ. árið 1957, og ég held, að til þeirra hafi verið vandað. Þess vegna var máske ekki frá því sjónarmiði séð mikil ástæða til breytinga. Hitt er svo annað mál, að framkvæmd laganna hefur ekki orðið með þeim hætti, sem þurft hefði að vera. Það er þar, að mínu áliti, sem skórinn kreppir að. Ég vil nefna tvennt sérstaklega í því sambandi. Það er hlutverk húsnæðismálastofnunar m.a. að vinna að því með ýmsum hætti, að byggingarkostnaður í landinu lækki. Að þessu hefur ekki verið unnið nógsamlega á undanförnum árum, enda þótt lögin geri ráð fyrir þessu. Í öðru lagi hefur ekki verið lögð nógu mikil áherzla á útvegun lána í samræmi við ákvæði laganna. Ýmsar fjáröflunarleiðir, sem þar eru tilgreindar, hafa lítt eða ekki verið farnar síðustu árin, og af því hefur leitt m.a., að byggingarsjóður ríkisins hefur ekki haft nándar nærri nógu mikið fjármagn. Þess vegna finnst mér, að það hefði verið sérstök ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja fram frv. til l. um breyt. á lögum um húsnæðismálastofnun, frv., sem hefði lagt megináherzlu á þessa tvo liði: lækkun byggingarkostnaðarins í landinu og aukningu byggingarlána. En þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert. Í stað þess kemur hún með lítið og vesældarlegt frv. um nokkrar smábreytingar á lögunum, sem í raun og veru skipta sáralitlu máli, þegar um aðalvanda þessa máls er að ræða. Þess hefði mátt vænta af hæstv. ríkisstj., að hún hefði gert þetta því frekar sem það er hennar sök, að byggingarkostnaður hefur stórhækkað og allir aðrir örðugleikar húsbyggjenda vaxið að sama skapi síðustu tvö árin. Dýrtíð hefur aukizt mikið, vextir af lánum hafa stórhækkað og erfiðleikar á að fá lán aukizt um allan helming á þessu tímabili, einmitt fyrir tilverknað hæstv. ríkisstj.

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta atriði máli mínu til sönnunar. Það vita allir, hversu erfiðleikar við íbúðabyggingar hafa stóraukizt á síðustu tveim árum. Ég skal aðeins nefna eitt dæmi, sem sýnir glögglega, hverjar afleiðingar þetta hefur haft, og það er tala fullgerðra íbúða í Reykjavík á undanförnum árum. Ég ætla að taka tveggja ára tímabil til samanburðar. Árin 1957–58 voru samanlagt fullgerðar í Reykjavík 1800 íbúðir, eða m.ö.o. 900 íbúðir að meðaltali hvort árið, en það voru tvö heilu ár vinstri stjórnarinnar. Árin 1960–61 voru aðeins fullbyggðar 1183 íbúðir, eða með öðrum orðum 591 íbúð að meðaltali hvort árið. Það voru viðreisnarár. Það er sem sagt fullgert í Reykjavík 617 íbúðum færra viðreisnarárin tvö en vinstri stjórnarárin tvö. Ég nefni þessar tölur, því að þær tala skýru máli um þá óheillaþróun, sem hefur orðið í íbúðabyggingum síðustu árin í Reykjavík, en svipað mun gilda um íbúðabyggingar um allt land.

Við fáum dálitla hugmynd um, hvernig þróunin verður áfram með sama hætti næstu ár, ef við lítum á tölu þeirra íbúða, sem byrjað er á á tilteknum árum. Það eru tölurnar frá 1960, en þá var aðeins byrjað á 342 íbúðum í Reykjavík, en árleg þörf mun vera 600–800 íbúðir á ári. Þetta sýnir, hver þróunin er, og lýsir að mínum dómi glögglega þörfinni fyrir að staðnæmast við þetta atriði málsins, afturför í byggingaiðnaðinum.

Ég hef ekki mikið að athuga við þær breytingar, sem felast í frv. hæstv. ríkisstj. Það á að fjölga stjórnendum í húsnæðismálastofnuninni um einn. Um það atriði skal ég ekki hafa mörg orð, en ég hefði talið á ýmsu öðru meiri þörf en að fara að fjölga í húsnæðismálastjórn. Það á að lengja kjörtímabil þessarar stjórnar um eitt ár. Það getur verið, að það sé gott og blessað. En það er harla lítilvægt, þegar um er að ræða þau raunverulegu vandamál þessarar stofnunar og hennar skjólstæðinga. Aðrar till., sem í frv. felast, tel ég vera til bóta meira og minna. Ég skal viðurkenna, að hækkun á hámarki lána til íbúðabyggjenda úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr. er ekki mikils virði, á meðan algerlega ónógt fé er fyrir hendi til úthlutunar þessara lána. Ég skal líka viðurkenna, að það er ekki mikilsvert að heimila Landsbankanum að auka útgáfu vaxtabréfa, á meðan sami banki hefur til þessa engan veginn fullnýtt sína heimild. Aðrar till. eru til bóta, eins og ég hef tekið fram, og skal ég ekki fara um þær frekari orðum.

Það er tvennt, sem hæstv. ríkisstj. hefði borið að leggja megináherzlu á, þegar hún lagði fram þetta frv.: Annars vegar að sjá til þess, að byggingarkostnaður lækkaði, og í öðru lagi að afla aukins fjár til útlána. Hvorugt hefur hún gert. Ég hef borið fram nokkrar brtt. við frv. og einmitt í þeim reynt að leggja megináherzlu á þessi tvö atriði: að byggingarkostnaðurinn verði lækkaður eitthvað og að möguleikar til útlána mættu aukast. Ég skal með nokkrum orðum gera grein fyrir þessum brtt. mínum, en þær eru á þskj. 387.

Í 1. brtt. legg ég til, að ársvextir af A-lánum byggingarsjóðsins lækki úr 8%, eins og þeir eru nú, niður í 4%. Þetta er gert að sjálfsögðu í því skyni, að það gæti orðið til þess að létta þær þungu fjárhagsbyrðar, sem nú hvíla á öllum íbúðabyggjendum.

Í 2. brtt. minni legg ég til, að lán ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis sé bundið því skilyrði m.a., að húsnæðismálastjórn hafi borizt fullgerðar teikningar og sundurliðuð kostnaðaráætlun, áður en framkvæmdir hefjast. Þetta er ekki í lögunum, eins og þau nú eru, og ekki heldur í stjórnarfrv. En það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið hafi einhverja tryggingu fyrir því, að því fé, sem það veitir sem lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, sé vel varið, og það lágmark, sem ríkið hlýtur að krefjast, er, að áður en ríkissjóður greiði eða láti af hendi lánið, liggi fyrri fullgerðar teikningar og kostnaðaráætlun sundurliðuð, þannig að húsnæðismálastofnunin eða ríkissjóður geti gert sér grein fyrir því fyrir fram, til hvers verja eigi fénu.

Aðaltill. mínar fjalla um aukna fjárveitingu til þessara þarfa. Ég legg til, að Seðlabankinn veiti byggingarsjóði ríkisins 50 millj. kr. sem lán með 5½% ársvöxtum til íbúðabygginga á hverju ári í næstu fimm ár og sé þá reiknað með árinu 1962 sem fyrsta ári. Húsnæðismálastjórn skal ráðstafa þessum lánum í samræmi við sínar úthlutunarreglur. Þá legg ég til, að ríkissjóður greiði byggingarsjóði ríkisins 20 millj. kr. sem óafturkræft framlag á árinu 1963 og síðan jafnháa upphæð árlega í samtals fimm ár. Ef þetta er samþ., fást með þessu móti næstu árin 70 millj. kr. sem viðbót til útlána. Það tel ég eftir atvikum ekki óverulega upphæð. Ef við það er bætt því fjármagni, sem byggingarsjóður ríkisins nú hefur til umráða, sem mun vera um 30 millj. kr. árlega, þá eru hér komnar 100 millj. kr., og þá væri innan handar að veita A-lánin með 4% ársvöxtum, en B-lánin með óbreyttum ársvöxtum, 5½%. Ef þetta yrði samþ., mundi mjög greiðast úr þeim erfiðleikum, sem nú steðja mest að, lánsfjárskortinum til íbúðabygginga.

Þá legg ég til, að heimild ríkisstj. til þess að kveða á um vaxtakjör og lánstíma á lánum hjá byggingarsjóði ríkisins og byggingarsjóði verkamanna sé felld niður. Ég tel eðlilegast og tryggast þessum sjóðum, að það sé ákveðið með lögum, hver vaxtakjörin séu. Það hefur verið svo lengst af, og ég veit ekki til, að það hafi gefizt illa. En aðalatriðið með þessari till. er auðvitað það, að vaxtakjörin verði ákveðin svo lág sem mögulegt er og þau þurfi engan veginn að vera háð vaxtakjörum annars staðar á lánamarkaðinum.

Ég legg til, eins og ég tók fram áðan, að vextir af A-lánum verði lækkaðir úr 8% niður í 4%. Þetta er gert í því skyni að lækka byggingarkostnaðinn. Ég flyt aðra till., sem hnígur að efni til í sömu átt. Hún er á þá leið, að íbúðarbyggjandi skuli eiga rétt á að fá endurgreidd úr ríkissjóði aðflutningsgjöld og söluskatta af byggingarefni, sem til íbúðarinnar hefur þurft, enda sé íbúðin að hagkvæmni og stærð í samræmi við reglur húsnæðismálastofnunarinnar. Ef þessi till. yrði samþykkt, mundi það lækka byggingarkostnað stórkostlega mikið, því þótt ótrúlegt sé, hefur ríkið á undanförnum árum gert í því að auka byggingarkostnaðinn með óhóflegum sköttum á þessari starfsemi. Aðflutningsgjald á byggingarefni er mjög hátt og söluskattar sömuleiðis. Víða annars staðar en hér á landi mun ríkið ýmist sleppa þessum sköttum á byggingarefni til íbúða eða stilla þeim mjög í hóf. Hér er hvorugt gert, heldur hið gagnstæða. Það er níðzt á byggingarstarfseminni að þessu leyti. Ég held, að ég fari nærri réttu máli, þótt ég fullyrði, að fjögurra herbergja íbúð af ódýrustu gerð, en þó varanleg, muni lækka í verði um hvorki meira né minna en 80–90 þús. kr., ef horfið yrði að þessu ráði, að afnema eða endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatta af byggingarefni. Hér er því um mjög stóran lið að ræða, mjög mikilsvert atriði í þeirri viðleitni að reyna að lækka byggingarkostnaðinn hvað íbúðir snertir.

Ég hef nú lýst afstöðu minni til þessa frv. svo og þeim ágöllum, sem mér finnst sérstaklega á því vera, en það er vöntun á till. til lausnar meginvandanum við húsnæðisbyggingar í landinu. Ég hef einnig gert grein fyrir, hvernig ég hugsa mér, að hægt væri að bæta úr þessari vanrækslusynd hæstv. ríkisstj., og ég treysti því, að hæstv. þd. íhugi þessar brtt. og afgr. ekki málið frá sér í því ófullkomna formi, sem það er lagt fyrir hana.

Ég vil sérstaklega mælast til þess við hv. form. heilbr.- og félmn., að hann gefi nefndinni tækifæri til að athuga þetta mál betur og þær till., sem fyrir liggja, áður en þær hljóta hér ásamt málinu fullnaðarafgreiðslu.