03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Fram. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Hæstv. forseti. Mér hefði þótt vænna um, ef svör hæstv. ráðh. við þeim spurningum, sem nú voru bornar fram til hans, hefðu legið fyrir, áður en ég talaði, því að það er rétt, sem fyrirspyrjandinn sagði, að vissulega mundi það nokkru máli skipta, að menn hefðu vitneskju um það, hvernig ætti að framkvæma þau atriði, sem um var spurt. En væntanlega koma upplýsingar hæstv. ráðh. síðar við þessa umr., því að það er ekki spurt að tilefnislausu.

Það hefur farið öllum ræðumönnum, sem um þetta mál hafa rætt, eins og mér í gær, að ég sé ekki, að neitt felist í þessu frv. annað en að fjölga í húsnæðismálastjórn um einn mann og lengja kjörtímabil húsnæðismálastjórnarmanna úr 3 árum í 4, og svo breyta á tveim stöðum í frv. tölunni 100 í 150, án þess að það hafi nokkra minnstu þýðingu fyrir starfsmöguleika sjóðsins, af því að honum er ekki séð fyrir neinu auknu fjármagni. Og ef hv. þm., sem hér var að ljúka máli sínu, fer rétt með, að þetta sé ávöxtur af starfi nefndar, sem hafi unnið sleitulaust í 2 ár, þá er ávöxturinn harla lítill, það verð ég að segja. Þeir hafa illa gert í blóðið sitt, þeir nm., sem njóta nú þeirrar náðar að vera á öðru þingfararkaupi en stjórnarandstöðuþm. fyrir að vinna að svona lagasmíði eins og þessari, eða blóðið í þeim er þá harla lítið. En svona er nú með margar þessar nefndir, sem stjórnarliðinu er skipt niður í, og þeir sitja flestir í svona tveimur, þremur nefndum. Þeim er sett það fyrir að taka að sér endurskoðun allstórra lagabálka, og þeir sitja yfir þessu mánuð eftir mánuð og fá sitt kaup og koma svo með einhverjar hégómlegar kákbreytingar, og þar með er hægt að borga þeim út kaupið, og tilgangurinn virðist ekki vera annar en sá. Ef það er fyrirheit hæstv. ríkisstj., að það skuli koma gagngerðari endurskoðun á þessum lögum síðar, þá held ég, að það hefði verið öllu smekklegra, að fjölgunin í húsnæðismálastjórn hefði beðið eftir þessum nánari og ýtarlegri og stærri breytingum og lenging kjörtímabilsins í húsnæðismálastjórn líka, en að þau atriði væru ekki tekin með þessum auvirðilegu bráðabirgðabreytingum, sem hér hafa verið dubbaðar upp í frv. Ég sé ekki, að það beri nokkra nauðsyn til að fjölga í húsnæðismálastjórn, þegar sjóðurinn er félaus og lítt starfhæfur. Mér finnst það nánast hálfgert hneyksli. Það er naumast, að það liggur á að koma einum hv. sjálfstæðismanni í húsnæðismálastjórnina í viðbót við þá, sem fyrir eru, og það vita allir, hver maðurinn er. Það er ekki hægt að sjá annað en þetta sé eiginlega eini tilgangurinn með flutningi þessa frv. Það er rétt eins og þegar það varð að stórmáli nú á s.l. sumri, að það þurfti að gefa út brbl. til að breyta lögum um síldarútvegsnefnd, af viðkomandi ráðh. til að koma bróður hans með brbl. inn í nefndina. Það er annað hneykslið frá. Og svo vannst ekki tími til þess að staðfesta brbl. fyrir áramót, svo að bróðirinn varð að vera ólöglegur vikum og mánuðum saman í nefndinni eftir allt saman, svo að þetta gerðist allt með hálfgerðum harmkvælum, eins og til var stofnað.

Það var ljúflega og hófsamlega að orði komizt hjá þeim hv. þm., sem talaði hér á undan mér, þegar hann sagði, að megineinkenni þessa frv. væri það, hve skammt það næði. Það er ekki hægt að segja þetta elskulegar og láta meininguna þó skiljast. Megineinkenni þessa frv. er það, hve skammt það nær. Það nær nefnilega ekki nokkurn skapaðan hlut, það nær ekki neitt. Það er nálega eins og okkur var kennt í stærðfræðinni, að það væri óendanlega lítil stærð.

Við 2. umr. þessa máls fór það þannig, að alveg var sama, í hvaða átt brtt. við frv. fóru, allar voru þær strádrepnar, enda eru það orðin dagleg vinnubrögð hér á Alþingi, ef stjórnarandstæðingur vill leiðrétta prentvillu í frv., þá er það líka drepið. Það má ekkert komast í gegn, sem stjórnarandstaðan ber fram. Það er alveg víst, að henni mundi ekki takast að fá leiðrétta prentvillu, þótt hún bæri fram till. um það. Þannig er framkvæmdin á þingræðinu á Íslandi í dag og er stjórnarvöldum til lítils sóma. (Gripið fram í: Meiri hlutinn á að ráða.) Já, hann gefur heldur ekkert eftir af þeim rétti sínum að ráða, og hann fylgir því vel eftir að gefa minni hlutanum engan rétt, en það hefur hingað til verið talinn aðall þingræðisins, að minni hl. í þingræðisríkjum ætti einnig að hafa nokkurn rétt. (Gripið fram í: Hann á að hlýða.) E.t.v. meira en það, hann á sjálfsagt líka að þegja og hlýða.

Þær till., sem felast í því að breyta tölunni 100 í 150 á tveim stöðum í frv., eru vissulega til þess fallnar að vekja falskar vonir, því að til lítils kemur það, að hámark láns út á eina íbúð megi verða 150 þús. kr. í staðinn fyrir 100 þús. kr., þegar fjármagn sjóðsins er ekki aukið um einn eyri. Þessi þriðjungshækkun á hverju einstöku láni getur auðvitað ekki leitt til annars en að lánin verði þriðjungi færri, og við erum engu bættari við það. Og að því er snertir útgáfu bankavaxtabréfa Landsbankans, sem aldrei á undanförnum árum hefur náð 100 millj., eins og nú er heimilað í lögum, þá er ákaflega lítil huggun í því að gefa Landsbankanum enn þá rýmri heimild, færa hana upp í 150 millj., þegar 100 millj. kr. heimildin, sem er í lögum, hefur aldrei verið notuð.

Það, sem máli skiptir og ber að þrautreyna, er, hvort hv. þingmeirihluti á Alþingi situr enn fastur við sinn keip um það að vilja með engu móti fallast á, að sjóðnum sé tryggt aukið fjármagn. Ég flutti í gær tvær till. um þetta efni á þskj. 587, aðra till. þess efnis, að Seðlabankanum væri skylt að veita byggingarsjóði ríkisins 50 millj. kr. lán með 5½% ársvöxtum til íbúðabygginga á hverju ári í næstu fimm ár, frá og með árinu 1962 að telja, og að húsnæðismálastjórnin skyldi ráðstafa þessum lánum í samræmi við útlánareglur sínar. Þessi till. var drepin, eins og kunnugt er, eins og allar aðrar. Ég vil nú freista þess að bera fram eins konar varatillögu við þessa till., því að mér finnst ekkert eðlilegra en að Seðlabankinn, sem nú er gumað mikið af að hafi safnað til sín miklu sparifé, sem hann lumar á, verji einhverjum brothluta af því, fimmta eða sjötta parti, til þess að gera byggingarsjóð ríkisins starfhæfan með nokkru framlagi. Ég hef því leyft mér að bera nú fram aftur brtt. um það, að slík kvöð sé lögð á Seðlabankann, en að upphæðin, sem var í till. í gær, 50 millj. kr., verði nú ákveðin 40 millj. kr. Ætti hún þá að vera komin niður í það, að það væri aðgengilegra fyrir hv. meiri hl. að samþ. till.

Í annan stað taldi ég rétt, að ríkissjóður greiddi byggingarsjóðnum 20 millj. kr. sem óafturkræft framlag á árinu 1963 og næstu fjögur ár. Þetta væru nánast skaðabætur til sjóðsins fyrir það, að ríkisvaldið hefur svipt hann þeim tekjum, sem honum voru ætlaðar með hátekjuskattinum eða stóreignaskattinum, sem nú hefur verið, eins og áðan var sagt, lagður niður eða hætt við að innheimta hann að mestu eða öllu leyti. Ég vil nú bera fram eins konar varatillögu við þessa till. og sætta mig við, að upphæðin yrði eigi hærri en 15 millj. kr. Ef þessar till. yrðu samþ., væri það búið að fá eitthvert innihald, að lánahámarkið væri 150 þús. á einstaka íbúð í staðinn fyrir 100 þús., en er ekkert nema dauður bókstafur, ef engar ráðstafanir eru gerðar til þess að afla sjóðnum tekna. Þá leiðir það eingöngu til þess, að verði lánsupphæðin hækkuð, þá fækkar lánunum að sama skapi.

Þær till., sem ég því leyfi mér að flytja nú skriflega, eru tvær, og hljóða þær þannig, með leyfi forseta:

„Á eftir 4. gr. frv. komi ný gr., svohljóðandi: Seðlabankinn skal veita byggingarsjóði ríkisins 40 millj. kr. lán með 4% ársvöxtum til íbúðabygginga ár hvert næstu 6 ár frá og með árinu 1962 að telja. Lánstíminn sé 40 ár. Lánum þessum skal húsnæðismálastjórn ráðstafa í samræmi við útlánareglur sínar.“

Þetta er fyrri till. Síðari till. er svo hljóðandi: „Ríkissjóður greiðir byggingarsjóði ríkisins 15 millj. kr. sem óafturkræft framlag á árinu 1963 og síðan jafnháa upphæð árlega í næstu fjögur ár.“

Tölurnar eru sem sé lægri en í till. í gær, og má því líta á þessar till. sem varatillögur. Tillögurnar eru of seint fram komnar og skriflegar, og vil ég því biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeim.